135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[11:39]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég legg til að breytingartillaga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar verði felld af þeirri ástæðu að frumvarpið er í dag skýrt um það hvaða rekstrarform eigi að vera á því félagi eða stofnun sem þarna er um að ræða. Hlutafélagaformið hefur verið ráðandi í þessum rekstri frá upphafi. Það hefur reynst vel og ekki verið ástæða til þess að breyta því.

Komi til þess að það þyki ástæða til að breyta því og pólitískur vilji myndist hér í þinginu til þess að breyta því yfir í ríkisstofnun eins og hv. þingmenn Vinstri grænna vildu (Gripið fram í.) helst þá er ljóst að málið þarf hvort sem er að fara fyrir þingið og verður þá breytt þar með lögum. Mér finnst nauðsynlegt að það sé skýrt í frumvarpinu hvaða rekstrarform eigi að vera á þessu og (Forseti hringir.) ég vil segja að ég er ekki í nokkrum vafa um að ábyrgð ríkisins er skýr í þessu sambandi. Ríkið setur lög um að þessi starfsemi skuli fara fram. (Forseti hringir.) Dómsmálaráðherra setur reglur um það og gerir samning við þann aðila sem um ræðir auk þess sem (Forseti hringir.) ríkið á þrjá fjórðu af (Forseti hringir.) hlutabréfum í þessu fyrirtæki. Ég held því að áhyggjur hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar af (Forseti hringir.) forræði ríkisins í þessu sé ástæðulausar.