135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[13:06]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega hefði ég getað haldið lengri ræðu og farið yfir styrk frumvarpsins í lengra máli, farið yfir það hversu vel er tekið utan um t.d. börn með sérþarfir. Gríðarlega vel er tekið á því og ég er á því að einnig sé tekið vel á þeim í grunnskólafrumvarpinu, það hefur mér þótt einn mesti styrkur þessara frumvarpa. En ég ákvað að láta nefndarálitið, sem ég stend að, duga í þeim efnum. En varðandi spurningar hv. þingmanns þá sagði ég henni áðan — og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur stundum kvartað yfir því að fá lítinn tíma til að skoða hluti og lesa hluti og fara yfir gögn og undirbúa slíkt — að ég hef ekki skoðað allar þessar tillögur efnislega. Ég er rétt búin að glansa yfir þær hér. Ég er ekki tilbúin að segja hér og nú hvort ég telji þær efnislega eiga að koma inn í frumvarpið, hreinlega vegna þess að ég hef ekki farið yfir þær í smáatriðum þó að ég hafi grófa hugmynd um hvað þær fela í sér.

Mér finnst sjálfsagt að skoða hugmyndina um mannréttindin og annað. Ég útiloka ekkert á meðan ég lofa engu. Ég hef haft allt of stuttan tíma til að kynna mér breytingartillögurnar sem eru hvorki meira né minna en í 11 liðum.