135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[13:59]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Kærleikurinn umber allt, segir á góðum stað. Hann á að umbera viðhorf, sjónarmið, trú og menningu allra einstaklinga. Umburðarlyndi, jafnrétti og virðing fyrir manngildinu eru hlutir sem ég tel ákaflega mikilvægt að við höfum með í uppeldisstarfi okkar. Ég held líka að það hafi víðari skírskotun. Það er líka gríðarlega mikilvægt þegar við horfum á alþjóðamálin — þau komu til umræðu í morgun, hvernig menningarheimarnir takast á og árekstrar verða á milli menningarheima. Þar höfum við einmitt tækifæri til að vinna á með því að uppfræða, kenna, skiptast á skoðunum, bera virðingu hvert fyrir öðru, að þau viðhorf séu samofin öllu okkar uppeldisstarfi, bæði hér og annars staðar.

Ég geri ekki lítið úr kristinni arfleifð íslenskrar menningar nema síður sé, en mér finnst mikilvægt að menn hafi þetta í huga. Þetta hefur mjög breiða skírskotun og ekki má horfa á þetta út frá þröngu sjónarhorni okkar á Íslandi, út frá því sem við erum að gera í dag. Það á að reyna að víkka þessa sýn út að mínu mati. Ég held að það sé líka forsenda þess að við getum komið á friði og sátt milli samfélaganna sem búa á þessari jörð.