135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:03]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eftir matarhlé var dreift hér í þingsalnum svari forsætisráðherra við fyrirspurn minni um utanferðir ráðherra frá myndun núverandi ríkisstjórnar. Svarið að finna á þingskjali 1072. Ég fékk tilkynningu um að svarið lægi fyrir í tölvupósti nokkrum mínútum síðar eða einhverju síðar. Í 6. mgr. 49. gr þingskapa segir, með leyfi forseta:

„Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið og skal það prentað og útbýtt meðal þingmanna á fundi.“

Ég sé ekki betur, frú forseti, en að hér hafi verið farið öfugt að þegar byrjað var á því að útbýta þingskjalinu áður en fyrirspyrjandi fékk það sent. Ég spyr hverju það sætir.