135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:06]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er rétt að það er fleira sem er athyglisvert eða vert að gera athugasemdir við við málsmeðferðina hér. Eins og menn muna kannski hef ég ítrekað rekið á eftir svari við þessari fyrirspurn minni en henni var útbýtt 2. apríl. Síðast óskaði ég eftir því að forseti ræki á eftir þessu í gær.

Nú gerist það, frú forseti, að klukkutíma áður en þessu svari er útbýtt í þingsal á þingskjali 1072, þá fæ ég það í hendur frá fjölmiðli í pósthólf mitt í tölvupósti. Svarið er komið til fjölmiðla og til mín áður en því hefur verið útbýtt. Ég óska eftir því, frú forseti, að leitað verði skýringa á þessu þar sem ég tel þetta fullkomlega óeðlilegt í alla staði. Ég óska eftir því að forseti leiti eftir skýringum á því hvaða vinnuregla er í gildi í ráðuneytunum gagnvart fyrirspurnum (Forseti hringir.) á þinginu sem þeim ber að svara að jafnaði tíu dögum eftir að máli er útbýtt.