135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:20]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég er ekki ósammála hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um það. Í því ágæta sveitarfélagi Mosfellsbæ er rekinn leikskóli í anda Hjallastefnunnar en af sveitarfélaginu. Ég tók hins vegar Hjallastefnuna sem dæmi vegna þess að hún er þekkt innan einkareknu leikskólanna sem sérstök og þar ruddi hún sér til rúms ef við getum komist svo að orði.

Ég verð bara að fá að segja það hér og nú, hæstv. forseti, að ég hef ekki gert upp hug minn um hvort leikskólinn ætti að vera gjaldfrjáls eða ekki. Taki menn þá ákvörðun þá verður það að vera í samskiptum ríkis og sveitarfélaga eins og ég sagði áðan og líka hvað pakkinn kostar. Það er frumskilyrði til þess að til þess geti komið.

Ég orðaði það hins vegar svo að veita ætti öllum börnum leikskólavist en á meðan við getum það ekki eru það takmörkuð gæði að ákveða að leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls þegar takmörkuðum hluta barna frá tveggja til sex ára er veitt þessi þjónusta. Ég held líka að í því sé fólgin mismunun og við eigum ekki að auka þá mismunun sem fyrir er.

Ég get tekið heils hugar undir að það er dapurt að sjá hversu hátt verð sumir foreldrar þurfa að greiða fyrir leikskólavist utan höfuðborgarsvæðisins. En ég bendi á að það er æðimargt á landsbyggðinni sem er í öfugu hlutfalli við það sem er hér á höfuðborgarsvæðinu og nefni ég t.d. íbúðaverð og annað í þeim dúr. Það er hins vegar allt annað verkefni sem þingheimur þarf að skoða og taka á.