135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:28]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek það fram að mér er fullkunnugt um það frábæra starf sem fram fer á leikskólum og það þróunarstarf sem þar hefur farið fram frá upphafi í hvaða leikskóla sem er og eftir þeim ólíku stefnum sem þar eru.

Það sem ég átti við með þessu er að ég held að það sé, eins og stendur í frumvarpinu, hægt að veita einhverjum skóla tímabundið leyfi til þess að kalla sig þróunarskóla og menn fari af stað með tiltekna hugmynd sem þeir vilja þróa og skoða. Síðan er lagt mat á það hvernig sú þróun og það starf gengu fyrir sig. Hafi það ekki gengið sem skyldi þá sé leyfið fyrir þróunarskólanum ekki lengur inni.

Þetta er túlkun mín á þessu orði, þróunarskóli. Þannig held ég að hægt sé að skoða það. Það er ekki verið að setja almennum leikskólum einhverjar skorður um að þróa sínar stefnur, taka upp nýja stefnu eða breyta stefnu innan hvers skóla. En þarna gefst þó tækifæri til þess að segja af eða á og leggja þá þann þróunarskóla niður ef hann stenst ekki væntingar.

Umræður innan nefndarinnar voru almennt þær að þróun í leikskólunum og þróun í skólastarfi í landinu sé góð. Það má kannski segja að það sé þá engin sérstök ástæða til að setja þessa 29. gr. En hún gefur okkur engu að síður tækifæri vegna þess að þróun í skólastarfi hefst að sjálfsögðu í grasrótinni og byggist á áhuga þess fagfólks sem þar vinnur hverju sinni. Það geta komið hópar sem vilja fá að prófa eitthvað annað og setja á laggirnar skóla tímabundið eða annað og þá falla þeir undir 29. gr. Vænti ég að þetta svari í það minnsta að hluta til spurningu þingmannsins.