135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:06]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð þvert á móti glaður ef Samfylkingin kemur einhverju af því fram sem hún lofaði og var skynsamlegt. Áherslur okkar fóru vissulega í veigamiklum atriðum saman, t.d. hvað varðaði velferðarmál, enda var búið að stilla saman strengi stjórnarandstöðuflokkanna frá síðasta kjörtímabili í þeim efnum.

Ég átta mig líka á því að Samfylkingin er í samsteypustjórn þótt stundum sé nú talað um að þetta séu tvær ríkisstjórnir. En við skulum segja að Sjálfstæðisflokkurinn skipti hér einhverju máli. Tregðan er þá kannski þar enda sagði ég að manni hefði strax liðið betur ef maður hefði séð þessi einhver merki að Samfylkingin hefði sýnt lit, að hún hefði reynt. Samfylkingin kann greinilega ýmsar aðferðir í þeim efnum. Hún gæti t.d. lýst ósamkomulagi sínu við Sjálfstæðisflokkinn um það að leikskólinn verði ekki gjaldfrjáls, svona eins og í hvalveiðimálinu. Það væri hægt að nota þá aðferð. Að koma bara hér og segja: Ja, heyrðu, Samfylkingin er ósammála því að leikskólinn skuli ekki vera gjaldfrjáls en því miður eru menntamál á forræði Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórn Íslands er fjölskipað stjórnvald. Þannig að við þetta verður að búa.

Ég tek ekki undir það að eitt ár sé of skammur tími og ósanngjarnt sé að gera kröfur á nýjan stjórnarflokk að hann sé farinn að sýna lit í stórmálum af þessu tagi þegar ár er liðið og ekki endilega af svo mörgum sem kunna að reynast til stefnu. Við skulum ekki gefa okkur að þessi daufa ríkisstjórn sitji út fjögur ár.

Þvert á það sem hv. þingmaður segir, að það muni vekja undrun hversu miklu ríkisstjórnin sé búin að koma í verk, held ég nú að þjóðarsálin sé með það alveg á hreinu. Hún er búin að átta sig á því að þessi stóra og mikla ríkisstjórn með þennan mikla meiri hluta er alveg óvenjulega verklaus og daufgerð. Það er almannarómur. Ég held að menn hljóti að hafa heyrt það ef þeir hafa verið úti á meðal almennings.

Það hefur t.d. vakið forundran hversu dauf og sein til ríkisstjórnin hefur verið í sambandi við efnahagsmálin og mörg fleiri mál. Þannig að hér hefur Samfylkingin sannarlega haft tækifæri til að gera betur. (Forseti hringir.)