135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:08]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við höfum hér til umfjöllunar frumvarp til laga um leikskóla sem er eitt af nokkrum frumvörpum sem eru á dagskrá og eru komin frá menntamálanefnd og varða skólastarf í landinu. Eins og greina má í nefndaráliti og breytingartillögum sem fylgja frumvarpinu og í ræðum talsmanna stjórnmálaflokkanna í menntamálanefnd hefur í meginatriðum verið nokkuð góð samstaða um frumvarpið. Almennt eru bæði nefndarmenn sem talað hafa í málinu nú þegar og umsagnaraðilar þeirrar skoðunar að hér sé á ferðinni framfaramál og vil ég taka undir það.

Leikskólinn er gríðarlega mikilvægt skólastig í samfélagi okkar og vægi hans hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum. Nokkuð er um liðið frá því að leikskólinn var upphaflega skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Áður fyrr, fyrir alllöngu síðan, voru málefni leikskólans, sem þá voru kölluð barnaheimili eða dagvistarstofnanir, á forræði félagsmálaráðuneytis og það endurspeglaði þann tíðaranda sem þá var. Það hefur sennilega verið í kringum 1990, hygg ég, sem þessu var breytt, að málaflokkurinn var fluttur á milli ráðuneyta yfir í menntamálaráðuneytið til þess að undirstrika að hér væri á ferðinni skólastig og nám. Þetta gerist sennilega í leikskólalögunum 1991, ef ég man rétt, og í leikskólalögunum frá 1995 er síðan skilgreint með afgerandi hætti að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í landinu.

Fleiri atriði hafa verið í þróun í þessu efni. Ég vil t.d. nefna menntun leikskólakennara sem áður var í Fósturskóla Íslands, var síðan komið inn í Kennaraháskóla Íslands sem merki um að um skólastarf væri að ræða. Félag leikskólakennara sameinaðist svo fyrir allnokkrum árum öðrum kennarafélögum í Kennarasambandi Íslands. Þessi þróun hefur verið í gangi undanfarin ár og ég tel að hún sé jákvæð og að hún hafi styrkt leikskólastarfið í landinu.

Ég vil líka láta það koma fram að ég tel að leikskólinn hér á landi sé almennt með því besta sem gerist og þekkist í nálægum löndum og þótt víðar væri leitað. Enda eru mörg dæmi um það að fólk sem starfar með börn á leikskólaaldri í löndunum í kringum okkur kemur til Íslands til þess að kynna sér leikskólann hér. Það er einfaldlega orðið þekkt nokkuð langt út fyrir landsteinana að leikskólastarf hér stendur mjög framarlega og þróun í leikskólastarfi er ör og við höfum verið í fararbroddi hvað þessi mál snertir.

Ég átti sjálfur kost á því að kynnast leikskólanum mjög vel sem skólastigi, ekki bara sem foreldri hér í Reykjavík heldur sem borgarfulltrúi og formaður leikskólaráðs Reykjavíkur á árunum 1994–1998. Ég minnist þess að þegar Reykjavíkurlistinn tók við meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1994 voru leikskólamálin eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið sem við tókumst á við, ekki síst vegna þess að leikskólamálin höfðu í raun verið í ólestri. Ekki var litið á leikskólann sem raunverulegt skólastig. Ekki var litið svo á að börn ættu almennt rétt á að vera allan daginn í leikskólanum heldur aðeins hálfan daginn. Við kynntumst því hvaða vandræði voru fólgin í því fyrir foreldra leikskólabarna að þurfa eilíflega að vera á þeytingi í hádeginu með börnin á milli staða úr leikskóla, til dagmömmu í aðra vistun eða öfugt. Þetta var hvorki bjóðandi börnum né foreldrum.

Hófst þá mikið uppbyggingarstarf leikskólanna í Reykjavík. Ég held ég geti með nokkurri vissu fullyrt að það var brautryðjendastarf. Þó að vafalaust séu dæmi um sveitarfélög sem voru komin eins langt og Reykjavík og jafnvel lengra á þeim tíma held ég að almennt megi segja að Reykjavík hafi að vissu leyti rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög sem fylgdu í kjölfarið og byggðu upp leikskólakerfi sitt í þá átt að gera leikskólann almennan fyrir öll börn í sveitarfélaginu á tilteknu aldursskeiði. Var yfirleitt miðað við aldurinn tveggja til fimm ára en jafnvel talað um að brýnt væri að leikskólinn næði til yngri barna.

Samfélagið þarf að taka ábyrgð á því að brúa það bil sem í dag er á milli þess tíma er fæðingarorlofi lýkur þar til börn fá vist á leikskólum. Það er eitthvað misjafnt eftir sveitarfélögum og jafnvel innan sveitarfélaga hve langur sá tími er. Um heilt ár getur verið að ræða og í sumum tilfellum lengri tíma og samfélagið þarf að takast á við það verkefni að brúa það bil með einhverjum hætti. Það getur annars vegar gerst með því að fæðingarorlof sé lengt en hins vegar að farið sé neðar í aldri í leikskólanum eða blanda af þessu tvennu.

Við höfum í þessari umræðu talsvert talað um gjaldfrjálsan leikskóla. Það helgast að sjálfsögðu af því að um þann þátt er einna helst pólitískur ágreiningur varðandi leikskólann. Ég held að um aðra þætti í þessu máli sé ekki tiltölulega mikill ágreiningur. Ég tek eftir því að menntamálanefnd stendur sameiginlega að nefndaráliti um málið. Þar eru allmargar breytingartillögur sem nefndin stendur einnig sameiginlega að. Því ber að fagna að hægt sé að ná góðri samstöðu um jafnþýðingarmikinn málaflokk og hér er á ferðinni.

Engu að síður eru hér nokkrar viðbótarbreytingartillögur sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir flytur. Sumar þeirra eru þess eðlis að um þær ætti ekki að þurfa að vera neinn pólitískur ágreiningur ef menn ígrunda þær vel og vandlega. Ég vísa þar m.a. til breytingartillögu hennar í 1. tölulið á þskj. 1071 þar sem talað er um að setja inn í greinina um markmið leikskólans ákvæði um virðingu fyrir mannréttindum sem ég hygg að sé ábending frá mannréttindasamtökum. Þar er líka gerð tillaga um að sérstakur kafli komi um nemendur eða um leikskólabörn, um réttindi leikskólabarna og leikskólabarna með sérþarfir, m.a. hvað lýtur að réttindum þeirra barna sem hafa annað móðurmál en íslensku eða nota táknmál. Ég held að þetta séu breytingartillögur sem ekki ætti að þurfa að vera ágreiningur um ef menn setjast bara niður og skoða þær vel og vandlega.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að pólitískur ágreiningur er um þær breytingartillögur sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur lagt fram og varða gjaldfrjálsan leikskóla. Ég tel óhjákvæmilegt að koma aðeins inn á það mál þótt það hafi nú þegar verið reifað hér af allnokkrum ræðumönnum.

Ég átti sæti í borgarstjórn og í meiri hluta í borgarstjórn þegar fyrstu skref voru stigin í því að innleiða gjaldfrjálsan leikskóla. Það var þáverandi hæstv. borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem nú er hv. 10. þm. Reykv. n., sem kynnti einmitt ákvörðun þáverandi meiri hluta um að innleiða eða hefja innleiðingu á gjaldfrjálsum leikskóla í Reykjavík. Um það var mjög góð pólitísk samstaða á milli þeirra flokka sem þá störfuðu saman í meiri hluta, sem voru Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, meðal borgarfulltrúa hennar var einmitt Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þá borgarstjóri og nú þingmaður.

Ég held að ég muni það líka rétt að þegar þáverandi borgarstjóri kynnti þessar nýju áherslur eða nýju skref hafi hún fengið ákúrur frá ýmsum kollegum sínum í hópi framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Ég minnist þess m.a. að þáverandi bæjarstjóri á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson, núverandi þingmaður, og bæjarstjórinn í Kópavogi, Gunnar Birgisson, urðu ekki mjög sælir, svo vægt sé til orða tekið, með þær yfirlýsingar. Þeir töldu að Reykjavík væri að stíga skref sem hún gæti tekið í krafti stærðar sinnar og stöðu en sem önnur sveitarfélög gætu ekki fylgt eftir.

Þannig upplifði ég það og ég veit að með nýjum meiri hluta í Reykjavík hefur verið horfið frá þessari stefnu um gjaldfrjálsan leikskóla. Það er frekar þannig að verið sé að hækka gjöldin í leikskólum heldur en hitt. Þessar mismunandi pólitísku áherslur lúta að því að hve miklu leyti leikskólinn eigi að vera kostaður af sameiginlegum tekjustofnum sveitarfélagsins, þ.e. með almennri skattheimtu eða með einhvers konar þjónustugjöldum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur, má segja, þá skoðun að vilja frekar lækka almenna skatta en hækka þjónustugjöld. Það er alveg sama hvort við erum að tala um skólakerfið, heilbrigðiskerfið eða hvað annað. Það er hin almenna stefna hægri flokka að vilja fara þá leið og tekist er á um það í hinni almennu pólitísku umræðu. Við sem erum vinstra megin í stjórnmálum höfum viljað fara aðra leið. Við teljum að um mikilvæga samfélagslega þjónustu sé að ræða sem eigi að vera notendum að kostnaðarlausu, þ.e. að greiða eigi fyrir hana í gegnum almenna skattkerfið.

Staðan er sú hvað leikskóla varðar að foreldrar greiða u.þ.b. 30% af kostnaði við rekstur þeirra, aðeins mismunandi eftir sveitarfélögum. Restin er nú þegar greidd af sveitarfélögunum. Umræðan um gjaldfrelsi í leikskólum snýst því um það hvernig brúa eigi þau 30% sem í dag eru greidd af foreldrum en ekki restina.

Þarna er ég sammála þeim sem hér hafa sagt, m.a. hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að þetta þurfi að vera samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Það á að sjálfsögðu að setja það í gang og m.a. með vísan til þess sem ég sagði hér áðan um þátt Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur og innan Reykjavíkurlistans varðandi gjaldfrelsi í leikskólum. Þáverandi borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, tók ákveðið frumkvæði og er því þeim mun sorglegra og dapurlegra að verða þess áskynja hér, m.a. í andsvari hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar við ræðu Steingríms J. Sigfússonar, að Samfylkingin stendur ekki sína pligt í þessu máli. Hún stuðlar ekki einu sinni að því, eins og kosningastefnuskráin sagði, að gjaldfrelsi í leikskólum komist á.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði fyrr í þessari umræðu að Samfylkingin væri þeirrar skoðunar að glíma ætti við þetta verkefni á sveitarstjórnarstigi og að hún mundi vinna að þessum málum þar sem hún væri í sveitarstjórnum. Það er allt of billegt að ætla að afgreiða málið með þeim hætti. Samfylkingin var með ákveðin kosningaloforð í þessu efni og hún verður, ef hún ætlar að vera trúverðug, að sýna fram á það — og nú þegar fram fer heildarendurskoðun á löggjöf, m.a. um leikskólann, hefði gefist gullvægt tækifæri til að stíga a.m.k. einhver skref, að menn væru að minnsta kosti að byrja að þróa leikskólann yfir í það að vera gjaldfrjálsan ekki síður en grunnskólann.

Það er sérkennilegt, og fyrir því eru engin rök, að foreldrar greiði meira fyrir leikskóladvöl barns á ári en sem nemur t.d. skólagjöldum í einkareknum háskólum. En sú er einfaldlega staðan í dag. Foreldrar með börn á leikskólaaldri greiða hærri gjöld í leikskólum en sem nemur skólagjöldum í einkareknum háskóla.

Foreldrar með lítil börn eru yfirleitt, ekki undantekningarlaust, í þeirri stöðu að vera með margvíslegar aðrar skuldbindingar. Koma sér þaki yfir höfuðið með þeim kostnaði sem því fylgir, jafnvel með önnur börn í grunnskóla og því fylgir kostnaður. Því miður fylgir því heilmikill kostnaður að vera með börn í grunnskóla þó að hann eigi að heita gjaldfrjáls. Þetta vindur að sjálfsögðu upp á sig. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við stígum skref í þessa átt og ein leið hefði náttúrlega verið sú að hér hefði verið greint frá því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að setja á laggirnar einhvers konar samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga til þess að hefja vinnu við að undirbúa og kanna kosti, galla, kostnað o.s.frv. og hvernig mæta megi honum. Þá hefði m.a. mátt hafa til hliðsjónar hugmyndir okkar vinstri grænna í því efni.

En ekkert slíkt er til umræðu hér og það eru mér mikil vonbrigði og okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir marga þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa sannarlega og af heilum hug barist fyrir þessu markmiði. Ástæðan getur bara verið ein og hún er sú að Sjálfstæðisflokkurinn ræður för í þessu efni eins og í svo mörgum öðrum málum. Samfylkingin hefur tekið þann pól í hæðina að láta það yfir sig ganga af því að það er kannski aðgöngumiðinn að stjórnarstólunum. Mér finnst það dapurlegt og trúi því ekki að öllum þingmönnum Samfylkingarinnar líði vel með það.

Í þessari umræðu hefur svo sem margt annað borið á góma þó að þetta mál hafi verið hvað fyrirferðarmest. Það er skiljanlegt og helgast af því að um þetta er helst ágreiningur milli stjórnmálaflokkanna. Ég hef líka kynnt mér umsagnir sem hafa borist frá ýmsum hagsmunaaðilum og hef þegar í andsvari spurt hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvernig nefndin hafi fjallað um athugasemdir frá Kennarasambandi Íslands og Félagi leikskólakennara m.a. um þróunarleikskóla. Ég hef fengið svör við því hér, a.m.k. að einhverju leyti. En ég hef sem sagt vakið máls á því að í 29. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur veitt sveitarfélögum og sjálfstætt reknum leikskólum heimild til að reka þróunarleikskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga þessara, reglugerða settra á grundvelli þeirra og aðalnámskrár leikskóla.“

Þó að ég sé fylgjandi því að stutt sé við starf þróunarleikskóla finnst mér þessi undanþáguheimild býsna opin og lítið skilgreind. Ekki er sagt hvaða ákvæði það eru sem mætti þá víkja frá í lögunum. Mér finnst það býsna almenn heimild sem löggjafinn veitir ráðherranum, að hann megi víkja frá ákvæðum laga og reglugerða svo fremi sem leikskólinn beri heitið þróunarleikskóli. Ég skynjaði það þannig á svari hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur að þetta atriði hefði kannski ekki verið sérstaklega hugleitt í nefndinni og menn hefðu ekki beinlínis verið að velta því fyrir sér hvaða takmarkanir gætu hugsanlega átt við. En mér finnst rétt að vekja athygli á þessu, ekki síst vegna þess að þetta er atriði sem stéttarfélagið hefur vakið máls á.

Einnig má nefna ýmsar athugasemdir, m.a. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Mér sýnist að komið hafi verið til móts við sumar þeirra í breytingartillögum meiri hlutans, og það er að mínu mati vel. Ég fagna því líka að í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga er sérstaklega fjallað um kostnaðaráhrifin fyrir sveitarfélögin og vísað til þess að í fylgiskjali við frumvarpið hafi menntamálaráðuneytið og Samband ísl. sveitarfélaga ákveðið að vinna sameiginlega að því að meta kostnaðaráhrif þeirra lagabreytinga sem frumvarpið hefur í för með sér. Ég tel að það sé skref í rétta átt að greint sé frá því að meta eigi kostnaðaráhrifin enda þótt meginreglan eigi að vera sú að þau eigi að liggja fyrir þegar frumvarp er lagt fram — ég hef oft gert athugasemdir við það hér í þinginu að þau liggi ekki alltaf fyrir. Hér er alla vega komið til móts við það með þessum hætti.

Ég ætla að láta máli mínu lokið, frú forseti, um þetta að sinni. Eins og kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur stöndum við að sjálfsögðu að þeirri afgreiðslu og þeim stuðningi sem fulltrúar okkar í menntamálanefnd hafa léð málinu og að sjálfsögðu að þeim breytingartillögum (Forseti hringir.) sem eru sérstaklega fluttar af okkar hálfu.