135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:33]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er enginn að kveinka sér og ég bið hv. þingmann afsökunar ef ég hef eitthvað komið við veikan blett á hv. þingmanni í þessum efnum. En svona stór mál gerast á samstarfsvettvangi ríkis og sveitarfélaga og eins og ég sagði áðan veit hv. þingmaður það mjög vel.

Það er hins vegar afar sérkennilegt hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna að þeir reyna gjarnan að eigna sér einhver mál og vilja helst hafa alla sem andstæðinga í málinu. Að vísu kom fram hjá hv. þingmanni sem er hárrétt að við erum sammála í málinu. Við erum að vinna að framgangi málsins á mismunandi vettvangi með mismunandi aðferðum. Ég tel fullvíst að við höfum það sameiginlega markmið hvar við viljum enda það.

Þess vegna er afar sérkennilegt að hv. þingmenn skuli ekki geta notið þess að eiga samstöðu með einhverjum í málinu og upphefja samstöðuna frekar en vilja alltaf að gera lítið úr henni. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór í sögulegar útlistanir á því að í raun og veru ættu þeir nú þetta mál þótt einstaka hafi svo komið með í för.

Ég hef verið á svona sögufyrirlestri áður og ég hef verið á sögufyrirlestri sem komst að annarri niðurstöðu, þ.e. ef það skiptir einhverju máli hver reifaði það mál fyrst að leikskólinn ætti að vera gjaldfrjáls. Ég ætla ekkert að vera í einhverjum togum um það. Ef Vinstri hreyfingunni – grænu framboði líður betur með að halda að þeir hafi verið fyrstir til að uppgötva þetta í heiminum þá mega þeir eiga það fyrir mér vegna þess að ég veit hvernig málið er í raun og veru. Það skiptir auðvitað meginmáli.

Aðalatriðið er hvernig við vinnum málinu framgang. Ég er alveg klár á því að aðferðir vinstri grænna, að reyna að vinna málum framgang með því að hafa sem mestan ágreining um málin, er ekki leið sem skilar árangri. Ég er reyndar fullur efasemda um það yfir höfuð (Forseti hringir.) að sú stjórnmálahreyfing hafi mikinn áhuga á því að skila árangri. Ég held að þeir hafi miklu meiri áhuga á því að hafa ágreining helst um allt (Forseti hringir.) við alla.