135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:38]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta er stór dagur í þinginu í dag, enda fram komin hin stóru mál hæstv. menntamálaráðherra, en við ræðum nú leikskólann, grunnskólann og framhaldsskólann og þingið þarf að gefa sér tíma. Mér sýnist á öllu að í hv. menntamálanefnd hafi farið fram mikil vinna á vegum þingsins og margir verið kvaddir að þessum stóru verkefnum og það sé tiltölulega góð samstaða um grundvallaratriði þessara mála.

Sannleikurinn er sá að allir stjórnmálaflokkar hafa mikinn áhuga á menntamálum og íslensku stjórnmálaflokkarnir eru sammála um að skólarnir og menntunin skipti meira máli en nokkru sinni fyrr. Sú þjóð á nokkuð trygga framtíð sem á bestu skólana. Þar skipta kennarar og menntun þeirra mjög miklu máli. Þess vegna þurfum við að tryggja að hæfasta fólkið í samfélaginu séu kennarar í skólunum. Ég hef alltaf haldið því fram að það þurfi að vera mikið og gott samstarf á milli skólans, kennaranna og foreldranna sem eiga börnin í skólunum.

Framsóknarflokkurinn hefur látið sig varða menntamál á Íslandi meira en nokkur annar stjórnmálaflokkur í áratugi. Í rauninni var hann stofnaður utan um alþýðumenntunina. Hugsjónamaðurinn Jónas frá Hriflu, sem byggði upp mikla skóla og menntahugsjón á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar, hafði mikil áhrif og lagði mikinn grunn að þeirri alþýðumenntun sem átti sér stað á síðustu öld. Framsóknarflokkurinn hefur í rauninni alla tíð fylgt þeirri stefnu og látið sig varða menntun fjöldans, jafnræði einstaklinganna til að komast í skóla, að þar væru ríkir og fátækir jafningjar og ættu sömu möguleika. Þetta hefur verið stefna okkar frá upphafi.

Ég heyrði það einhvern tíma í vetur þegar hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom fram með þessi frumvörp og var eðlilega stolt af því að hún kvartaði undan því, sem ég undraði mig á, að það hefði ekki verið mikill áhugi fyrir menntamálum í síðustu ríkisstjórn. Ég verð að segja fyrir mig að við framsóknarmenn höfum alltaf haft áhuga á menntamálum og studdum hana sem menntamálaráðherra í öllu því sem hún var að gera. Sjálfur var ég menntamálaráðherra landbúnaðarins í átta ár, því að landbúnaðarskólarnir heyrðu undir ráðuneytið sem ég fór með og var ég þess vegna menntamálaráðherra landbúnaðarins, og tókst á við það í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og í góðu samstarfi við þingið að breyta tveimur litlum framhaldsskólum, bændaskólum, í háskóla, í metnaðarfulla háskóla, Háskólann á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þar hefur risið upp metnaðarfullt umhverfi. Nemendur eru ekki lengur eitthvað á annað hundrað heldur hátt í 500 í þessum tveimur skólum og aðsókn að þeim er mikil. Ég vil geta þess hér að þetta segir sína sögu, bæði um áhuga minn fyrir skólastarfi og að við höfum alla tíð komið að skólunum. Ég efast ekki um að hver einasti stjórnmálamaður á Íslandi eða stjórnmálaflokkur eigi sér þar kappsfull markmið. Svo er spurningin hvernig við komum málunum áfram, hvað er rétt og um hvað næst samstaða. Þar er því stundum deilt og svo ræður auðvitað fjármagnið töluverðu. Ég er sannfærður um að það var mikið heillaskref þegar grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna því grunnskólinn er helgasti staður hvers sveitarfélags og við þekkjum það úr sveitarfélögunum að þar er einnig mjög mikill metnaður fyrir skólastarfinu. Ég vil að það komi fram að sveitarstjórnarmenn og fólkið í landinu hefur gríðarlegan áhuga á skólastarfinu.

Margt gott er sett fram í þessum væntanlegu lögum um leikskóla sem ég held að verði mikilvægt framtíðinni. Leikskólinn á sér ekki langa sögu á Íslandi, tiltölulega stutta sögu, en hann er auðvitað gríðarlega mikilvægur í samfélagi dagsins. Ég fór á mis við það að ganga í leikskóla, hann var ekki til þegar ég var barn að aldri að alast upp á Brúnastöðum en ég var í leikskóla Brúnastaða með systkinum mínum og það voru góðir leikskólar, heimilin. Þar fór fram mikið uppeldisstarf ókeypis á þeim tímum. Foreldrarnir önnuðust það fyrir íslenska ríkið, má segja, án endurgjalds að mennta og ala upp börn sín. Íslensk alþýða kunni sannarlega að ala upp börn og rak góða leikskóla og í rauninni grunnskóla. Lífinu var lengi vel tvískipt á Íslandi því að börn í kaupstöðum fóru í grunnskóla kannski við sjö ára aldur en í sveitunum ekki fyrr en við tíu ára aldur. Þarna var mikil misskipting á þeim tíma. Ég er sannfærður um að ekkert er mikilvægara en að standa vörð um mjög sterkan leikskóla í sveitarfélögunum sem búi yfir mikilvægum markmiðum því að þar fer uppeldisstarfið fram í dag. Hluti af lífi heimilisins er kominn inn í leikskólana og kominn þangað til að vera og þar læra börnin margt. Foreldrarnir eru upp upptekin bæði við vinnu og annað þannig að leikskólinn hefur tekið við mikilvægu hlutverki. Þangað fara börn ung og þar taka þau sín fyrstu skref og ég dáist oft að því þegar ég kem í leikskólana bæði hvað þar er jákvætt og öflugt fólk við störf sem kennarar. Ég fagna því að sett eru fram markmið um menntun leikskólastigsins, hvernig því skuli hagað og hvaða kröfur skuli gerðar til þess og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að tveir þriðju hlutar stöðugilda hafi réttindi í kennslu, umönnun og uppeldi barna. Þarna eru sett háleit markmið sem ég styð heils hugar.

Við finnum náttúrlega á þessu góða starfi, sem á sér eins og ég sagði ekki langa sögu, að leikskólarnir hafa skilað miklu, þeir eru í mjög föstu formi sem mér finnst vera til þess fallið að börn verða fljótt hæf til margra hluta. Þau læra margt sem er mjög mikilvægt, að koma fram, syngja og dansa og takast á við lífið. Það er því fagnaðarefni hvernig tekist hefur til í þessum efnum á Íslandi og þess vegna er mikilvægt að halda utan um þetta mikla starf.

Það hefur dálítið verið tekist á um hugtakið kristilegt siðgæði á þessu þingi og það kemur enn frekar fyrir þegar við ræðum um grunnskólann en það snýr auðvitað líka að leikskólanum. Þar sýnist mér hafa náðst viðunandi sátt. Ég saknaði þess þegar þingmenn ætluðu og ráðherrann hafði lagt það til að kristilegt siðgæði yrði ekki lengur grunnstefið í stefnu skólanna. Við börðumst fyrir því, framsóknarmenn, að farið yrði vel yfir það og að samstaða næðist um að skilgreina vel hvernig skólarnir eigi að vera. Ég sé að breytingartillögur gagnvart grunnskólanum eru þannig að ásættanlegt er, sýnist mér, en þar segir: „Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“ Þetta eru falleg orð þó að ég sakni þess auðvitað að hið fallega orð „siðgæði“ verði ekki með þarna, því að það er eitt fallegasta orðið og einhver fallegasta hugsunin sem kristnin kom með inn í samfélag þjóðanna. Það er í rauninni ekki til neitt sem hefur bætt heiminn jafnmikið og kristið siðgæði. En ég sætti mig við þessar breytingartillögur og tel að þær séu mikilvægar.

Hér hefur mikið verið talað um gjaldfrjálsan leikskóla. Framsóknarflokkurinn á sér skýra stefnu fyrir leikskólastigið og ef ég má hlaupa yfir það, hæstv. forseti, þá segir í ályktun Framsóknarflokksins frá 2. og 3. mars 2007:

„Leikskólinn er fyrsta skólastigið. Hann á að vera uppeldis- og menntastofnun þar sem börn þroskast og læra gegnum leik og starf. Leikskólar eiga að starfa með þarfir nemenda sinna og samfélagsins að leiðarljósi. Mikilvægt er að tryggja öllum börnum aðgang að gjaldfrjálsri kennslu.

Leiðir: Skólaskylda hefjist við fimm ára aldur, í leikskóla.“ — Sem margir ræða um í dag.

Börn eru mjög hæf til að takast á við nám strax á þessum aldri. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort leikskólinn eigi strax að verða hluti af grunnskólastiginu og lögbundinn. Ég held að það yrði mjög flókið í okkar dreifbýla landi að setja þær skyldur á öll heimili að hann yrði hluti af grunnskólanum. Það er kannski annað mál að miða við fimm ára aldur og að það verði þá gjaldfrjáls kennsla þegar það næði fram. Koma á aukinni samvinnu leikskólakennara og kennara í yngri deildum grunnskóla og auka hlutfall fagmenntaðra starfsmanna á leikskólum, og mér sýnist vilji standa til þess hér. Auk leikskólakennara skal gefa íþrótta-, tónmennta- og listkennurum tækifæri á að vinna í leikskóla. Þetta eru mikilvæg markmið sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram gagnvart leikskólanum og mér sýnist að þetta frumvarp sé í þeim anda. Svo geta menn auðvitað deilt um hvort leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls og frír börnum. Þetta er náttúrlega mjög stórt hagsmunamál fyrir foreldra og göfug framtíðarsýn í mínum huga og við framsóknarmenn höfum sett það fram sem okkar hugsun að að því þurfi að vinna. Ég tek auðvitað undir það sem hér hefur komið fram að um slíka hluti þurfa sveitarfélögin og ríkið að ná saman og að tekjustofnar þurfa að vera í sveitarfélögunum. Við verðum líka að gæta að hinu að það þarf að vera jafnræði á milli sveitarfélaganna hvað þetta varðar, þau þurfa þá öll að ráða við það sama, að skólinn sé gjaldfrjáls. Ég hygg að þetta mundi kosta 6–7 milljarða en ég álít það eigi að síður göfugt verkefni að ná saman um það hvort hann eigi að vera alveg gjaldfrjáls — menn geta velt því fyrir sér, lítil þátttaka getur verið mikilvæg af hálfu foreldranna — og að skapa þessa aðstöðu að þetta sé nánast hluti af öryggi heimilisins og um leið menntastofnun. Það er mín framtíðarsýn að ríkisvaldið setjist yfir þetta stóra verkefni með sveitarfélögunum, hvort leikskólastigið eigi að ganga til móts við foreldrana og börnin og verða gjaldfrjáls stofnun.

Síðan er uppeldisfræði leikskólanna auðvitað mjög mikilvæg, eins og ég hef farið yfir, og að þar sé menntað fólk og það takist vel. Gamla uppeldisfræðin var góð. Ég hygg að besta uppeldisfræði sem ég hef lesið sé ævisaga séra Árna Þórarinssonar sem Þórbergur Þórðarson skrifaði. Hann segir þar frá uppeldi barna í uppsveitum Árnessýslu sem var með einstökum hætti. Þar var reglan að hafa mýktina að leiðarljósi, að tala við börnin eins og fullorðið fólk og fela þeim skyldur og verkefni. Mig minnir að þar segi að einhvern staðar t.d. að ef barn var beðið að sópa baðstofuna — sem kannski er bannað í dag út af Evrópusambandinu, ég veit það ekki — og barnið sópaði illa þá sagði móðirin eða faðirinn: Þú verður að sópa betur, þú verður að sópa aftur. Og barnið sópaði aftur. Svona lærðu menn að vinna og þetta var mikil uppeldisfræði. Allir ættu að lesa þessa ævisögu, hún er bæði skemmtileg og þar er svo margt fróðlegt um fornan tíma og þá menningu sem við Íslendingar höfum upplifað og eigum í okkar sögu og sýnir að hér var alin upp í kristilegu siðgæði rösk og dugleg þjóð.

Ég held að ekkert sé mikilvægara, bæði í leikskólum og grunnskólum, en góður íslenskur matur og það er stefna dagsins. Ég minnist þess að þegar ég var landbúnaðarráðherra var mér oft boðið í leikskóla og framhaldsskóla til að fylgjast með hvernig mötuneytin væru. Kokkarnir eða þjónustufólkið hafði áhuga á að landbúnaðarráðherra sæi hvernig íslenski maturinn væri tilhafður og það sögðu mér kennarar skólanna á þeim tíma að allt hefði breyst með skólamáltíðum, allt starf í skólunum hefði farið í fastara form. Um leið og þar var heitur og góður íslenskur matur á borðum gekk námið betur og aginn varð auðveldari. Ég held að það sé mjög mikilvægt átta sig á þessari staðreynd. Ég minnist þess líka að þegar ég byrjaði í þinginu fluttu þingmenn Framsóknarflokksins þing eftir þing tillögur um fríar skólamáltíðir í grunnskólunum. Ég fagna því í hve gott form þetta hefur verið að færast í mörgum skólum hvað matinn varðar og hve vel er að því staðið, því að ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir nemendur en ekki síður fyrir foreldra að vita að börnin fái þar góðan, öruggan og heilnæman mat. Annað væri virðingarleysi. Svo vil ég auðvitað halda því fram sem ég tel að sé mjög gott í leikskólanum og það er samstarfið við foreldrana. Skóli er framhandleggur heimilisins og það er mjög mikilvægt að eiga mikið og gott samstarf við foreldra um það sem skólinn er að gera, að foreldrarnir séu vel upplýstir o.s.frv.

Ég tel að þetta sé í sjálfu sér ágætismál. Ég geri mér grein fyrir því, sem hér hefur komið fram, að það er auðvitað rangt að halda að einhver einn stjórnmálaflokkur eins og Samfylkingin hafi á einum vetri breytt öllu í menntamálum sem hún hefur í rauninni ekki komið nálægt. Sannleikurinn er sá að með batnandi þjóðarhag hefur skólastarf á síðustu árum verið mjög öflugt og menntaþrá þjóðarinnar til að efla þekkingu sína verið mjög mikil og aldrei hafa á Íslandi setið fleiri einstaklingar, bæði ungir og fullorðnir, á skólabekk en á síðustu tíu árum. Það er engin breyting í því. Samfylkingin hefur ekki sett neitt mark á þetta starf en ég óska henni til hamingju með þann góða vilja sem hún á til að takast á við það.

Það er auðvitað fagnaðarefni eins og alltaf að þingið er mjög áhugasamt um menntamálin og þess vegna er mjög mikilvægt að gefa þessum málum enn frekar tíma til umræðu og skoðunar. Svo vil ég náttúrlega sem Íslendingur segja að ekkert er mikilvægara í grunnskólanum en góð málörvun og íslenskukunnátta allra sem þar koma að, að mikið sé lagt upp úr því strax hvað íslenska tungu varðar að börnin nái tökum á okkar fallega máli. Mér finnst leikskólarnir vera til fyrirmyndar að því leyti, mér finnst lítil börn tala fallega íslensku og ég finn að skólarnir standa sig vel á þessu sviði. Menntamálaráðuneytið verður auðvitað að fylgja því vel eftir með gögnum sem þarf til kennslunnar og styðja sem best við skólastarfið.

Ég sé að tíma mínum er lokið, hæstv. forseti, og get þess vegna hætt núna en mér sýnist að hér sé hið prýðilegasta mál á ferðinni um leikskólana.