135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:58]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. þm. Guðna Ágústssyni um að það er fátt betra en góður íslenskur matur og mikilvægt að bjóða upp á hann í skólunum. Það eru blikur á lofti í þeim efnum eins og við sem glímum við þingstörfin þessa dagana vitum, mötuneytin gætu þess vegna fyllst af innfluttu kjöti.

Það var ekki það sem varð til þess að ég ákvað að fara í andsvar við þingmanninn heldur það sem hann var hér að fjalla um, um fimm ára börnin og möguleikann á því, eins og ég skildi hann, að fimm ára börn væru vel hæf til þess að vera í námi og að hugsanlega ætti að vera skólaskylda á þeim aldri. Mér finnst þetta vera mjög athyglisverð hugsun, að hluti leikskólans verði gerður að skólaskyldu og ég er sammála honum í því að það á ekki að þýða það að flytja þann aldur inn í grunnskólann nema síður sé heldur ætti það þá að vera á forsendum leikskólans sjálfs. Leikskólinn er auðvitað sérstakt skólastig og það eru sérstakar hefðir og starfsaðferðir sem eru notaðar í leikskólanum sem byggja á öðrum þáttum en í grunnskólanum og ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því. En mér finnst vel koma til álita og mér finnst það vera hugsun sem á heima í þessari umræðu, jafnvel þó að það sé ekki í tillöguformi hér nú þá finnst mér það vera hugsun sem vel mætti fara að þroska, hvort í einhverjum hluta leikskólans, t.d. í efsta árganginum eða í tveimur efstu væri skólaskylda í þeim skilningi að það væri skylt að fara í leikskóla á þeim tíma jafnvel þó að starfið þar væri á forsendum leikskólans. Það mundi jafnvel auðvelda umræðuna um gjaldfrelsið o.s.frv.