135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:02]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála því sem kemur fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni. Fyrst aðeins varðandi matinn, mötuneytin eru mjög mikilvæg og ég held að það sé rétt lýsing sem hann var að gefa að þegar mötuneytin voru tekin upp — þau voru auðvitað víða um land, sérstaklega í dreifbýlisskólum, ég tala nú ekki um þar sem var heimavist að einhverju leyti, en ég held að það hafi verið mikið framfaraspor þegar þau voru tekin upp í skólum almennt. Ég þekki það, á sínum tíma heimsótti ég alla leikskóla í Reykjavíkurborg og lét aldrei hjá líða að fara í eldhúsið og kynna mér það sem þar fór fram og veit að það er mikilvægt einmitt upp á gæði matvælanna að það sé eldað á staðnum. Sú umræða hefur oft komið upp hvort ekki sé hægt að kaupa matinn að og flytja í bökkum o.s.frv., það á ekki bara við um leikskóla og grunnskóla, þetta kemur upp á öldrunarstofnunum líka, en ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir gæði matarins að eldað sé á staðnum og vil bara árétta það.

Varðandi svo með kennsluskyldu eða skólaskyldu fyrir fimm ára börn finnst mér sem sagt og ítreka það að mér finnst það vera mjög athyglisvert að taka upp þá umræðu á næstunni, m.a. við fagstéttirnar sem starfa í leikskólunum og aðra áhugamenn og hagsmunaaðila í þessu sambandi, hvort það sé ekki eitthvað sem við gætum farið að vinna að og þróa að það yrði tekin upp einhver kennsluskylda eða skólaskylda í efsta eða efstu árgöngum leikskólans, en eins og ég segi og ítreka á af minni hálfu, á forsendum leikskólans sjálfs að sjálfsögðu.