135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:21]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil enn þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirferð og þessa hugsun því það er nú svo að í öllum fjölskyldum eru einhverjir einstaklingar, einhver börn, kallaðir fatlaðir, þurfa á sérhjálp að halda. Oft er það tímabundið. Stundum er það tímabundið. Stundum er það varanlegra. En það sem ég vek athygli á er auðvitað það dásamlega hvernig við höfum leitt fram börnin okkar sem í rauninni var farið með eins og óhreinu börnin hennar Evu fyrir nokkrum áratugum, sett til hliðar í samfélaginu og urðu þau í rauninni aldrei þátttakendur í samfélaginu. Þess vegna er svo mikilvægt að sjá þá breytingu sem hefur orðið í skólastarfinu og kannski með leikskólanum, að það er verið að sinna sérþörfum þessara barna. Ég vil þess vegna alveg sérstaklega taka undir það með hv. þingmanni að ég styð það heils hugar að þessi mál verði skoðuð út frá öllum þeim þörfum hvað þessi börn varðar og foreldra þeirra því það getur stundum verið erfitt að vera foreldri. Einhver sem sagður er fatlaður, sem menn vita kannski ekki hvernig á að fara með í skólanum, þarf á mikilli samhjálp að halda. Enn getur þetta fólk átt við erfiðleika að stríða að tjá sig um málið og þess vegna er um að gera að opna þessi mál sem allra mest og ríkinu og sveitarfélaginu ber enn og aftur að fara yfir það út frá þeim sjónarmiðum sem komu fram í máli hv. þingmanns hér þannig að það styð ég heils hugar.