135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:43]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum býsna mikilvægt mál. Það er fagnaðarefni að sjá og heyra hversu mikil vinna og metnaður hefur verið lagður í störf þingnefndarinnar. Ég verð að segja að það er að sjálfsögðu eins og vera ber. En af kynnum mínum af öðrum nefndum þingsins frá því í haust veit ég að það ekki alltaf þannig.

Við búum við mjög góðan leikskóla. Hann er skilgreindur í raun sem fyrsta skólastigið. En því miður, verð ég að segja, er ekki skólaskylda á þessu skólastigi. Ég sakna þess eins og væntanlega fleiri að í 1. gr. þessara laga sé ekki kveðið skýrt á um að leikskólinn sé ætlaður öllum börnum og eins og bent var á hér fyrr í dag að í 12. gr. skuli ekki tekið sérstaklega fram að skólahúsnæði í leikskóla og aðstaða skuli taka mið af þörfum allra barna eins og er með grunnskóla, sem sagt þörfum fatlaðra barna líka, og loks tel ég miður að í þessu frumvarpi sé í 27. gr. gert ráð fyrir gjaldtöku fyrir hvert barn í leikskóla. Það er að vísu heimildarákvæði. En meðan sveitarstjórnir hafa ekki það lögboðna verkefni að reka leikskóla og ekki er um það samningur við ríkið þá er ljóst og reynslan sýnir að sveitarstjórnir taka gjald fyrir leikskólavistina.

Þessi umbúnaður sem ég hér nefni, að ekki er skólaskylda á þessu fyrsta skólastigi, býður gjaldtakan í raun upp á mikið ójafnræði og streitu. Ég vil leyfa mér, frú forseti, að vitna í álit ASÍ sem lagt var fyrir menntamálanefnd þar sem er fjallað um þetta atriði. Í 1. tölulið er talað um skort á skýrum rétti barna og skyldum sveitarfélags í þessum efnum. ASÍ segir, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum með frumvarpinu er greint frá því að Ísland sé eitt fárra landa þar sem leikskólastigið hefur verið skilgreint sem sjálfstætt skólastig. Hins vegar er ekki að finna skýr ákvæði í frumvarpinu um rétt barna (og foreldra þeirra) til þjónustu á þessu skólastigi eða skyldur sveitarfélaga í þeim efnum.“

Litlu síðar segir, með leyfi forseta:

„Þessi staðreynd rýrir mjög gildi frumvarpsins og viðheldur ástandi sem einkennt hefur stöðu barna (og foreldra þeirra) víða um land í þessum efnum.

Eitt erfiðasta úrlausnarefni sem foreldrar standa frammi fyrir þegar lögbundnu fæðingarorlofi lýkur er að tryggja börnum sínum örugga og góða dagvistun og þroskavænlegar aðstæður þegar þeir fara aftur á vinnumarkaðinn.“

Síðan er fjallað í álitinu um þá óvissu sem foreldrar búa við um það hvort og hvenær tekst að tryggja dagvist og loks er í þessum kafla álits Alþýðusambands Íslands fjallað um 27. gr. um gjaldtökuheimild. Þar er tekið fram, eins og kemur fram í 27. gr., að það gjald sem sveitarstjórnum er heimilt að taka má ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur meðalraunkostnaði fyrir dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélaganna. Svo segir, með leyfi forseta:

„Hér er að mati Alþýðusambandsins sveitarfélögunum gefin allt of rúm heimild til gjaldtöku á þessu fyrsta skólastigi.“

Alþýðusamband Íslands gerir tillögu um að kveðið verði skýrt á um það í lögum að sveitarfélögum skuli skylt að bjóða öllum börnum sem þar búa leikskóladvöl við hæfi að lágmarki frá 18 mánaða aldri. Síðan er bent á að við núverandi aðstæður verði að vera bráðabirgðaaðlögun að lagasetningu um þetta. Enn fremur leggur Alþýðusambandið til að menntamálaráðherra gefi árlega út reglugerð sem kveði á um hámarksgjaldtöku.

Ég verð að segja að ég get tekið undir, frú forseti, þann þátt í áliti Alþýðusambands Íslands sem fjallar um nauðsyn þess að kveða skýrt á um rétt barna til veru á leikskólum og jafnframt að það þurfi að tryggja með lögunum hver eigi að reka þá. Alþýðusambandið telur hins vegar að þetta eigi að vera eingöngu skylda á herðum sveitarfélaga.

Eins og hér hefur komið fram í dag er það hugmynd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og tillögur til margra ára að rekstur leikskóla eigi að vera samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga og að leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls. Alþýðusamband Íslands leggur hins vegar til að það verði gjaldtaka af hálfu sveitarfélaganna, það verði ekki eins rúmar heimildir og nú er lagt til að verði veittar í 27. gr. frumvarpsins og að menntamálaráðherra ákveði með reglugerð hámarksgjaldtöku fyrir hvert barn, eins og ég hef þegar rakið.

Ég verð að segja að mér þykir mjög miður að hv. menntamálanefnd hefur ekki fallist á tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um gjaldfrjálsan leikskóla og vil hvetja þingheim að samþykkja að þær breytingartillögur sem fulltrúi okkar í nefndinni, Kolbrún Halldórsdóttir, hefur lagt þar til því við höfum lagt upp með áætlun um hvernig hægt verði að ná þessu markmiði á tilteknum tíma. Nokkur sveitarfélög þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft aðstöðu til þess að hafa áhrif hafa tekið þetta markmið upp og eru að byrja að feta sig inn á þá braut. Það væri mjög mikilvægt ef að í heildarlöggjöf núna um leikskólann í landinu væri tekið undir þetta sjónarmið þó ekki væri nema til markmiðs, en því miður hefur hv. menntamálanefnd ekki fallist á það.

Ég vil líka vekja athygli á því að það er ekki aðeins að kostnaðurinn við gjöldin sem slík skipti máli. Það þarf líka, eins og kemur fram í breytingartillögum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að tryggja að skólamáltíðir séu ókeypis og að þær séu hollustusamlegar. Það þarf líka að tryggja skólaakstur á leikskólastiginu.

Frú forseti. Það er mjög eðlilegt að hér hafi verið nokkuð fjallað um stefnu og störf Samfylkingarinnar. Því miður kemur ekki fram í þessu frumvarpi eða nefndarálitinu sú yfirlýsta stefna Samfylkingarinnar sem var flaggað fyrir síðustu kosningar, að flokkurinn vilji stefna að gjaldfrjálsum leikskóla. Eftir því er kallað hér því við vitum að Samfylkingin hefur þar sem hún hefur meðal annars verið í samvinnu við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í sveitarstjórnum lagt þessu máli lið. Því er eðlilegt, frú forseti, að kallað sé eftir skýringum á því hér hvað veldur. Hér hafa komið fram þær skýringar að þetta sé verkefni sveitarfélaga. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi það áðan að Samfylkingin teldi að þetta ætti að vera verkefni sveitarfélaga og því væri þetta ekki í þessu frumvarpi. Það er óeðlilegt að vísa þessu verkefni alfarið á hendur sveitarfélaga með þeim hætti. Þingmenn Samfylkingarinnar vita í hvaða fjárhagsvanda sveitarfélögin eru og að ekki er hægt að leggja nýjar fjárhagslegar byrðar og skyldur á sveitarfélögin með lagaboði. Þess vegna verður ríkið í rauninni að ganga á undan og leggja til og koma með tillögu um að stefnt verði að gjaldfrjálsum leikskóla og leggja þá sitt af mörkum í því fjárhagslega líka.

Frú forseti. Ég ætla að víkja aðeins að starfsfólki leikskólans. Ég vil taka heils hugar undir tillögur nefndarinnar sem lýst er í nefndaráliti um að starfsfólki leikskólans verði ekki skipt í tvo hópa, annars vegar leikskólakennara og svo hins vegar hina starfsmennina þegar kemur að símenntun og tillögu nefndarinnar um að allir starfsmenn leikskólans skuli njóta hennar. Þessi breytingartillaga frá nefndinni er væntanlega fram komin vegna mjög harðrar gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni um stöðu annars starfsfólks en leikskólakennara eins og hún var upp lögð í frumvarpinu þegar það var lagt fyrir þingið. Tillagan er þannig að í hluta af nýrri grein sem verður 7. gr. og fjallar um starfsfólk leikskóla segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Að frumkvæði leikskólastjóra skal móta áætlun um hvernig símenntun starfsfólks skuli hagað svo að hún sé í sem bestu samræmi við áherslur leikskóla, sveitarfélags og skólanámskrár.

Leikskólastjórar og starfsfólk leikskóla skulu samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar og eftir því sem kann að vera mælt fyrir um í kjarasamningum eiga kost á símenntun í þeim tilgangi að efla starfshæfni sína, kynnast nýjungum í leikskóla- og uppeldismálum og njóta stuðnings við nýbreytni- og þróunarstörf. “

Hér er nýmæli á ferð og hreyft mjög mikilvægu máli. En það vekur nokkra athygli að það er áherslumunur á niðurstöðu nefndarinnar annars vegar og svo hins vegar á tillögum Alþýðusambands Íslands og Eflingar þar sem lögð er mikil áhersla á að starfsfólk leikskólanna fái raunfærnimat og geti öðlast tiltekin réttindi til starfans. Það er vakin athygli á því í áliti ASÍ að 74 einstaklingar hafi þegar lokið tveggja ára leikskólaliðanámi og að 80 til viðbótar séu í því námi. Það skýtur svolítið skökku við nú þegar mikil mannekla háir starfsemi leikskólanna og aðeins um 30% starfsmanna, alla vega í Reykjavík, eru leikskólakennaramenntaðir að þá skuli með frumvarpi um menntun kennara og svo framvegis sem liggur líka fyrir þinginu, þessum hópi starfsmanna sem ekki eru leikskólakennarar vísað í óvissu hvað ráðningaröryggi varðar.

ASÍ leggur sem sé áherslu á að þeim starfsmönnum sem nú eru starfandi í leikskólunum og ekki hafa leikskólakennaramenntun verði gefinn kostur á og gert mögulegt að fá raunfærnimat og sækja sér menntun á þessu sviði, þar með talið til að öðlast réttindi sem leikskólakennarar. Og ASÍ gengur lengra og leggur fram beina tillögu um að svo megi verða. Að hluta til hefur nefndin fallist á þetta sjónarmið. Það kom fram gagnrýni á að í frumvarpi um menntun kennara og leikskólastjórnenda sem liggur fyrir þinginu segir meðal annars að tveir þriðju stöðugilda í leikskólum skuli vera stöðugildi leikskólakennara og að veita megi undanþágu frá þessu að hámarki eitt ár í senn og þá fyrst eftir að auglýst hefur verið ítrekað eftir leikskólakennurum til starfans. Eins og ég nefndi áðan er ljóst að þetta er ekki í takt við veruleikann í leikskólanum í dag þar sem einungis 30–35% starfsmanna eru leikskólakennarar. Aðrir starfsmenn eru ekki leikskólakennarar.

Frú forseti. Auk álits ASÍ get ég vitnað til Eflingar um þessa stöðu þar sem bæði þessi félög, heildarsamtökin og Efling, hafa miklar áhyggjur af starfsöryggi þessara starfsmanna. Nefndin viðurkennir þessa stöðu og gerir tillögu um að í 6. gr. frumvarpsins komi nýr málsliður sem kveður á um heimild starfsfólks sem ekki hefur leikskólakennaramenntun til þess að taka þátt í og annast uppeldi og menntun barna. Svo kemur þessi setning: „enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins.“ Hér er um ákveðna tilslökun að ræða af hálfu nefndarinnar, finnst mér, og viðleitni til þess að koma til móts við þær alvarlegu athugasemdir sem verkalýðshreyfingin gerir með þessum hætti við frumvarp til laga um kennaramenntun.

En nú vill svo til, frú forseti, að í gær skrifaði Samband íslenskra sveitarfélaga nýtt álit um þetta efni — það er dagsett 21. maí — þar sem fjallað er um nefndarálitið og tillögur meiri hluta nefndarinnar um þetta efni. Þar kemur fram að nokkrar breytingartillagnanna og þá einkum þessi valda sambandinu áhyggjum sem það vill vekja athygli á í minnisblaði. Þar sem að í breytingartillögu nefndarinnar segir að heimilt sé að starfsfólk án leikskólakennaramenntunar taki þátt í að annast menntun og uppeldi barna enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins þá vekur sambandið athygli á því að eins og breytingartillagan er orðuð sé í raun verið að segja að ekki megi heldur ráða einn þriðja starfsmanna leikskóla úr hópi þeirra sem ekki hafa leikskólakennaramenntun. Samband íslenskra sveitarfélaga segir að með orðunum „enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins“ sé ekki tekið tillit til áðurnefnds ákvæðis sem ég nefndi þar sem beinlínis er heimilað að allt að einn þriðji starfsmanna leikskóla sem sinna uppeldi, umönnun og menntun leikskólabarna séu án leikskólamenntunar, og þetta sé því í ósamræmi við breytingartillögu nefndarinnar. Sambandið leggur til að orðin „enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins“ falli niður úr breytingartillögunni. Ég vil vekja athygli á þessu hér, frú forseti, vegna þess að að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga er nauðsynlegt að endurskoða orðalag breytingartillögunnar til þess að ná ákveðnu samræmi á milli þessara tveggja frumvarpa sem núna liggja fyrir þinginu.

Ég vil af þessu tilefni spyrja hv. formann menntamálanefndar, Sigurð Kára Kristjánsson alþingismann, hvort ekki sé alveg ljóst að þetta mál muni fara aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. þar sem hægt verði meðal annars að fjalla um þessa athugasemd sem hlýtur að teljast meiri háttar, frú forseti.

Ég ætlaði ekki að fjalla um fleiri efnisatriði þessa máls hér önnur en auðvitað þá kröfu sem þótti róttæk fyrir 40 árum, 1968, næg og góð dagvistarheimili fyrir öll börn, eins og það hét. Í dag er krafan auðvitað um ókeypis leikskóla og hann góðan fyrir öll börn. Það er jafnræðið sem við viljum búa við í okkar samfélagi í skólastarfi á öllum stigum skólans.