135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[17:03]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég var í fyrri ræðu minni áðan að ræða um 3. mgr. 6. gr. þegar tíminn rann út. Það er einfaldlega svo að manni liggur nú meira á hjarta en tíminn sem manni er gefinn leyfir. Ég ætla því að fá að klára þá umfjöllun.

Eins og ég sagði í lokaorðum mínum, sem ég held reyndar að hafi horfið svolítið inn í bjöllu virðulegs forseta, telur nefndin þá leið sem farin er í frumvarpinu heppilega, þ.e. að eingöngu sé miðað við XXII. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um kynferðisbrot. Það verður að setja hagsmuni barna sem dveljast í leikskólum, oft og tíðum allan daginn, í fyrsta sæti. Í raun er óhjákvæmilegt og réttmætt að komið sé í veg fyrir að einstaklingur sem brotið hafi gegn kaflanum sinni störfum sem feli í sér umgengni, umsjón og ábyrgð á börnum. Enn fremur telur nefndin að slíkt bann skuli ná til allra kynferðisbrota óháð því hversu langur tími er liðinn frá því að brotin voru framin, enda hafi rannsóknin jafnframt sýnt að hluti kynferðisafbrotamanna endurtekur verknað sinn. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og styð að þetta verði svona.

Hvað varðar aðgang að sakavottorði einstaklings telur nefndin þá leið sem farin er í frumvarpinu vel til þess fallna að gæta hvors tveggja í senn hagsmuna barna og atvinnufrelsis einstaklings. Telur nefndin að með banni æskulýðslaganna — sem setja einnig bann við þeim sem hafa brotið gegn ávana- og fíkniefnalögunum — við ráðningu einstaklings sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn þeim lögum á undangengnum fimm árum sé seilst ívið langt. Með rýmri heimildum leikskólastjóra til fulls aðgangs að sakavottorði sé treyst dómgreind og málefnalegu mati leikskólastjóra til að meta hvort viðkomandi einstaklingur sé þess verðugur að starfa við umönnun, uppeldi og menntun barna á leikskólastigi. Þannig er einstaklingur sem gerst hefur brotlegur gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, ekki útilokaður frá því að starfa á leikskóla.

Ég verð að ítreka að það að tryggja leikskólastjóra að fullu aðgang að sakavottorði geri honum m.a. kleift að hafa þetta mat á sínum höndum. Því gerir nefndin ekki tillögur til breytinga. Ég tel rétt að hafa það þannig.

Áður en ég held lengra má ég til með að stríða aðeins vinum mínum í Samfylkingunni vegna þess að minnst hefur verið á kosningaloforð þeirra um gjaldfrjálsan leikskóla sem þeir hafa svo gleymt eins og svo mörgu öðru. Á þessum þingvetri sem senn fer nú að ljúka hafa nokkrir þingmenn komið hér upp og varið slæleg vinnubrögð Samfylkingarinnar. Einn sagði að kosningaloforðin giltu ekki vegna þess að þeir hefðu ekki náð að mynda meiri hluta með Vinstri grænum en loforðin hefðu miðast við það. Annar þeirra nefndi síðustu fjárlög vegna þess að þar var náttúrlega keyrt úr hófi fram, að við framsóknarmenn ættum þau en ekki Samfylkingin. Því er ýmislegt reynt til að firra sig ábyrgð í þessu efni.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði áðan í andsvari að í stefnu Samfylkingarinnar skyldi að því stefnt að leikskólinn yrði gjaldfrjáls. Þetta væri sem sagt ekki algilt, orðalagið væri loðið og það væri hægt að túlka það á hinn eða þennan veginn og þess vegna hefðu þeir nú ekki barist fyrir þessu. Svo kom annar þingmaður upp og sagði að sveitarstjórnarstigið ætti að ráða.

Það er svolítið erfitt að átta sig á því hver stefna Samfylkingarinnar er í þessu efni eins og svo mörgu öðru en mér sýnist að Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir vera á mjög svipaðri línu með þetta. Ég fagna því að einstakir sjálfstæðismenn skuli hafa opinn huga fyrir þessu fyrirkomulagi eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði hérna áðan, að hún vildi skoða að þessi leið yrði farin.

Í frumvarpinu var ákvæði um símenntun leikskólastjóra og leikskólakennara. Nefndin leggur til að þetta ákvæði sé tekið upp en þau sjónarmið komu fram hjá einstökum nefndarmönnum að eðlilegra væri að ákvæði um símenntun ættu almennt heima í kjarasamningum en ekki í lagaákvæðum enda sé um samningsatriði að ræða. Hins vegar komu umsagnir í þá átt að tryggja þyrfti að til staðar væri sambærilegur símenntunarsjóður fyrir leikskólakennara og til er fyrir grunnskólakennara og jafna þannig stöðu þeirra frekar. Enn fremur kom fram hörð gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni um stöðu annars starfsfólks leikskóla en leikskólakennara og rétt þeirra til símenntunar. Telur nefndin rétt að árétta að ekki sé hægt að skipta starfsfólki leikskóla í tvo hópa með þessum hætti.

Ég er ekki alveg endilega sammála þessu orðalagi nefndarinnar. Ég tel að sömu sjónarmið eigi við og um grunnskólakennara. Það er einfaldlega þannig að miklum kostnaði var velt yfir á sveitarfélögin og var ástæða fyrir því að ákvæðin sem kveða á um símenntun grunnskólakennara væru í lögum um grunnskóla. Þess vegna er það ekki tekið út úr frumvarpinu um grunnskóla heldur sett í ákvæði til bráðabirgða. Ég tel að það hafi kannski átt að fara þá leið en vil samt ítreka að formaður nefndarinnar tilkynnti að þetta hefði verið gert í fullu samráði og sátt við Kennarasambandið og ég fagna því að svo hafi verið.

Í 9. gr. er rætt um rétt foreldra sem ekki tala íslensku. Er í greininni lögð sú skylda á skóla að leitast við að tryggja þeim túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Í greininni kemur fram réttur þeirra á upplýsingum um skólastarfið og stöðu barna sinna. Nokkur umræða átti sér stað um hvort að kveða ætti sterkara að orði og gera skyldu skólans ótvíræðari.

Ég tek undir það og vil því segja að ég tek undir breytingartillögur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um að í staðinn fyrir orðin „leitast við“ eigi að tryggja túlkun á viðkomandi upplýsingum og orðin „leitast við“ yrðu þannig tekin burtu. En nefndin taldi að ekki þyrfti að breyta ákvæðinu enda sé skyldan að leitast við að tryggja túlkun á viðkomandi upplýsingum sé nægjanleg. Ég vona að svo verði en hefði viljað kveða skýrar á um þennan rétt vegna þess að þetta er líka í fullu samræmi við skoðun okkar framsóknarmanna og þær tillögur sem við höfum lagt fram.

Ég veit ekki hvað ég kemst langt á þeim 16 sekúndum sem ég á eftir. Ég vil samt taka fram að við 14. gr. er breytingartillaga frá meiri hlutanum um að leikskólastjóri skuli gefa út (Forseti hringir.) starfsáætlun. Ég held að það sé afar gott og finnst jákvætt að þarna skuli kveðið svona sterkt að orði.