135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[17:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um leikskóla sem hér er til 2. umr. er um margt merkilegt. Ég vil í upphafi vísa til mjög ítarlegrar ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í menntamálanefnd, og breytingartillagna sem hún hefur lagt fram svo og málflutnings annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og reyndar fleiri í þessari umræðu.

Það eru örfá atriði sem ég vil gera að umtalsefni í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er það stjórnsýsluleg staða leikskólans. Þegar lesið er í gegnum frumvarpið fær maður á tilfinninguna að hér sé fyrst og fremst um að ræða lög um viljayfirlýsingu til að reka leikskóla án þess að hann verði í rauninni á ábyrgð eins eða neins gagnvart samfélaginu, gagnvart börnum og foreldrum. Því segi ég þetta? Það stendur í 1. gr. frumvarpsins að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu og sé fyrir börn undir skólaskyldualdri. Gott og vel. Það þýðir þá líka að við ætlumst til þess að leikskólinn sé opinn öllum sem þangað vilja sækja. En svo er alls ekki, heldur er þetta viljayfirlýsing um að þetta skuli gert en síðan er það falið sveitarfélögunum að ákveða í hvaða umfangi þau síðan stofna og reka leikskóla.

Þetta finnst mér algjörlega óviðunandi staða. Þarna hefði þurft að kveða mun skýrar á eins og reyndar kemur fram í umsögn m.a. Alþýðusambands Íslands, sem bendir einmitt á að þetta sé bara eins konar viljayfirlýsing en í rauninni ekki lög um leikskóla sem síðan væri hægt að framkvæma fyrir alla. Hvernig kemur þetta út? Þetta kemur þannig út að foreldrar geta alls ekki gengið að því vísu að koma börnum sínum á leikskóla þegar þau óska eftir eða þegar sá tími er kominn að börn þeirra hafa náð þeim aldri eða þegar foreldrar snúa aftur úr fæðingarorlofi í störf eða í nám. Þeir geta alls ekki gengið að því vísu, þeir geta ekki skipulagt nánustu framtíð sína vegna þess að þeir vita ekki að vori hvort þeir fá pláss fyrir börn sín á leikskóla að hausti. Því sjá allir að í rauninni er þetta aðeins viljayfirlýsing um að reka leikskóla en ekki eitthvað sem hægt er að reiða sig á.

Ég bendi t.d. á að nemendur, stúlkur í námi sem eignast börn og taka sinn fæðingarorlofstíma og vilja síðan halda áfram námi hafa oft mjög takmarkaða möguleika á að koma börnum sínum á leikskóla og fá ekki einu sinni svörun. Ég get nefnt dæmi mér nákomið þar sem liðu mánuðir án þess að hægt væri að fá svör um það hvort barnið kæmist inn og hvenær. Á hverjum lendir svo þetta misrétti? Það lendir á konum, ungum konum. Þessi stjórnsýslulega staða leikskólans sem hangir með þessum hætti í lausu lofti er eitt mesta kynjamisréttið í samfélaginu núna að mínu mati. Þetta bitnar á ungum konum í námi, á ungum konum í starfi og ekki hvað síst á þeim stéttum þar sem konur eru hvað fjölmennastar eins og í umönnunarstéttunum, í leikskólastörfum, í hjúkrunar-, sjúkraliða- og umönnunarstéttum. Þetta misrétti sem hér um ræðir bitnar fyrst og fremst á konum.

Þess vegna segi ég að þessi lög eru að því leyti til blekking að þau gefa væntingar um að hægt sé reikna með leikskóla sem eðlilegum þætti og hann komi inn fyrir barnafólk þegar það þarf á að halda en þegar sá tími kemur að fólk eignast börn og vill síðan halda áfram eðlilegu ferli, hvort sem er í námi eða starfi, er þetta bara blekking. Þetta hefur verið rengt hér, en þetta hefur verið eitt af stærri málunum t.d. á höfuðborgarsvæðinu á síðustu mánuðum og missirum sem ekki hefur verið tekið á af neinni alvöru heldur mátt búa við að vera afgangsstærð í þeim efnum. Ég tel að þetta sé mikill ágalli á þessum lögum. Það er alltaf hættulegt þegar Alþingi samþykkir lög í góðum búningi eins og þetta frumvarp er en eru fyrst og fremst viljayfirlýsingar en ekki trygging fyrir framkvæmd.

Ef við lítum síðan á 26. gr. kemur svo berlega í ljós það misrétti sem búið er til inn í lögin. Ég hélt að við værum að reyna að koma okkur út úr því að flokka fólk eftir aldri og kyni eða kynþætti, tekjum og þjóðfélagsstöðu eða hvað það er sem þarf til að eiga aðgang að leikskóla sem stendur að sé fyrir alla. Í 26. gr. segir, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn er heimilt að setja reglur um innritun í leikskóla í sveitarfélaginu, …“

Hvað þýðir það? Jú, sveitarfélaginu er heimilt að setja reglur um forgangsröðun. Þarna er sagt að reka eigi leikskóla en honum sé ekki lofað fyrir alla. Hvar kemur þetta niður? Það eru settar skrýtnar reglur sem ég veit ekki hvort standast jafnræðislög, frú forseti, og væri kannski ástæða fyrir forseta, sem hefur einmitt beitt sér fyrir að lög og reglur uppfylltu jafnræðisvitund og jafnræði, að skoða það. Ég get nefnt dæmi: Ef stúlka er í skráðri sambúð lendir hún aftar í röðinni en sú sem er ekki í sambúð. Ég viðurkenni alveg að félagslegur vandi þeirrar sem ekki er í sambúð getur verið meiri og erfiðari en þeirrar sem er í sambúð, en er þetta eitthvað sem á að nota? Er þetta leikskóli fyrir alla ef heimild er til þess að flokka fólk með þessum hætti? Nei. Ég tel að það eigi að vera ótvírætt að það sé skylda hins opinbera og samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að reka leikskóla sem geti boðið leikskólapláss fyrir alla.

Ég var í Noregi fyrr í vetur, frú forseti, og nú veit ég ekki hvort hv. menntamálanefnd hefur kannað hvernig að þessum málum er staðið í öðrum löndum, enda getur það verið mál út af fyrir sig en eigi að síður erum við ekki ein í heiminum. Þá sá ég auglýsingu í blöðum frá stjórnvöldum þar sem kallað var eftir því frá sveitarfélögunum að þau gerðu að mig minnir fyrir 1. apríl ítarlega grein fyrir því hvert væri umfang leikskólans næsta haust þegar nýtt skólaár tæki við — ég man ekki hvort það var 1. ágúst eða 1. september. Öll sveitarfélög áttu að skila inn gögnum um það hversu mörg börn kæmu inn í leikskólann næsta haust og hvernig þau væru í stakk búin til að taka á móti þeim. Það átti ekki að vera neitt tilviljunarkennt eins og þegar fólk fær þau svör: Hafðu samband við mig eftir næstu mánaðamót þá skal ég vita hvað ég get sagt, sem eru þau svör sem fólk fær í dag.

Ég spyr hv. formann menntamálanefndar: Hefur það verið kannað hvernig þetta er í nágrannalöndunum hvað skipan þessara mála varðar og er það vilji hans að þetta frumvarp verði að lögum með þeim hætti að þau mismuni fólki fyrir fram og segi samt að leikskólinn sé fyrir alla? Ég vildi koma þessu rækilega á framfæri auk þess sem aðgengi og gjaldtaka í leikskóla er kannski það sem nú mismunar barnafólki hvað mest, ungu fólki. Það er eitt brýnasta málið, eins og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað lagt til í þinginu, að Alþingi, ríkisvald og sveitarfélög taki þegar í stað á þessum málum sameiginlega þannig að hægt sé að bjóða leikskóla fyrir alla, leikskóla sem tekur við öllum og er gjaldfrjáls þannig að fólki verði ekki heldur mismunað eftir tekjum, enda er það ein mesta kjarabót sem hægt er að veita ungu barnafólki ef það verður gert með þeim hætti sem við leggjum til.

Frú forseti. Þetta var það sem ég vildi koma á framfæri afdráttarlaust. Ég vil líka spyrja formann menntamálanefndar: Er einhver aðili sem safnar upplýsingum eða hefur yfirsýn nú þegar yfir fjölda barna á leikskólaaldri í hinum ýmsu sveitarfélögum, hve mörg börn eru þar í leikskóla, hve mörg eru ekki í leikskóla og hver staðan er í hinum ólíku sveitarfélögum? Ég tel að það hefði verið gott fyrir þessa umræðu ef fylgt hefði með fylgiskjal um stöðu leikskólamála í landinu, hver gjaldtakan er á hverjum stað o.s.frv. þannig að menn sæju málið í hnotskurn. Mér finnst eins og þetta liggur nú fyrir að það sýni hversu lítil virðing eða metnaður liggur að baki þessu máli. Þetta er fyrsta skólastigið segir hér og kannski það allra mikilvægasta af öllum mikilvægum. Þess vegna er mjög mikilvægt að lagaumgjörðin sé ákveðnari og skýrari — að leikskólinn sé eitthvað sem fólk geti reiknað með enda er hann orðinn snar þáttur í daglegu lífi alls fólks — en sé ekki bara eins og hver önnur viljayfirlýsing sem mér finnst þetta frumvarp vera, að þetta sé lagafrumvarp um viljayfirlýsingu um leikskóla en ekki um skóla og skólastig eins og það ætti að vera. Eins og staðan er núna er fátt sem mismunar fólki meira eftir kyni en það hvernig staðið er að leikskólunum og að foreldri komi ekki börnum sínum í leikskóla og það bitnar harðast á ungum konum, ungum konum í námi og ungum konum í starfi. Er það það sem við viljum? Viljum við mismuna þessum hópi? Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði segjum nei, þetta á að vera forgangshópur til réttinda ef eitthvað er.

Þetta er hinn alvarlegi galli þessa frumvarps, frú forseti, og nær hefði verið að taka enn meira mark á tillögum Vinstri grænna um gjaldfrjálsan leikskóla sem hér hafa verið fluttar á undanförnum árum.