135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[17:29]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held að þessi umræða sé að klárast, að við séum komin að niðurlagi hér. Ég kem nú í þriðju ræðu mína til þess eins að nefna örfá atriði sem ég hef ekki náð í fyrri ræðum mínum.

Ég hef ekki talað enn um breytingartillögur meiri hlutans sem ég hef auðvitað fyrirvara við. Nefndarálit nefndarinnar rita ég undir með fyrirvara um ýmsa þætti í þessu máli eins og sést best á breytingartillögum þeim sem ég flyt. Ég hef t.d. fyrirvara við hina kristnu arfleifð íslenskrar menningar. Ég væri í sjálfu sér ekki ósátt við orðalag textans í 2. gr. nema að því leyti að ég hef efasemdir um að við eigum að setja inn setninguna um kristna arfleifð íslenskrar menningar. Ég velti þessu hins vegar fyrir mér, af því að ég þekki vel sjónarmiðin sem eru að baki — það eru miklar tilfinningar í þeim sjónarmiðum sem kirkjunnar menn, prestar og aðrir hafa talað fyrir inni á fundum nefndarinnar af mikilli sannfæringu. Ég velti fyrir mér leið sem gæti verið fær, þ.e. að tala um trúarlega arfleifð íslenskrar menningar. Í mínum huga liti það aðeins öðruvísi út því að þar með værum við að innifela alla trúarlega arfleifð okkar og innan hennar er ásatrúin. Mér fyndist í sjálfu sér eðlilegt að við horfðum þá jafnt til hennar eins og til okkar kristnu arfleifðar. Eins og allir vita er margt brogað í arfleifð þjóðar og sumt af því tengist auðvitað trúarbrögðum og þess vegna hefði mér fundist vænlegast að forðast allar skírskotanir til trúarbragða í þessari grein.

Annað sem ég vil nefna hér, hæstv. forseti, er kynferðisbrotakafli hegningarlaganna. Ég spurði gesti nefndarinnar iðulega um það hvort menn teldu nauðsynlegt að hafa greinina með þeim hætti að þeim sem hefðu gerst brotlegir — þetta er 6. gr. — við kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga væri gert ókleift að starfa á leikskólum. Nú skal ég taka það fram að sú sem hér stendur er hjartanlega sammála því sjónarmiði að þeir sem brotið hafa af sér á alvarlegan hátt, svo sem með kynferðisafbrotum, séu óæskilegur starfskraftur með börnum enda segir svo í barnaverndarlögum og sömuleiðis í æskulýðslögum. Það sem er hvimleitt og bagalegt í þessum efnum er að æskulýðslögin og barnaverndarlögin skuli ekki vera samhljóma hvað þetta varðar.

Það sem ég hef spurt um varðandi 6. gr. er hvort það sé í sjálfu sér rétt að allur kynferðisbrotakaflinn sé hér undir. Ég minni á að vændisákvæðin eru inni í kynferðisbrotakaflanum. Með öðrum orðum, kona sem dæmd hefur verið fyrir vændi, segjum á unga aldri, væri eilíflega útilokuð frá því að starfa á leikskóla samkvæmt 6. gr. Þess vegna spurði ég iðulega um þetta ákvæði. Það varð hins vegar niðurstaða nefndarinnar eftir mjög rækilega skoðun og það er mjög rækilega rökstutt í nefndaráliti nefndarinnar að fara þá leið sem hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni. Ég vil bara ítreka það hér að ég felli mig við þessa niðurstöðu af því að um hana náðist ákveðin sátt og meðvitund um að samræma þyrfti löggjöfina hvað þetta varðar og gera þetta þá með svipuðum hætti í skólalöggjöfinni. Barnaverndarlöggjöfinni yrði þá breytt til samræmis við þetta. Svo veit ég að ágreiningur er um það á hvern hátt æskulýðslöggjöfin fór hér í gegn á síðasta kjörtímabili og það er svo sem möguleiki á því að taka þá löggjöf aftur upp til skoðunar.

Mig langar til að gera örstutt að umræðuefni viðbót við 7. gr. sem breytingartillaga er við á þskj. 1012 þar sem fjallað er um á hvern hátt starfsfólk leikskóla skuli rækja sitt starf, af fagmennsku, alúð og samviskusemi eins og þar stendur. Í mínum huga eru þetta mál sem ættu kannski — ég veit að þetta eru atriði sem eru í kjarasamningi. Ég velti fyrir mér því sjónarmiði — af því að nú hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins gjarnan haft horn í síðu þeirra þátta sem sjálfstæðisþingmenn telja að eigi kannski að vera í kjarasamningum — (Forseti hringir.) hvort menn séu alveg samkvæmir sjálfum sér þegar þeir taka svona augljós kjarasamningsatriði og vilja setja þau inn í lagatextann.