135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[17:34]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um leikskóla sem er mikilvægt mál sem var afgreitt úr hv. menntamálanefnd í ágætu samkomulagi milli allra stjórnmálaflokka og búið er að vinna mikið að þessu máli á þeim vettvangi. Farið var ítarlega yfir það á þingflokksfundi framsóknarmanna í gær og vil ég lýsa mig fylgjandi því frumvarpi sem við ræðum hér enda er búið að vinna að þessu máli í ágætri samvinnu og sátt við þá aðila sem það varðar.

Staðreyndin er sú að vægi leikskólastigsins hefur aukist ár frá ári. Það eru ekkert svo ýkja mörg ár síðan börn fóru ekki á leikskóla. Nú sé ég að einum hv. þingmanni er dálítið skemmt hérna og átta ég mig ekki á því af því að hér er um verulegt alvörumál að ræða. Í rauninni er hér er verið að styrkja leikskólastigið sem fyrsta skólastig þannig að samfella myndist allt frá unga aldri fram á unglingsár. Því er það rétt, hæstv. forseti, að við ræðum öll þessi mál í samhengi. Ég vil fara hér í örstuttu máli yfir aðbúnað leikskólanna í landinu í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem leikskólastigið er í dag og aðstöðu þeirra sveitarfélaga sem eiga að veita íbúum sínum þessa sjálfsögðu þjónustu.

Staðreyndin er sú og við höfum heyrt það í umræðunni að undanförnu að sveitarfélög eru misvel í sveit sett fjárhagslega til að sinna þessari mikilvægu þjónustu. Hér er verið að innleiða leikskólann sem fyrsta skólastigið, sem er mjög mikilvægur áfangi í því að efla leikskólann. Þess vegna finnst mér að við þurfum að ræða það hér í hvaða stöðu þau sveitarfélög eru sem hvað verst eru stödd fjárhagslega til þess að veita íbúum sínum þessa þjónustu. Það er verulegt umhugsunarefni í þessari umræðu hver fjárhagsleg staða sveitarfélaganna er.

Staðreyndin er sú að hægt er að flokka sveitarfélögin á Íslandi í dag í a.m.k. tvær deildir, A- og B-deild. Annars vegar eru þau sveitarfélög sem eru fjárhagslega mjög sterk og geta þannig boðið íbúum sínum upp á gæðaþjónustu á leikskólastigi á mjög lágu verði. Síðan eru það sveitarfélög sem standa mjög illa fjárhagslega og geta ekki með góðu móti veitt eins góða þjónustu í ljósi erfiðrar fjárhagslegrar stöðu. Það hlýtur því að vera umræðuefni hér á hv. Alþingi að við hugum að stöðu og jafnræði sveitarfélaganna í þessum efnum því að það er ekki boðlegt að lítil börn í sveitarfélögum sem eru illa sett fái verri þjónustu en í sveitarfélögum sem hafa rýmri fjárhag. Þess vegna er staða og jafnræði á milli sveitarfélaganna stór hluti af þessari umræðu og í raun og veru hluti af umræðunni um grunnskólann líka því að öll viljum við stefna að því að færa nýrri kynslóð jöfn tækifæri. Við búum í einu ríkasta samfélagi heims og það er einfaldlega ekki boðlegt að horfa upp á að sum sveitarfélög geti veitt börnum betri þjónustu en önnur. Við eigum að veita úrvalsþjónustu hvað þessi mál varðar, veita börnunum jöfn tækifæri þegar út í lífið er komið. Það er frumskylda okkar stjórnmálamanna að standa vörð um slíkt.

Tilgangur og meginatriði þessa frumvarps er að skapa betra leikskólastig og betri samfellu í þessu öllu. Þess vegna vil ég varpa ljósi á mismunandi stöðu sveitarfélaganna. Ef við lesum umsögn um frumvarpið frá fjármálaráðuneyti kemur eftirfarandi fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Markmiðið með frumvarpinu er að styrkja það starf sem fram fer í leikskólum. Frumvarpið er hugsað sem rammalöggjöf með samhljóm við lög annarra skólastiga. Í frumvarpinu er tekið á málum er varða leikskóla í einkarekstri og á rétti leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar. Þá er fjallað um að skýra betur verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skerpa á skyldum og ábyrgð allra aðila er að menntun og uppeldi barnanna koma. Með frumvarpinu er lagt til að auka samræmingu á milli leik- og grunnskóla og að áhersla verði lögð á að upplýsingar um nemendur berist á milli skólastiga. Einnig felst í frumvarpinu áhersla á að auka aðkomu foreldra að innra starfi leikskóla. Auk þess er lagt til að auka eftirlit og gæðamat með leikskólastarfi af hálfu ríkis og sveitarfélaga og færa mat og eftirlit nær rekstrarábyrgðaraðila.“

Síðan stendur í kostnaðarumsögn, með leyfi hæstv. forseta:

„Að mati menntamálaráðuneytisins mun frumvarpið ekki leiða af sér augljós aukin útgjöld fyrir sveitarfélögin en þó með þeim fyrirvara að mjög erfitt sé að meta kostnaðinn á þessu stigi og að rétt sé að endurskoða áhrif laganna að einhverjum tíma liðnum. Eru það einkum atriði eins og túlkunarþjónusta sem erfitt er að sjá fyrir hvernig þróist í framtíðinni en sá kostnaður er háður fjölgun nemenda af erlendum uppruna.“

Það er mjög mikilvægt í stórum málum sem þessu þar sem löggjafarvaldið færir verkefni eða setur lög um verkefni hins stjórnsýslustigsins, sveitarfélaganna, að það ríki mikil sátt og traust í fjárhagslegum samskiptum þeirra aðila. Ég vil leggja áherslu á að í svo umfangsmiklu máli sem hér er um að ræða þar sem margt er óljóst um hvernig mál þróast — bent er á það hér að með fjölgun innflytjenda geti túlkunarþjónusta aukist til muna á leikskólastiginu — að samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga sem fara með þennan málaflokk verði gott.

Við munum öll eftir því hvernig umræðan um grunnskólann hefur verið á undanförnum árum um kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Margir sveitarstjórnarmenn segja að það hafi verið hallað á sveitarfélögin og við skulum vona að slíkt verði ekki sagt í kjölfar þessarar lagasetningar. Þess vegna vil ég leggja áherslu á að menn fari vel yfir kostnaðarþáttinn, hvort verið sé að velta auknum útgjöldum yfir á sveitarfélögin. Við skulum þá setja það í það samhengi að mörg sveitarfélög glíma einmitt við þá stöðu að geta ekki staðið undir lögbundnum verkefnum eins og grunnskóla og leikskóla. Mörg sveitarfélög hafa það þunga greiðslubyrði að þau hafa einfaldlega ekki mátt í sér til þess að auka og bæta þjónustuna. Hvað þá með þau börn sem búa í þeim sveitarfélögum? Þetta er vissulega umræða sem mér finnst að við þurfum að taka hér í dag. Mér finnst, ólíkt ágætum félögum mínum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að umræðan sem ég hef fylgst með hér sýni fram á hversu góð breytingin var á þingsköpunum.

Hér hafa þingmenn komið upp hver á fætur öðrum og með efnisleg innlegg í þá umræðu sem hér hefur farið fram og við höfum ekki þurft að horfa upp á sama þingmanninn tala í fjóra tíma. Við höfum séð marga þingmenn koma hér upp, flytja margar góðar ræður um þetta mál, tekið það út frá mörgum vinklum. Mér finnst það mjög viðeigandi þegar við horfum á fjárhag sveitarfélaganna sem eiga að veita þessa þjónustu, að ræða það hér af því að við viljum skapa börnum vítt og breitt um landið jöfn tækifæri þegar kemur að menntun.

Félagar mínir með hv. þm. Höskuld Þór Þórhallsson í broddi fylkingar hafa gert ágætlega grein fyrir afstöðu okkar til þessa máls sem við styðjum, ólíkt öðru frumvarpi sem er á dagskrá þessa fundar. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með að menn skuli hafa náð að lenda svona stóru máli með svona víðtækri samstöðu. Það er mjög mikil þörf á því að víðtæk samstaða sé um stór mál. Það mega allir stjórnmálaflokkar eiga að menn hafa náð saman um þetta ágæta frumvarp. Ég sé að hv. formaður menntamálanefndar gengur hér fram hjá púltinu og vil ég óska honum til hamingju með þá vinnu sem hann hefur leitt innan menntamálanefndar Alþingis. En það er ekki víst að hv. þingmaður fái slíkar hamingjuóskir þegar við ræðum um framhaldsskólafrumvarpið. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hvetur mig hér til þess að halda áfram ræðu minni og fara yfir athugasemdir mínar. Mig langar að ræða hér aðeins um 6. gr. frumvarpsins sem inniheldur nýmæli þar sem stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt er að ráða til starfa við leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.“

Mér finnst þetta vera mjög mikilvægt ákvæði og nýmæli sem kemur fram við þessa lagasetningu því að við höfum heyrt mjög sorglegar sögur úr samfélaginu um það hvernig hægt er að misnota börn. Nú ætla ég ekkert að gera mönnum það upp að þannig sé það yfirleitt en mér finnst að við þurfum að gæta ýtrustu varúðar þegar kemur að þessum málum. Í ljósi þeirrar staðreyndar að börn eru á þessum stofnunum í átta til níu tíma á dag, frá eins árs aldri upp í fimm ára aldur, finnst mér að við þurfum að gera kröfur til þeirra sem starfa við leikskóla landsins, að þeir hafi hreint sakavottorð hvað þessi mál áhrærir. Við erum jú að tala um það dýrmætasta sem við eigum, börnin og unga fólkið, og því vil ég fagna því að þetta skuli vera komið hér inn. Þetta hljómar kannski dálítið hart ákvæði en mér finnst að við þurfum að sýna ýtrustu varkárni þegar að þessum málum kemur.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan hafa félagar mínir í Framsóknarflokknum lýst yfir skoðun Framsóknarflokksins á þessu frumvarpi sem við styðjum í öllum meginatriðum. Ég fagna því að við úr öllum þingflokkum skulum hafa náð saman um að ganga frá löggjöf er snertir leikskólastigið, fyrsta skólastig okkar. Ég vil líka minna á að þetta frumvarp sem við ræðum nú er hluti af stærri samfellu og við eigum eftir að ræða hér um mjög umdeilt mál. Ég veit ekki hvort þvinga á okkur framsóknarmenn, vinstri græna og frjálslynda til þess að ræða það umdeilda mál inn í nóttina. Við báðum um tvöfaldan umræðutíma um framhaldsskólamálið og ég hélt að þegar við settum lög umdeild þingsköp að tvöfaldur ræðutími lýsti þunga þeirrar umræðu sem fram ætti að fara. Ég trúi því ekki, hæstv. forseti, fyrr en ég tek á því að það sé vilji meiri hluta þingsins að sú tvöfalda umræða fari inn í nóttina á meðan aðrir sofa. Við munum hafna því í stjórnarandstöðunni og gera verulegar athugasemdir þá við fundarstjórn forseta því að eins og ég rakti í upphafi erum við að ræða hér mjög mikilvæg mál sem snerta alla landsmenn og mikilvægt að ræða þau út í hörgul. Mér finnst ekki mikið, hæstv. forseti, þó að við eyðum hér nokkrum klukkustundum í að ræða svo mikilvæga löggjöf er snertir leikskólastigið í landinu.