135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:32]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég varð ekki var við það í störfum nefndarinnar að áhugi væri á því, hvorki af hálfu ráðherrans né nefndarmanna, að sauma að minni skólum í hinum dreifðu byggðum. Þvert á móti lögðum við áherslu á það við yfirferð málsins að reyna að tryggja sérstöðu þessara skóla, þ.e. að leggja ekki of miklar skyldur á lítil sveitarfélög sem reka litla skóla, skyldur sem þau sveitarfélög gætu ekki staðið undir.

Almennt má lesa út úr texta frumvarpsins að löggjafinn horfir í gegnum fingur sér vegna aðstæðna sem eiga við í hinum dreifðu byggðum. Hv. þingmaður vék að ýmsum atriðum varðandi skólaakstur. Að honum er vikið í 22. gr. frumvarpsins. Ég bendi líka á ákvæði frumvarpsins í 45. gr. um samrekstur. Ákvæði í undanþágugrein 46. gr. kunna líka að skipta hér máli. Ég varð ekki var við þann ótta sem fram kemur í spurningu hv. þingmanns og hygg ég að allir nefndarmenn hefðu lagt sig fram um að reyna að eyða þeim ótta hefði hann verið til staðar. Við viljum starfsemi lítilla grunnskóla og veg þeirra sem mestan og held ég að ég mæli fyrir hönd allra nefndarmanna.