135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má alls ekki skilja orð mín á þann veg að ég dragi í efa að nefndarmenn beri hag þessara skóla fyrir brjósti, alls ekki. Raunveruleikinn sem snýr að þessum litlu skólum úti á landi, hver svo sem lagaumgjörðin er, er hins vegar sá að gríðarlegur þrýstingur er á að leggja þá niður, loka þeim, sameina þá öðrum með löngum akstri o.s.frv. Ég geri mér grein fyrir því að einhvers staðar eru takmörk hvað þetta varðar en þetta er sá raunveruleiki sem blasir við.

Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi heyrt þetta eins og ég og dreg ekki í efa einlægan vilja hans og allra nefndarmanna til að leggja sitt af mörkum í gegnum lagasetninguna að standa vörð um þessa skóla. En þetta er hinn harði raunveruleiki. Ég get nefnt dæmi í byggðarlögum þar sem hart er tekist á um þetta atriði. Ég hefði viljað sjá þá beinu skírskotun í lögunum að standa eigi með þessum skólum, að þar væru bein tilmæli eða tilvísun til framkvæmdarvaldsins af hálfu menntamálaráðuneytisins og af hálfu fjármögnunarinnar, sem ég veit að er að hluta í gegnum jöfnunarsjóð, og til sveitarfélaganna um að standa beri vörð um þessa litlu skóla sem eru hjarta samfélagsins. Það sé hinn rauði þráður.

Ég legg jafnframt áherslu á það, frú forseti, að (Forseti hringir.) ég veit að nefndarmenn hugsa vel og vilja leggja gott af mörkum í þeim efnum.