135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:39]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé í upphafi máls að geta þess að vinna við þetta frumvarp eins og leikskólafrumvarpið var til mikillar fyrirmyndar. Ég vildi óska þess að vinnan almennt á Alþingi gæti verið í þessa veru. Gefinn var góður tími til að fara yfir öll þau mörgu álitaefni sem í frumvarpinu eru og jafnframt komu margir umsagnaraðilar fyrir nefndina. Mér fannst enginn undanskilinn þegar ég tala um að allir hafi unnið að þessu máli af mikilli fagmennsku og því ber að fagna.

Með frumvarpi til laga um grunnskóla er lögð áhersla í þá átt að nemandinn sé í fyrirrúmi og áhersla lögð á velferð hans og öryggi. Enn fremur ber frumvarpið merki aukinnar vitundar um breytt samfélag og ólíkar þarfir nemenda út frá fjölmenningu, uppruna, tungumáli, menningu, fötlun og öðrum námslegum þörfum sem taka þarf tillit til. Töluverðar breytingar eru gerðar á námsmati þar sem fallið er frá samræmdum prófum og í staðinn koma könnunarpróf sem tekin eru á haustönn í 10. bekk. Enn fremur er leitast við að gera stjórnsýslu skilvirkari og skýra svið sveitarfélaga annars vegar og ríkisins hins vegar á þann hátt að gefa sveitarfélögum aukið frelsi, til að mynda með heimild til samreksturs leik-, grunn- og tónlistarskóla. Ég tel að það sé mjög jákvætt og sérstaklega á landsbyggðinni. Slíkur samrekstur hefur gengið með miklum sóma á Húsavík veit ég. Þá eru lagðar til breytingar á gæðakafla gildandi laga. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög móti sér skólastefnu og taki þátt í að meta framgang hennar og hafi þannig aukin áhrif á starf grunnskólans en jafnframt að þau beri skýra ábyrgð á þeirri stefnu sem þau marka sér.

Þetta er í stuttu máli sami grunntónn og í ályktun okkar framsóknarmanna um grunnskólastigið en þar segir um markmið að á grunnskólaárunum eigi sér stað mótun sem einstaklingurinn býr við alla ævi. Helsta markmið grunnskólans á að vera að þroska einstaklinga þannig að þeir öðlist öfluga sjálfsvitund og sterka samfélagsvitund. Auka þarf sveigjanleika grunnskólastigsins með einstaklingsmiðað nám að leiðarljósi þar sem hæfileikar hvers og eins fái notið sín. Kennslan þarf að mæta þörfum bæði innfluttra og aðfluttra Íslendinga.

Það hefur kannski farið mikill tími í að ræða um þá ákvörðun að taka út úr markmiðskafla greinarinnar ákvæði um hið kristilega siðgæði. Ég taldi að þar væri einfaldlega of langt gengið og spurði á Alþingi í umræðum sem spunnust út frá því af hverju verið væri að taka þetta skref, hvort það væru einhverjar raddir eða eitthvað í samfélaginu sem gerði það að verkum eða krefðist þess að hið kristilega siðgæði væri tekið út úr markmiðskafla grunnskólalaganna.

Það var lítið um svör eðlilega. Það eina sem kannski var bent á var dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Folgerø og fleiri gegn Noregi, en því miður var sú tilvísun í þann dóm byggð á miklum misskilningi og kannski má segja að dómurinn kveði á um að hið kristilega siðgæði eigi að vera, vegna þess að dómurinn tilgreinir sérstaklega að markmið norsku laganna sem tilgreindi hið kristilega siðgæði væri lofsvert.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í umsögn sem kom frá biskupi Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmiðsgrein gildandi grunnskólalaga á Íslandi vísar til þess að skólinn skuli „mótast af kristnu siðgæði.“ Íslenskir skólar hafa veitt undanþágu frá einstökum þáttum skólastarfs þegar óskað hefur verið eftir því. Um það þarf áreiðanlega að setja skýrar reglur svo að óvissu sé eytt.

Verði álitið nauðsynlegt að endurskoða orðalag markmiðsgreinarinnar þá leggur Biskupsstofa áherslu á að skýrt komi fram hverjar séu þær rætur sem grunngildi íslensks samfélags og skólastarfs eru sprottnar úr. Því er lagt til að markmiðsgreinin í 2. gr orðist svo:

„Starfshættir grunnskóla byggja á þjóðlegum, kristnum og siðrænum (húmanískum) arfi íslenskrar menningar og skulu mótast af mannúð, umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.““

Ég fagna því að tekið hefur verið tillit til þessara óska biskups Íslands og Biskupsstofu og nú er komin inn í frumvarpið setning þar sem segir að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Fleiri umsagnir bentu á að hér væri ekki verið að stíga gott skref. Til að mynda kom fram mjög faglega unnin greinargerð frá Sigurði Pálssyni þar sem hann rekur það í stórum dráttum af hverju dómurinn á ekki við. Ég hef gert það í grein sem birtist í Morgunblaðinu í vetur, í febrúarmánuði ef ég man rétt, og læt mér nægja að vísa í þá umfjöllun almennt. Geta má þess að dómsniðurstaðan kvað ekki á um að Norðmenn þyrftu að breyta markmiðsgrein skólans eins og staðhæft var í umræðunni, en dómurinn snerist einfaldlega um það að skilyrði til undanþágu frá námskeiði sem innihélt bæði ákvæði um kristindómsfræðslu og það sem þeir kölluðu lífsleikni væri of þröngt. En það er allt í lagi að geta þess að dómurinn klofnaði í málinu og var felldur með 9 atkvæðum gegn 8 en minni hlutinn taldi að mannréttindi hefðu ekki verið brotin. Því má segja að allur dómurinn hafi litið svo á að það væri í lagi, og dómurinn kveður mjög skýrt á um það, að tiltekin trú, hver svo sem hún er, má byggja menntastefnu og skólastarf á þeim arfi. Það er einmitt það sem við erum að gera í menntamálanefnd og því fagna ég, sérstaklega að þessi setning skuli vera komin inn. Ég vil samt taka fram í lok þessarar umræðu, að mér fannst gæta þess sem ég nefndi umburðarlyndisfasisma. Við verðum einfaldlega að passa okkur á trúarofstæki og það er nú eitt af því hættulegra sem við þurfum að búa við í heiminum í dag. En þessi angi, svokallaði umburðarlyndisfasismi, ég hef skýrt það hugtak þannig að við erum að ganga of langt ef t.d. öllum nemendum í skóla er meinað að borða svínakjöt í mötuneyti ef viss trúarhópur má það ekki.

Ég hef ásamt hv. þm. Jóni Magnússyni lagt fram breytingartillögu við 25. gr. frumvarpsins. Hún orðast svo: Á eftir orðinu „samfélagsgreinum“ í 2. mgr. 25. gr. komi: kristinfræði. Ég vil taka fram af því að komin er breytingartillaga frá meiri hluta nefndarinnar, sem ég styð, er talað um trúarbragðafræði, sem var ekki. Þetta á sem sagt að vera þannig að talað verði um kristin- og trúarbragðafræði. Ég held að þetta sé mjög skýrt en ég tel að í ljósi þess að ákveðið er að byggja starfshætti grunnskóla á kristinni arfleifð sé rétt að orðið kristinfræði komi líka í 2. mgr. 25. gr.

Sigurður Pálsson fjallaði líka um þetta í áliti sínu sem hann sendi um frumvarpið. Segja má að þarna finnist mönnum vera gengið heldur of langt og þeim fannst mjög bagalegt að þetta skuli fara út.

Hann segir og vísar í greinargerðina með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Loks er tillaga um að kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði flokkist undir samfélagsgreinar en teljist ekki sérstakur liður í lögum. Áfram verði áhersla á þessa þætti innan samfélagsgreina en í gildandi viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá eru þessir þættir með sameiginlegan tíma til ráðstöfunar. Þessi breyting á stöðu greinarinnar, kristinfræði, trúarbragðafræði og siðfræði verður að teljast róttæk í meira lagi. Greinin er lögð niður sem sérstök námsgrein en hins vegar boðað að áhersla verði lögð á þessa þætti innan samfélagsgreina.“

Hann lýsir furðu sinni á að ekki skuli vera í greinargerð færð nein rök fyrir breytingunni en þess aðeins getið að greinin hafi deilt kennslustundum með samfélagsgreinum. Ég tek undir það og vísa þá enn og aftur í það að fyrst við erum að gera breytingar á 2. gr. eigum við að ganga þetta skref líka.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er eindregin skoðun mín að verði af þessari breytingu veikist staða trúarbragðafræðslunnar verulega á sama tíma og víða um Evrópu og einnig hér á landi hefur verið bent á mikilvægi þess að efla trúarbragðafræðslu og fræðslu um önnur lífsviðhorf vegna vaxandi alþjóðavæðingar og fjölmenningar.“

Hann nefnir dæmi frá árinu 1996 þegar þáverandi menntamálaráðherra skipaði stefnumótunarnefnd um endurskoðun aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla. Nefndin skilaði skýrslu í apríl 1997 og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ljóst er að alþjóðleg samskipti munu verða sífellt stærri þáttur í lífi uppvaxandi kynslóða og því mikilvægt að nemendur öðlist einnig skilning á menningu og sögu annarra þjóða og sameiginlegri arfleifð mannkyns og öðlist þannig umburðarlyndi gagnvart ólíkum kynþáttum.“

Síðan segir:

„Mun minni tíma er varið til kennslu kristinna fræða hér á landi en hjá nágrannaþjóðum. Mikilvægt er að kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði fái tilhlýðilegt rými í grunnskólum og staða þeirra greina verði skoðuð sérstaklega. Einkum er brýnt að endurskoða námsefni í þessum greinum.“

Því miður er það svo að að lokinni umræddri endurskoðun á námskrá hefur hvergi verið tekið tillit til þessa álits, sem ég tel að sé miður. Ég ítreka ummæli mín frá því í morgun um leikskólafrumvarpið, að til þess að koma í veg fyrir alls kyns fordóma þurfum við að upplýsa fólk. Ég tel afar mikilvægt, þó að sumum finnist það léttvægt, að hér sé áfram öflug trúarbragðafræðsla og kristinfræðsla og farið sé vel í gegnum menningu okkar og sögu og bendi á að mannréttindi nútímans byggjast á þessu kristilega siðgæði.

Tíminn er fljótur að renna frá manni, ég ætlaði ekki að eyða svo miklum tíma í akkúrat þetta en mér gefst kannski tími til þess að koma hér aftur upp í umræðunni.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um stjórnskipun grunnskóla. Í 5. gr. er fjallað um skyldu sveitarfélags til þess að tryggja börnum skólagöngu, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Þar er fyrst og fremst talað um börn sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu en einnig segir að sömu skyldur hvíli á sveitarfélögum ef sá sem fer með forsjá barns á lögheimili í sveitarfélaginu enda semji sveitarfélög sín á milli um skólagöngu barns. Í greinargerð með frumvarpinu segir að ákvæðinu sé ætlað að tryggja samfellda skólagöngu barna sem eru í fóstri á heimili utan lögheimilissveitarfélags og að sveitarfélögum sé skylt að tryggja börnunum skólavist og haga undirbúningi og vistunarúrræðum á þann hátt að hagsmunir barna séu hafðir að leiðarljósi.

Nefndin fjallaði mjög ítarlega um þetta og í þeirri umfjöllun kom skýrt fram að því miður væri misbrestur á að skólaganga þessara barna væri tryggð. Það ætti fyrst og fremst við þegar barnið er komið tímabundið í fóstur en þá flyst lögheimili barnsins ekki til fósturforeldra líkt og þegar um varanlega ráðstöfun barns er að ræða og barnið öðlast þar af leiðandi ekki sjálfkrafa rétt til skólagöngu. Þetta hefur skapað vissan ágreining á milli sveitarfélaga um greiðslu lögheimilis sveitarfélags til sveitarfélags þar sem barn var í tímabundnu fóstri. Í þessu sambandi má vísa í ákvæði barnaverndarlaga en á grundvelli 75. gr. laganna hefur ráðherra sett reglugerð sem kveður skýrt á um að sveitarfélag sem ráðstafar barni í fóstur skuli standa straum af kostnaðinum vegna skólagöngu barnsins á meðan ráðstöfunin varir. Því miður kom fram í umsögn Barnaverndarstofu að skýrt ákvæði reglugerðarinnar hafi ekki komið í veg fyrir ágreining. Í umsögninni kom líka fram að þær viðmiðunarreglur sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett hafi ekki leyst þennan vanda.

Ég get vel tekið undir álit meiri hluta nefndarinnar að við ástand sem þetta sé erfitt að una og gæta verði þess að hagsmunir barns verði alltaf í fyrirrúmi. Að baki vali á fósturheimili fyrir barn liggur mikil vinna og mat á því hverjir séu heppilegir fósturforeldrar. Hagsmunir barnsins verða alltaf að vega þyngra en ágreiningur milli einstakra sveitarfélaga um kostnaðinn. Nefndin telur að þegar teknar eru ákvarðanir sem þessar, sem geta haft mikil áhrif á líf og framtíð barna, eigi að tryggja að þau njóti sömu þjónustu og önnur börn í viðkomandi sveitarfélagi sem þau flytjast til, óháð lögheimili. Er það álit nefndarinnar að sveitarfélögum eigi að vera skylt að tryggja að börn sem komið hefur verið í fóstur utan lögheimilissveitarfélags síns njóti skólavistar í viðkomandi sveitarfélagi. Þess vegna er lagt til að ákvæðum 5. gr. verði breytt með tilliti til þessa.

Ég ætla næst að fjalla örstutt á þeirri rúmu mínútu sem ég hef eftir í þessari lotu um mat á eftirliti með gæðum grunnskólastarfsins. Ég kom inn á þetta líka í ræðu minni um leikskólafrumvarpið en það er einfaldlega þannig að í umsögnum sveitarfélaganna koma almennt fram miklar athugasemdir við ákvæði kaflans þess efnis að verið sé að leggja auknar og óraunhæfar skyldur á herðar sveitarfélaga sem ekki eru nægjanlega vel rökstuddar, til að mynda 1. mgr. 37. gr. sem kveður á um árlega upplýsingagjöf til ráðuneytis. Krafa um árlega upplýsingaskyldu sem þessa muni auka útgjöld sveitarfélaganna til muna og þannig verði minni sveitarfélög að kaupa þjónustu fagaðila til að framkvæma ytra mat.

Nefndin telur, svo ég stikli á stóru, að markmiðin muni leiða til umbóta í skólastarfi en álítur að árleg upplýsingaskylda sé fullíþyngjandi og ekki sé nauðsynlegt að allra upplýsinga verði aflað á hverju ári. Ég held að það sé skref í rétta átt, herra forseti, (Forseti hringir.) en vil óska eftir því hér með að fá að komast aftur á mælendaskrá.