135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[19:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Jæja, þá erum við búin að næra okkur og hlusta á frábært framlag okkar í Júróvision-keppninni, Friðrik Ómar og Regína hafa aldrei verið betri. Maður vonar bara að ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra um að hefja hvalveiðar komi ekki í veg fyrir að við náum áfram í keppninni. Nú getum við kannski snúið okkur að grunnskólafrumvarpinu sem hér er til umræðu.

Ég hef talsvert haft á hornum mér hin nýju þingskapalög það sem af er degi. Mér fyndist bragarbót að því að breyta þeim lögum hið allra fyrsta og tryggja þó það að talsmenn flokka í jafnstórum og viðamiklum málum og við fjöllum um hér hafi lengri ræðutíma en aðrir þingmenn. Þá er ég kannski með svona 40 mínútur í huga. Mér fyndist það engin ofrausn. Ég segi fyrir mig að mér liði mun betur ef ég ætti að fara að fara yfir þessi mál og þær athugasemdir sem ég þarf að gera ef ég hefði 40 mínútur frekar en þær 20 sem ég nú hef.

Hæstv. forseti. Nú ætla ég að nýta þær 20 mínútur vel. Ég hef lagt fram breytingartillögur við frumvarpið á sérstöku þskj. 1070. Ég skrifa undir nefndarálit á þskj. 1007 með fyrirvara. Ég geri nánari grein fyrir honum eftir því sem líður á mál mitt. En ég hef nokkra þætti sérstaklega í huga í þeim efnum. Ég get nefnt hlut náms- og starfsráðgjafa í grunnskólunum. Ég get nefnt kostnað við nám í grunnskólum en eins og komið hefur fram í máli okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs það sem af er degi að þá leggjum við mjög mikla áherslu á að skólinn sé nemendum og foreldrum þeirra að kostnaðarlausu, jafnt leikskólinn sem grunnskólinn og raunar framhaldsskólinn líka. Ég geri líka athugasemdir við þætti er varða 43. gr. sem varða gjaldtöku og ég geri frekari grein fyrir hér á eftir.

Í nefndarstarfinu voru ýmsar málamiðlanir gerðar. Margar fleiri tillögur en þær sem hér liggja fyrir hefði mátt gera við þessi mál. Mér finnst t.d. mikilvægt að nefna að gerðar eru alvarlegar athugasemdir frá Kennarasambandsins hálfu við það að skólaárið sé samkvæmt frumvarpinu lengt úr 170 dögum í 180 daga án skilgreiningar á því til hvers eigi að nota eða megi nota þessa tíu viðbótardaga þannig að ákvæðið fari ekki í bága við gildandi kjarasamninga fyrir grunnskóla. Í mínum huga er þetta ekki nægilega gott. Mér finnst þetta óásættanlegt.

En ég hef ákveðið, hæstv. forseti, í staðinn fyrir að setja fram breytingartillögur hvað þetta varðar, og eiga á hættu að meiri hluti þingmanna felli hana í atkvæðagreiðslu, að freista þess að ná samkomulagi við meiri hluta menntamálanefndar á milli 2. og 3. umr. um þetta mál svo að endanleg afgreiðsla þess þáttar málsins verði ekki tekin fyrr en að vel athuguðu máli og að lokinni sérstakri skoðun í menntamálanefnd.

Ég er hugsi yfir þeirri tilhneigingu sem mér finnst ríkja meðal þingmanna stjórnarflokkanna og raunar almennt meðal hægri sinnaðri hluta stjórnmálamanna sem mér finnst vera fólgin í því að ákveðin tilhneiging er til staðar, eins og ég talaði um í umræðunni um leikskólann áðan, að koma sér undan lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég held að sömu tilhneigingar gæti í frumvarpinu hvað varðar sjálfstæða grunnskóla. Ég vil beina orðum mínum úr þessum ræðustóli sérstaklega til þeirra aðila sem hafa rannsóknarskyldu á herðum varðandi starfsmannamál og stjórnsýslu hins opinbera, að beina sjónum sínum í auknum mæli að þessari tilhneigingu. Ég tel hér vera verulegt rannsóknarefni á ferðinni.

Ég hef komist yfir ritgerð í stjórnmálafræði sem er skrifuð af Hafdísi Gísladóttur, um sjálfseignarstofnanir og gildissvið stjórnsýslulaga. Hafdís Gísladóttir skrifar þessa ritgerð í félagsvísindadeild Háskóla Íslands í júní 2007. Markmið ritgerðarinnar var að kanna hvaða áhrif það hefði á réttarstöðu nemenda þegar sjálfseignarstofnunum er falið á grundvelli samninga að sinna kennslu sem almennt er á hendi ríkis og sveitarfélaga að veita.

Réttarstaða nemenda er í ritgerðinni skoðuð út frá kröfum um málsmeðferð sem fram koma í stjórnsýslulögum og meginreglu stjórnsýsluréttar í málum þar sem sjálfseignarstofnanir taka ákvörðun um réttindi og skyldur nemenda, t.d. hvað varðar brottvísun úr skóla sem hún nefnir sérstaklega.

Hafdís segir í útdrætti ritgerðar sinnar að stefna ríkisstjórnar Íslands frá árinu 1995, um nýskipan í ríkisrekstri, hafi haft þau áhrif að sífellt fleiri einkaaðilum sé falin framkvæmd opinberra verkefna. Og í ritgerðinni fjallar hún um tvær sjálfseignarstofnanir, annars vegar Landakotsskóla og hins vegar Listaháskóla Íslands, en þessum báðum skólum hefur á grundvelli þjónustusamnings við menntamálaráðuneytið verið falið að sinna kennslu, Landakotsskóla á grunnskólastigi og Listaháskólanum á háskólastigi.

Af niðurstöðum Hafdísar, virðulegi forseti, má ráða að réttarstaða nemenda við skóla sem starfræktur er af einkaaðilum, svo sem sjálfseignarstofnun, sé ekki eins skýr og ef um væri að ræða skóla sem starfræktur er af ríki eða sveitarfélagi. Þetta segir höfundur að ráðist m.a. af því að stjórnsýslulögin, sem hafa að geyma kröfur um málsmeðferð, taki almennt ekki til einkaaðila þar með talið þeirra sjálfseignarstofnana sem fjallað er um í ritgerðinni.

Virðulegi forseti. Ég vildi óska að ég hefði fengið þessa ritgerð í hendur fyrr en það var ekki fyrr en nefndin hafði lokið umfjöllun um málin sem þessi ritgerð kom í mínar hendur og hún mótaði í sjálfu sér ákveðinn hluta af breytingartillögum þeim sem lesa má á þskj. 1070. En þar geri ég ráð fyrir því að réttarstaða nemenda í þeim skólum sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögunum sé sérstaklega skýrð. Þetta eru breytingartillögur sem varða 43. gr. en samkvæmt henni er ráðherra heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags. Breytingartillaga mín við þessa grein er sú að við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Að tryggja beri að félag það er stendur að rekstri skólans samkvæmt þessari grein sé ekki rekið í hagnaðarskyni.“

Ég er með öðrum orðum ekki að fara fram á að loku verði fyrir það skotið að sjálfseignarstofnun eða hlutafélag geti rekið skólastofnun af því tagi sem hér um ræðir en tryggja verði að slíkt félag sé ekki rekið í hagnaðarskyni.

Í öðru lagi legg ég til að lokamálsliður 1. mgr. falli brott. Sá málsliður varðar ákvarðanir um gjaldtöku við slíka skóla. En eins og frumvarpið hljóðar þá er gert ráð fyrir því að stjórnsýsluákvarðanir, þ.e. ákvarðanir sem varða ákvæði stjórnsýslulaga í þeim skólum sem um er rætt í 43. gr., séu kæranlegar skv. 47. gr. Það eigi þó ekki við um ákvarðanir er varða gjaldtöku. En í ljósi þess að ég er með breytingar um gjaldtökuna almennt og legg til að grunnskólastigið verði alfarið gjaldfrjálst legg ég til að þessi málsliður falli brott.

Í þriðja lagi geri ég ráð fyrir því í breytingartillögum mínum að 2. mgr. 33. gr. — sem fjallar um það að grunnskólar sem hljóti viðurkenningu eigi rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar í samræmi við fjölda nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar — greini á um það að framlagið skuli ákveðið af sveitarstjórn og það geti verið mishátt eftir fjölda nemenda og rekstrarumfangi skóla. Einnig geti rekstraraðili samið við sveitarstjórnir um að veita nemendum úr þeim sveitarfélögum skólavist. Ég tek sem sagt í burtu allt það sem varðar 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar enda hefur það ákvæði eins og það er í grunnskólalögum í dag ávallt verið þyrnir í augum sveitarfélaga. Í umsögnum Sambands ísl. sveitarfélaga til menntamálanefndar er eindregið hvatt til þess að þessu ákvæði verði breytt og það fellt brott.

Í síðasta lagi geri ég breytingartillögu um 43. gr. sem gerir ráð fyrir því að ný málsgrein bætist við hana sem verði 3. mgr. Í henni er tekið fram að grunnskólar sem starfræktir eru samkvæmt þessari grein heyri undir skólanefndir sveitarfélaganna sem er mjög mikilvægt að mínu mati. Í öðru lagi eigi skólarnir, þeir sem að starfi eftir 43. gr., að fylgja meginreglu stjórnsýsluréttar við ákvarðanatöku og meðferð mála er lýtur að réttindum og skyldum nemenda. Skulu þeir setja sér reglur um úrlausn ágreiningsmála sem tryggi réttarstöðu nemenda, t.d. er varðar inntöku, brottvísun eða annað það sem talist geta stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga. Með kærumál geri ég þó ráð fyrir að fari samkvæmt reglum stjórnsýslulaga og einnig legg ég til að ákvæði upplýsingalaga gildi um þá skóla sem starfa samkvæmt þessari grein.

Þær hugmyndir, sem liggja til grundvallar breytingunni í staflið d, hef ég fengið í gegnum ritgerðina sem ég nefndi hér í máli mínu áður, ritgerð Hafdísar Gísladóttur um sjálfseignarstofnanir og gildissvið stjórnsýslulaga. Ég árétta þennan skilning minn. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að öflugt starf er rekið í grunnskólanum. Það er mjög fjölbreytt. Boðið er upp á gríðarlega fjölbreytta skólastefnu, aðferðir og leiðir fjölbreyttar milli sveitarfélaga jafnvel milli hverfa eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að innan þessa opinbera kerfis okkar rúmist slík fjölbreytni að það sé í sjálfu sér ekkert sem rekur okkur áfram í því að hvetja til einkarekinna grunnskóla. En eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, þá er ég heldur ekki að leggja til að lagt verði bann við því.

Varðandi aðrar breytingar sem ég legg til vil ég sérstaklega gera að umtalsefni breytingu á 16. gr. Sú grein fjallar um móttökuáætlun og nemendur með annað móðurmál en íslensku. Það var mikið rætt í nefndinni með hvaða hætti þeim málum sem varða þá nemendur sem koma í skóla með annað móðurmál en íslensku væri best fyrir komið. Þau atriði sem samstaða náðist um að breyta koma fram í breytingartillögum meiri hlutans þar sem gert er ráð fyrir að kennsla í grunnskólum skuli fara fram á íslensku. Það sé heimilt að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar það leiðir af eðli máls eða aðalnámskrá. Og svo gerum við ráð fyrir að 2. mgr., þar sem greint er frá möguleikum á túlkaþjónustu í frumvarpinu — hún er svohljóðandi:

„Foreldrum skulu á þeim tímamótum“ — þ.e. þegar börnin koma ný inn í skólann — „veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá möguleikum á túlkaþjónustu.“

Nefndin er sammála um að þetta sé ófært, kveða þurfi fastara að orði. Hún leggur til á breytingartillöguskjali meiri hlutans á þskj. 1008 að orðalagið verði með þeim hætti að foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum verði greint frá rétti sínum til túlkaþjónustu.

Í mínum huga gengur þetta ákvæði alls ekki nógu langt. Ég legg til að orðalagið verði að þessum foreldrum verði tryggð viðeigandi túlkaþjónusta. Annað er að mínu mati algjörlega óásættanlegt. Það er ekki ásættanlegt að foreldrum sem eru að koma með börn inn í skólana sem tala ekki íslensku sé einungis gerð grein fyrir einhverjum rétti sem þau eiga. Það eru hreinar línur. Við þurfum að segja skýrt og skorinort hver rétturinn er og réttur til túlkunar á að vera skýlaus hvort sem það er túlkun yfir á táknmál eða eitthvert annað tungumál.

Ég legg einnig til að gerð verði breyting á greininni aðeins aftar. — Nei, nú er ég að fara með fleipur. Nú er ég að segja frá atriði sem mér hefur yfirsést. En ég geri ráð fyrir að ég þurfi að flytja hér nýja breytingartillögu eftir 2. umr. milli 2. og 3.

En aðeins neðar í greininni segir um móttökuáætlunina vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku, að taka skuli mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum og tryggja skuli að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf. Þarna tel ég þörf á því að bætt verði við: „á móðurmáli þeirra eða öðru tungumáli sem foreldrarnir skilja.“ Ekki er nóg að afhenda erlendum foreldrum upplýsingaefni á íslensku og láta foreldrana sjá um það sjálfa að fá þýðingu á því. Það verður að tryggja að þannig sé búið um hnúta líka til þess að samræmi við 18. gr. sé eðlilegt en þar segir að ef í hlut eigi foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál þá skuli skólinn „leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.“ Það er breytingartillaga við þessa grein líka sem gerir ráð fyrir því að — nú er ég aftur orðin týnd í þessum punkti mínum, forseti.

En það sem ég vildi undirstrika er að 18. gr. gerir ráð fyrir því að til staðar sé túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein. Og til þess að gera 16. gr. samhljóða eða alla vega ekki í mótstöðu við 18. gr. tel ég að 16. gr. þurfi að breytast með tilliti til þess sem ég sagði áðan, að fólki sé látið í té upplýsingaefni á móðurmáli sínu eða öðru tungumáli sem það skilur.

Hæstv. forseti. Ég átti þess kost að sitja að hluta til fjórða skólamálaþing Kennarasambands Íslands sem var haldið fyrir skemmstu. Það skólamálaþing sendi frá sér ályktun. Þar er ákveðnum þáttum sem koma fram í frumvarpi til grunnskóla fagnað en þar eru sömuleiðis gagnrýnar athugasemdir. Þingið gagnrýnir t.d. að í grunnskólafrumvarpinu sé dregið úr möguleikum kennara til að hafa áhrif á stjórnun og skipulagningu á innra starfi skólans. Slíkt hefur verið reynt að leiðrétta að einhverju leyti í breytingartillögum sem nefndin stendur sameiginlega að og ég vona að gengið hafi verið nægilega langt til þess að kennarar geti sætt sig við það. Skólamálaþingið gagnrýnir einnig þessa lengingu skólaársins sem ég gerði grein fyrir hér áðan.

Þegar farið er í svona mál í nefnd eins og menntamálanefnd er eðli máls samkvæmt mikið rýnt í lagatextann og það er verið að bera saman greinargerðina og lagatextann og gríðarlegt magn efnismikilla umsagna. Eins og ég sagði í upphafi máls míns hér í dag var vinnan í nefndinni afar góð og mikil og menn voru samviskusamir og gáfu sér tíma. Við tókumst á um þau mál sem við vorum ósátt um eða einhver ágreiningur var um og reyndum að komast til botns í öðru sem við ekki skildum.

En ég verð að segja að það hefði mátt taka kannski einn snúning á svona skólamálaumræðu, skólamálapólitík, sem hefði kannski verið á öðrum forsendum en forsendum löggjafans. Og það kom í umsögn tillaga eða hugmynd til okkar. Það var frá Samtökum ísl. sveitarfélaga sem eins og ég sagði áðan reka öfluga starfsemi á skólamálaskrifstofu sinni. Tillagan var um það að við fengjum á fund okkar einhvern reyndasta og færasta fræðimann á sviði skóla- og fræðslumála á Íslandi til skrafs og ráðagerða um mótun menntastefnu og þróun skólastarfs. Það var dr. Jón Torfi Jónasson sem nefndur var við okkur. Ég vildi óska, þegar við erum búin að vinna í þessu jafnlinnulaust og við höfum gert, að við hefðum haft tækifæri til þess að kalla Jón Torfa til okkar. Það hefði kannski getað dýpkað aðeins ákveðna þætti í frumvarpinu. Það hefði líka getað hjálpað okkur með orðaval. Ég hef á tilfinningunni að betur hefði mátt vanda til verka hvað það varðar.

Það er mjög margt í frumvarpinu, jafnvel eftir breytingartillögurnar sem nefndin stendur sameiginlega að, sem má út frá fræðunum örugglega skoða mun betur og nákvæmar en við höfum haft tækifæri til að gera. Í sjálfu sér fórum við ekkert út í þá sálma þó að ég telji að full ástæða hefði verið til. Ég tel að frumvörp sem fjalla um menntamál, mennta- og menningarmál, þurfi sérstakrar natni við hvað varðar tungumálið okkar, málnotkun og orðanotkun. Það hefði örugglega mátt vanda mun betur í þessu tilfelli og ég trúi því að við séum sammála um þetta atriði í menntamálanefndinni.

En eins og ég segi: Þótt vel hafi verið unnið hefði kannski mátt gera betur. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég óska eftir að fá að vera sett aftur á mælendaskrá í minni síðari ræðu.