135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[20:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir mjög gott að fá tækifæri til þess að skýra aðeins nánar það sem fyrir mér vakir í þessu efni. Eftir að hafa lesið þessa þætti í ritgerðinni sem ég vitnaði til og eftir að hafa lesið oftar en einu sinni ávirðingar frá umboðsmanni Alþingis til Alþingis um nákvæmlega þessa sömu þætti, sýnist mér að verið sé með samningum við einkaaðila um stjórnsýsluverkefni að framselja vald og það orki tvímælis varðandi stjórnsýslulög. Ég tel að orðalag 43. gr., þegar talað er um að ákvarðanir séu kæranlegar samkvæmt 47. gr. — að 47. gr. dekki ekki að fullu það sem umboðsmaður Alþingis og höfundur þeirrar ritgerðar sem ég nefndi telja að þurfi að dekka. Þess vegna orðaði ég breytingartillöguna með þeim hætti sem ég gerði.

Hitt er svo aftur annað mál að við getum þá notað tækifærið og tekið þetta álitamál inn í nefndina á milli 2. og 3. umr. og fengið þess vegna umboðsmann Alþingis til þess að koma og gera okkur frekari grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef gert að umræðuefni hér oftar en einu sinni þegar skýrsla umboðsmanns kemur til okkar. Ritgerð Hafdísar Gísladóttur er að mínu viti nákvæmlega samhljóða þeim ábendingum sem við höfum fengið frá umboðsmanni.