135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[20:47]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um grunnskóla við 2. umr. og mig langar að fara nokkrum orðum um þetta ágæta frumvarp en tek það fram í upphafi að ég mun ekki hætta mér inn á 2. gr. um markmiðið og þá trúarbragðafræðslu eða annað sem menn hafa hér eytt drjúgum tíma sínum í og læt aðra um það.

Ég mun hins vegar gera að umtalsefni 5. gr. og þá sérstaklega þar sem vísað er til fósturbarna vegna þess að það var töluvert um það rætt í menntamálanefnd. Þar sem hefur komið í ljós að þegar fósturforeldrar eru fundnir fósturbörnum og síðan þarf að koma börnunum í skóla eins og lögin segja til um að þá hefur staðið á því að sveitarfélögin, annars vegar sveitarfélagið þar sem börnin áttu lögheimili og hins vegar sveitarfélagið þar sem fósturforeldrar búa, hafi getað komið sér saman um greiðslur. Ég tel að hvað þetta varðar þurfi og sé nauðsynlegt að barnið njóti vafans og hagsmunir barnsins verði ætíð hafðir að leiðarljósi og það verði þá annar úrskurðaraðili að úrskurða í málefnum þeirra sveitarfélaga sem ekki geta komið sér saman.

Hins vegar verður líka að líta svo á að þegar fósturforeldrar eru fundnir verði líka að kanna hvort — ef barnið sem sett er í fóstur þarf á mikilli aðstoð að halda — það sveitarfélag sem fósturforeldrarnir eru búsettir í hafi burði til þess að sinna því verkefni sem það þarf að takast á við með tilkomu nýs einstaklings í kannski fámennan skóla. En alla tíð og alltaf þarf hagur barnsins að vera hafður að leiðarljósi og ganga fyrir. Hitt verða menn að semja þá um sérstaklega.

Það hefur verið gert hér aðeins að umtalsefni að kennarar sem starfsmenn grunnskólans hafi ekki haft og fái ekki nægilegt vægi í þessu frumvarpi. Það er náttúrlega kristaltært og á ekki að þurfa að taka það fram að skólinn er einskis virði án sinna starfsmanna og kennararnir eru grunnurinn að hinu faglega starfi. Í 7. gr. er gerð breytingartillaga þar sem, eins og fram kemur af hálfu nefndarinnar, skólastjóri boðar til kennarafunda svo oft sem þurfa þykir á starfstíma skóla og kennarafundi skuli sækja kennarar og aðrir sérfræðingar skólans og síðan að skólastjóri boðar til starfsmannafundar svo oft sem þurfa þykir. Ég treysti skólastjórum og ég treysti kennurum fullkomlega til þess að finna leið til þess að koma sameiginlega að faglegu starfi grunnskólans og hef því ekki áhyggjur af því þó að ekki standi þarna hversu oft á ári kennarafundir þurfi að vera eða oft í viku eða oft í mánuði. Það er fullkomlega eðlilegt að skólastjóri og starfsmenn skólans vinni þar að.

Varðandi skólaráðið tel ég að því beri að fagna að tveimur fulltrúum sé bætt inn í skólaráðið og það eru nemendur þannig að þeir eignast þar tvo fulltrúa og geta þá komið að og skipst á skoðunum við aðra þá sem sitja í skólaráði, en áður hafði hugsunin verið sú að nemendur fengju til umsagnar það sem kæmi frá skólaráði hvað varðaði skólanámskrá eða annað er þá snerti í þeirra námi. Ég tel því að þetta sé veruleg breyting til batnaðar og fagna því.

Ég dreg heldur ekki dul á það, hæstv. forseti, að ég fagna því að 12. gr. er tekin út og gerð að bráðabirgðaákvæði vegna þess að það er afar sérstakt að bundið sé í lög að ein starfsstétt skuli og eigi rétt á símenntun og það sé bundið í lög um starfsvettvanginn þannig að ég fagna því að það fari út og vonandi komast menn að niðurstöðu eins og bráðabirgðaákvæðið kveður á um.

Þetta frumvarp ber þess merki að nemendur eru settir í öndvegi. Þeir eru þeir aðilar sem skipta meginmáli í þessu starfi. Án þeirra væri skólinn ekkert, ef við getum orðað það svo, þó svo að fræðsluhlutverkið sé kennaranna. Því er mjög gott, og því ber að fagna, í 13. gr. um rétt nemenda að þar er gerð breytingartillaga í síðustu málsgrein þar sem stendur einfaldlega að nemendur eigi rétt til náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum af til þess bærum sérfræðingum. Þá er alveg ljóst að náms- og starfsráðgjöfum er hér gert verulega hátt undir höfði, ef svo mætti að orði komast, hæstv. forseti. Þeirra er hér getið og að þeir sem sinna þessu starfi séu til þess bærir sérfræðingar. Þetta er sérstök starfsstétt. Sérstakt nám liggur þar að baki. Það er afar mikilvægt að þetta komi inn með þessum hætti.

Hæstv. forseti. Það er sömuleiðis afar þörf breyting í 17. gr. frumvarpsins þar sem við ræðum um nemendur með sérþarfir. Það skiptir máli fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda í sínu námi, hvort heldur er vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar eða annarra sértækra örðugleika, að þeim sé vel sinnt. Mér sýnist í þessari 17. gr. og því sem lesa má í greinargerð með frumvarpinu að virkilega sé verið að horfa til þess og bæta í hvað það varðar. Ég geri mér líka fulla grein fyrir því sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður að margir sveitarstjórnarmenn horfa til þessa þáttar og velta fyrir sér hvort um sé að ræða mikinn kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. En það er líka ljóst að með þessu frumvarpi er sagt að menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi staðið saman og munu standa saman að því að reikna út þann kostnaðarauka sem verður og vinna úr því máli og það er vel.

Það er breyting í 17. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Ef ekki næst samkomulag milli foreldra …“

Þá er það skólastjórinn sjálfur sem ræður og tekur ákvörðun í málinu ef ekki næst sátt á milli aðila um fyrirkomulag skólavistar einstakra nemenda með sérþarfir og er hægt að kæra þá ákvörðun skólastjórans samkvæmt 47. gr. Ég fagna þeirri breytingu og ég vil leggja áherslu á hana, með leyfi forseta:

„Verði ágreiningur um fyrirkomulag skólavistar barns skal við úrlausn hans gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Skal ákvörðun tekin með hliðsjón af áliti sérfræðinga og með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ákvörðun er kæranleg samkvæmt fyrirmælum 47. gr.“

Ég tel afar mikilvægt að þessu hafi verið breytt og ítreka að þetta er til mun betri vegar.

Svo er það 19. gr. Ég velti því stundum fyrir mér af hverju við setjum lög og hvernig við ætlum að framfylgja því sem við setjum í lög. Það er talað hér um ábyrgð foreldra og að foreldrar beri ábyrgð á því að barnið þeirra innritist í skóla og mæti í skólann og verði misbrestur á skólasókn og ekki liggi gildar ástæður fyrir þá beri skólastjóra að leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Svo er breytingartillaga við 19. gr. um að þar bætist við nýr málsliður, með leyfi forseta:

„Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra.“

Hæstv. forseti. Þetta eru vissulega fögur og háleit markmið og í flestum tilvikum og oftar en ekki er það þannig að þetta er samvinna heimilis og skólans og nemandans. En ég velti því fyrir mér að ef svo er ekki hvernig ætlar löggjafinn að framfylgja þessu ákvæði 19. gr.

Virðulegi forseti. Mig langar aftur að fara í 29. gr. þar sem enn er skerpt á aðkomu kennara. Við þá grein er svohljóðandi breytingartillaga, með leyfi forseta:

„Við 29. gr.

a. Í stað 1. málsl. 1. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í hverjum grunnskóla skal gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara.“

Þar sem sú sem hér stendur hefur bæði sinnt starfi kennara og skólastjóra og þekkir þau störf mætavel finnst manni stundum að þetta séu svo sjálfsagðir hlutir sem ætti ekkert að þurfa að orða, en það virðist oftar en ekki að það komi upp einhver tortryggni gagnvart stjórnendum um að þeir muni með einum eða öðrum hætti nýta sér það að vera stjórnendur og hafi ekki samráð við sitt samstarfsfólk. Ég held að það, og slík hugsun í stjórnunarstarfi, hvort heldur stjórnandinn er fyrirferðarmikill eður ei, náist aldrei árangur í skólastarfi ef ekki er samvinna á milli skólastjórans og kennaranna og svo aftur við skólasamfélagið í heild sinni. Það er ljóst að þetta er til þess að skerpa á að kennarar og skólastjórar eru í sama liði innan grunnskólans, að þetta eru ekki andstæðir hópar.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki áhyggjur af 36. gr., 37. gr. og 38. gr. með innra mat, ytra mat og ytra mat menntamálaráðuneytisins. Varðandi innra mat og ytra mat sveitarfélaganna þá treysti ég skólafólkinu og fagfólkinu og öðru starfsfólki skólans vel til þess að sinna, og það er verið að sinna, innra mati nú þegar og er það gert af mikilli prýði. Varðandi ytra mat sveitarfélaganna þá er til hagsbóta fyrir sveitarfélögin að halda utan um sitt skólastarf, og það faglega, sem þar fer fram og gera það með það að leiðarljósi að matið, hvort heldur er innra matið eða ytra matið, leiði til úrbóta í skólastarfi vegna þess að það er það sem meginmáli skiptir. Það er ekkert gagn að mati ef það leiðir ekki til úrbóta því að ekkert er svo gott að ekki megi bæta. Ég tek undir með hv. 2. þm. Norðvest., Guðbjarti Hannessyni, að þetta megi ekki verða vélrænar skýrslur og ytra eftirlit á einu og öllu eins og tíðkast í hinu ágæta landi Bretlandi þar sem við þekkjum til með hvernig hið konunglega eftirlit virkar í því ágæta landi.

Virðulegi forseti. Það að færa samræmdu prófin framar á skólaárinu og gera þau að svokölluðum könnunarprófum er skynsamlegt, ekki það að mér þótti sem kennara og skólastjóra alltaf dálítið skemmtilegt í samræmdu prófunum. Það var ákveðinn keppnisblær yfir mannskapnum og nemendum þótti þetta oftar en ekki ekkert leiðinlegt. Þeir voru kannski pínulítið stressaðir. En gallinn við samræmdu prófin var sá að nemendur gátu ekki nýtt sér þau sjálfum sér til leiðbeiningar. Það er kosturinn við könnunarprófin að bæði nemendur sem og skólinn og kennararnir geta þá nýtt könnunarprófin til þess að styrkja veikari þætti nemandans og styrkja þá sem góðir eru. Það er kosturinn við að færa þetta fram með þeim hætti sem hér er verið að leggja til.

Þá er það sérfræðiþjónustan og stoðþjónustan. Eins og ég fór inn á í tengslum við, að mig minnir, 17. gr., nemendur með sérþarfir, þá er þar verið að stíga afar stórt skref til þess að koma til móts við þá meginhugmynd þessa grunnskólafrumvarps að grunnskólinn er skóli án aðgreiningar og ég fagna því. Hins vegar kann stundum að fara svo að það sem gert er og þarf að gera kann að kalla á breytingar á húsnæði sveitarfélaganna vegna þess að margir okkar ágætu grunnskóla eru í gömlu húsnæði þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir mikið fötluðum nemendum, hvorki líkamlega né andlega fötluðum, þannig að það þarf kannski að lagfæra húsnæðið þar að lútandi. Vísa ég þá í samkomulag milli menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að vinna að því sameiginlega hver kostnaðaraukningin verði og hvernig eigi að mæta henni.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig að gera að umtalsefni 46. gr. sem er undanþága til heimakennslu. Vera kann að í mjög svo afmörkuðum tilvikum sé nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði í grunnskólalögum. En ég tel að því þurfi að beita af ýtrustu varkárni. Þá er ég fyrst og síðast að hugsa um nemendur sem njóta heimakennslu og fara á mis við félagslega samveru nemenda á svipuðum aldri. Það er jafnmikils virði í samkeppnisþjóðfélagi nútímans að vera fær í mannlegum samskiptum og félagslegum samskiptum eins og að kunna vel það sem stendur á bókinni. Í því tilviki held ég að það þurfi að fara afar varlega í þessari undanþágu þó að ég geri mér grein fyrir því að í okkar víðfeðma og strjálbýla landi geti það stundum verið nauðsynlegt, hæstv. forseti. En það má aldrei verða íþyngjandi fyrir þau börn sem þannig búa eða þyrftu að sæta, vildi ég segja, slíkri heimakennslu til langframa.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta frumvarp sem og önnur þau frumvörp sem við fjöllum um í dag í heilum ramma frá leikskólastigi að inngöngu í háskóla séu metnaðarfull og góð frumvörp og að þar sé samfella sem skiptir máli. Höfuðatriðið í öllum þessum frumvörpum er barnið í leikskólanum, nemandinn í grunnskólanum og nemandinn í framhaldsskólanum, sá er (Gripið fram í.) aðilinn sem áherslan beinist að og það er vel.