135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[21:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Maður er hálfragur við að fara hér í ræðustólinn á eftir þrautþjálfuðum kennurum og skólastjórum sem hér hafa talað á undan mér eins og síðasti hv. ræðumaður, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, og fyrr í umræðunni Guðbjartur Hannesson, gamalreyndur skólastjóri af Skaganum. En það dýpkar umræðuna og er ánægjulegt fyrir okkur hin sem höfum ekki alveg sömu reynslu af vettvangi í þeim skilningi að hafa stjórnað skólum eða kennt um langan aldur að hafa slíka liðsmenn með okkur í umræðunni. Ég verð bara að segja eins og maðurinn: Auminginn ég, ég mái ekki af miklu í þessum efnum. Það á að vísu að heita svo að ég hafi próf í uppeldis- og kennslufræðum en ég tel þó að maður sé miklu betur menntaður í gegnum það að vera foreldri, gæfusamur að vera foreldri fjögurra barna, þar af tveggja enn á grunnskólaaldri, og hafa fylgst með þeim upp í gegnum skólann.

Ég ætla að endurtaka nokkurn veginn sömu lofræðuna um grunnskólann og ég hafði hér um leikskólann fyrr í dag. Ég held að almennt talað séum við Íslendingar gæfusöm að eiga vel uppbyggt og þróað skólakerfi og að það sé að uppistöðu til rekið á félagslegum opinberum forsendum og í raun og veru alveg, því að það er ríkið sem fjármagnar þessa starfsemi. Við erum laus við einkaskólafargan þar sem menn, betur borgandi hópar samfélagsins, reyna í krafti peninga að kaupa sér einhver aukin gæði umfram aðra þegna. Það er góð undirstaða að lýðræðislegu jafnaðarsamfélagi sem er samheldið og laust við óáran stéttskiptingar og misskiptingar a.m.k. í slíkum tilvikum. Þess vegna verður aldrei of oft brýnt mikilvægi þess að leggja áherslu á jafnrétti til náms og jafna aðstöðu, jafna möguleika allra til að þroska hæfileika sína.

Ef það er eitthvað sem ég sakna í þessu máli og reyndar fleirum væri það kannski mannréttindanálgunin í þessu samhengi. Mér finnst að taka eigi það alveg skýlaust fram í lögum af þessu tagi að það séu helg mannréttindi að fá að njóta fræðslu og eiga þess kost að þroska hæfileika sína í takt við burði samfélagsins og efni til að veita slíkt. Mannréttindi eiga að vera öllum ásköpuð þannig að hver og einn geti notið lífsins gæða á grundvelli þess og í krafti þess og með því að þroska hæfileika sína og verða eins víðsýn og upplýst persóna og mögulegt er.

Frumvarp þetta er að uppistöðu til vandað enda mikil vinna sem þar liggur að baki og auðvitað ekki nein von á öðru því að við búum að góðri löggjöf í þessum efnum. Það er vissulega þarft af og til að fara yfir hana og taka inn í hana ákvæði eins og hluti sem eru að þróast, og ný viðhorf og nýir tímar kalla auðvitað oft á einhverjar breytingar þó að í grunninn sé löggjöfin góð.

Ég ætla að byrja á að ræða lítillega markmiðsgrein laganna, 2. gr., sem hér hefur komið til umræðu, sérstaklega vegna eins þáttar þar, spurningarinnar um trúarbragðafræðslu eða kristinfræðslu eða hvað nú menn hafa kallað það. Þar vil ég í fyrsta lagi taka undir og fagna breytingartillögu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem leggur til að inn í þessa undirstöðuupptalningu sem þarna er varðandi það hvað skuli móta starfshætti grunnskóla komi orðið „mannréttindi“. Það finnst mér mjög gilt. Þarna er það að vísu í öðru samhengi en ég gæti séð fyrir mér að það væri þegar við lesum út úr því rétt nemendanna og rétt hvers og eins til fræðslu og þroska, en það er að sjálfsögðu rétt og skylt að taka þetta mikilvæga undirstöðuhugtak í réttinum inn samhliða og við hliðina á hugtökum eins og lýðræði, umhyggja, sáttfýsi og virðing fyrir manngildi. Þess vegna tel ég að það sé alveg einboðið og ég trúi ekki öðru en að menn fallist á að samþykkja 1. tölulið breytingartillögu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og bæta við orðunum „og mannréttindi“. Það væri alla vega kauðskt að sjá Alþingi fella það, að það mætti ekki og ætti ekki að standa í markmiðsgrein grunnskólalaga.

Ég verð hins vegar að segja að breytingartillaga meiri hluta menntamálanefndar um að bæta þarna inn orðunum „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“ veldur manni nokkurri umhugsun. Frumvarpið er þannig lagt fram að um þetta er einfaldlega ekkert sagt í þessari grein eins og það kemur og það angrar mig ekki neitt og það teldi ég kannski skynsamlegasta frágang málsins. Með því er auðvitað engu verið að breyta í sjálfu sér því að þar er talið upp aðeins brot af því sem lögð er áhersla á í skólastarfi og kemur eðli málsins samkvæmt inn í námskrá o.s.frv.

Ég segi þetta vegna þess að það er vandasamt að finna orðalag sem er við hæfi þarna ef menn fara út í það á annað borð. (Gripið fram í.) Jú, það er vandasamt. Þó að kristin arfleifð íslenskrar menningar sé önnur nálgun og heppilegri en að tala t.d. bara um kristna trú er það ekki án vandkvæða að mínu mati að fara þessa leið. Það er nú svo að í landinu ríkir trúfrelsi, það er varið í stjórnarskrá og við ætlumst ekki til þess að í skólum sé stunduð trúarinnræting, er það ekki alveg á hreinu? Þá er spurningin eftir um fræðsluna, að hvaða leyti hún fer inn á þetta svið og að hvaða leyti hún á að móta starfshætti grunnskólanna og það er vandasamt að búa um þetta. Nú er það svo að sjálfsögðu að kristin trú skipar stóran sess í menningararfleifð okkar, það er engin deila um það. Trúarbrögð gera það líka í víðasta skilningi þess orðs í samtímanum því að hér eru komnir fjölmennir hópar Íslendinga með aðra trú en kristni og hún er auðvitað stór hluti af menningu þeirra og menningarheimi og við viljum rækta og sýna virðingu menningararfleifð þeirra sem til okkar hafa flust, ekki satt, eins og við ætlumst til þess að þeir lagi sig að okkar siðum og menningu.

Síðan skulum við ekki gleyma einum hópi enn sem á sinn fulla rétt eins og allir aðrir og það eru trúlausir. Að sjálfsögðu er rétturinn til trúleysis, (Gripið fram í.) hv. þingmaður, og nú bið ég hv. þingmann að stilla gleði sinni í hóf vegna þess að við erum að tala hér um mikið alvörumál sem ekki ber að hafa í flimtingum. (Gripið fram í.) Réttur manna til trúleysis, til þess að hafa þá afstöðu í lífinu að þeir aðhyllist ekki neina trú í hefðbundnum skilningi þess orðs (Gripið fram í.) heldur byggi lífsskoðun sína og lífsgildi sín á annarri nálgun, t.d. þeirri að aðhyllast húmanísk, siðræn lífsviðhorf (Gripið fram í.) og vera jafnvel félagar, aðilar að lífsskoðunarsamtökum. Við þurfum ekki að fara lengra í burtu en til hins ákaflega trúaða lands sem að mörgu leyti er, Noregs, til að finna nákvæmlega það, viðurkennd lífsskoðunarfélög við hliðina á trúfélögum sem njóta nánast allra sömu réttinda af því að það er bara virt og viðurkennt að í landi sem byggir á fullkomnu trúfrelsi, skoðanafrelsi, þá geta einstaklingar og hópar ef svo ber undir að sjálfsögðu alveg eins verið þeirrar lífsskoðunar að trúa ekki. (Gripið fram í.)

Svo er stór hópur sem ég held að eigi líka að muna eftir og það erum við efahyggjumennirnir sem þurfum líka náttúrlega að eiga okkur stað, án þess að ég sé að gera neina kröfu til þess að við séum sérstaklega teknir upp eða nefndir, einfaldlega vegna þess að þess þarf ekki. (Gripið fram í.) Það er nefnilega umburðarlyndið sem er fólgið í efahyggjunni að við getum velt öllu fyrir okkur, við hvorki játum né neitum í sjálfu sér. (Gripið fram í.) Að þessu leyti geta menn þess vegna sagt það, en ætli það sé nú ekki þannig að trúarbrögðin hafi á köflum reynst manninum — svo ákaflega inngróið sem það er í hann að vilja trúa einhverju, það horfist maður í augu við því að trúarbrögðin eru ævagömul og kannski nokkurn veginn samofin því sem sumir kalla siðmenningu en ég mundi frekar sem darvínisti kalla þróun mannsins. Það er bæði löngun hans til þess að vænta hins góða og þetta er aðferð hans til að glíma við að það er svo margt sem við skiljum ekki sem leiðist inn í þá list að trúa.

Ég mundi hallast að því, ef menn vilja höfða til trúarlegrar arfleifðar íslenskrar menningar á annað borð, að menn geri það þannig samkvæmt orðanna hljóðan og í staðinn fyrir „kristna arfleifð íslenskrar menningar“ komi „trúarlega arfleifð íslenskrar menningar“. Það er miklu betra hugtak í þessu sambandi. Að sjálfsögðu er þá kristnin, bæði lúterskan og áður kaþólskan, sem stór hluti af íslenskri menningu þar mjög miðlæg en þá er líka þess vegna ásatrúin, hin forna trú landsmanna með á sínum stað sem hluti af menningararfleifð þjóðarinnar og söfnuður, viðurkennt trúfélag, í dag. Það sem þó skiptir meira máli, það opnar vídd til nýju trúsamfélaganna sem við verðum að hafa hér líka í huga, þau hundruð og þær þúsundir manna sem hafa önnur trúarbrögð en þau sem áður voru algeng hér í landinu.

Ég hefði því kosið að annaðhvort væri frumvarpið óbreytt eða að þessu yrði breytt á þennan veg. Þetta er nú svona eins og reifun á hugsanlegri eða munnlegri breytingartillögu sem ég mun væntanlega ekki leggja fram við þessa umræðu. Ég treysti því að málið fari til skoðunar í nefnd á milli 2. og 3. umr. og þar á meðal þetta atriði, og ég leyfi mér að stinga upp á því við hv. menntamálanefnd að hún velti þessari lausn fyrir sér.

Ég vil síðan víkja að nokkrum öðrum þáttum málsins og fara hratt yfir sögu enda tíminn naumur eins og kunnugt er, það er naumt skammtað, það er naumt gefið á garðann í þessum sauðburði okkar við að ræða þingmál á vordögum, þökk sé eða sökum hinna nýju þingskapa. Ég vil fyrst kannski nefna IV. kaflann um rétt nemenda og ábyrgð nemenda. Það er að mörgu leyti mjög vel fram sett að mínu mati það sem þarf að vera og haldast í hendur, að sjálfsögðu eru annars vegar réttindi og hins vegar skyldur og ábyrgð. Við höfum í okkar menntastefnu, Vinstri græn, gjarnan nefnt hugtakið réttindaskrá og í raun og veru gæti einhvers konar réttindaskrá nemenda komið í stað samræmdrar námskrár að hluta til en þá þarf líka að hafa í huga skyldurnar og ábyrgðina og einnig þarf þar að hafa í huga samskipti ekki síst nemenda og kennara og annarra starfsmanna skólanna.

Greinin um nemendur með sérþarfir er að sjálfsögðu ákaflega mikilvæg og fara þarf mjög vel yfir það að um það sé búið með fullnægjandi hætti. Ég lít ekki svo til að þar sé nein stefnubreyting á ferð frá þeirri samþættingarstefnu sem í gildi hefur verið og er, að öllum sem þess eiga mögulega kost og það vilja séu sköpuð skilyrði innan hins almenna grunnskóla og sérskólaúrræði séu ekki nema þegar þeirra gerist brýn þörf.

Í 22. gr. er talað um skólaakstur og tekið er fram að hann skuli vera nemendum að kostnaðarlausu, að sjálfsögðu. Það er auðvitað gott en hvers vegna í ósköpunum er það þá ekki gert víðar þar sem það ætti heima? Hvað með skólamáltíðirnar í 23. gr.? Af hverju er ekki tekið af skarið með það að það skuli vera svo sjálfsagður hluti af umbúnaðinum í skólastarfinu að nemendur fái holla næringu að það sé tekið af skarið um það eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir leggur reyndar til með breytingartillögu.

Þá kem ég að 25. gr. og breytingartillögu hv. þingmanna Höskuldar Þórhallssonar og Jóns Magnússonar við hana. Hana get ég ekki stutt. Ég tel að það væri óskynsamlegt að fara að nefna þar inn kristinfræði eina saman og það væri talsvert á skjön við breytingarnar sem í raun er verið að gera í greininni, að gera upptalninguna sem vera skuli í aðalnámskrá almennari. Ég er reyndar svolítið súr yfir því að í þeirri einföldun dettur t.d. út sem sérgreint hugtak umhverfismál eða umhverfismennt, ég sakna þess þó að það sé vissulega tekið fram í skýringum við 25. gr. að það sé innifalið í náttúrugreinum rétt eins og það er tekið fram í skýringunum að trúarbragðafræðsla sé innifalin í samfélagsgreinum. En eins mikilvæg og umhverfismálin eru á okkar dögum held ég að auka ætti vægi þeirra í upptalningu á verkefnum skólanna og jafnvel auka vægi þeirra beinlínis í einingum í aðalnámskrá o.s.frv. Ég sakna þess svona frekar og spyr hvort hv. menntamálanefnd geti ekki velt því fyrir sér að umhverfismennt fái að vera þarna áfram sem sérgreint hugtak miklu frekar en að kristinfræði ein og sér verði tekin út úr því sem áður var talið upp sem kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræðsla. Það væri algjörlega farið í öfuga átt ef breytingartillaga þeirra hv. þingmanna væri samþykkt í ljósi þess sem áður var í lögum og í ljósi hugsunarinnar sem nú er á bak við framsetninguna í 25. gr.

Ég minni á aftur og nefni það sem ég talaði hér um, um siðfræði- og lífsskoðunarfélög eða lífsskoðunarhópa, þá sem grundvalla sína siðrænu lífssýn á öðru en trú, að þeirra hlutur sé hafður í huga, það er vaxandi hópur í samfélaginu, það dylst engum. Nefna má til sögunnar hinn mikla fjölda og vaxandi fjölda borgaralegra ferminga í þeim efnum sem að sjálfsögðu er ekki alltaf af þeim sökum að menn séu endilega trúlausir eða utan trúfélaga en það er þó enginn vafi á því að það eru ákveðin tengsl þar á milli að sífellt fleiri unglingar, þroskaðir unglingar, velja þá leið að láta ferma sig borgaralegri fermingu. Það segir vissa sögu.

Síðan að 43. gr. — og mikið óskaplega æðir nú tíminn áfram, virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Já, það eru nú meiri ósköpin. Í frumvarpi af þessu tagi, hvað ætli skjalið sé, 100 bls. eða meira og tugir greina, margir kaflar, þá þarf nú að halda sig býsna vel við efnið ef maður ætlar að komast yfir það á litlum 20 mínútum. Ég vil nefna 43. gr. og taka þar alveg sérstaklega undir breytingartillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur, auðvitað alla tillöguna en nefna sérstaklega bæði a-liðinn, þ.e. að þegar skólar eru reknir á öðru formi en því að vera bara hefðbundnir skólar sveitarfélaga, grunnskólar, sem sagt í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi — sem mér er ekki alveg ljóst hvert á þá að vera — að þá sé alveg tekið af skarið með það að það er ekki gert í hagnaðarskyni. Ef um hlutafélagaform er að ræða — það gildir að sjálfsögðu ekki ef um sjálfseignarstofnun er að ræða því að þá eru það vörslumenn hennar sem sjá til þess að afrakstrinum sé útdeilt eða endurráðstafað eða hann nýttur í þágu starfseminnar — en þegar um hlutafélagaform er að ræða sé alveg ljóst að það verði að vera rekið sem félag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni. (Gripið fram í.) Það getur ekki verið óheimilt að taka það fram, nú þá velja menn ekki hlutafélagaformið. (Gripið fram í.) Ég er ekki að tala um að það sé haft með tapi.

Ég er t.d. að tala um það að í samþykktum félagsins liggi fyrir að eigendur afsali sér arðinum og hann gangi inn í starfsemina aftur, það er að sjálfsögðu hægt að ganga frá því þannig. Menn yrðu auðvitað einfaldlega að uppfylla ákvæði laganna, (Gripið fram í.) akkúrat, það eru til fordæmi um það. Menn yrðu þá að lúta þessum ákvæðum laganna með því að setja í samþykktir sínar eða með öðrum hætti ganga frá því að arðurinn færi ekki út úr rekstrinum. Það held ég að væri alveg lágmark.

Ekki síður er þó mikilvægur d-liður breytingartillagna á þskj. 1070 frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem er um að grunnskólar sem eru starfræktir á öðru formi en því að vera hefðbundnir skólar sveitarfélaga — að það sé tryggilega frá því gengið að réttarstaða nemendanna sé tryggð og skólarnir falli undir þau mikilvægu ákvæði þessara laga sem þarf að vera og stjórnsýslurétt og annað í þeim dúr til þess að enginn vafi leiki á um að réttur eins eða annars í þeim tilvikum sé á nokkurn hátt fyrir borð borinn. Það snýr að ákvörðunartöku, kæruleiðum o.s.frv.

Að lokum ætlaði ég að nefna, þó að tíminn sé nánast búinn, stöðu sveitarfélaganna almennt og alveg sérstaklega minni sveitarfélaganna og þeirra sem reka fámenna skóla. Að mínu mati hefði mátt fara aðeins betur yfir það hvort sérstaða þeirra hefði e.t.v. þurft að vera með einhverjum hætti sérstaklega skilgreind í þessum lögum. Við vitum að það er himinn og haf á milli þess að reka fámennan skóla í strjálbýli annars vegar og stóran grunnskóla í hverfi í höfuðborginni eða stórum kaupstöðum hins vegar. Við þetta er auðvitað glímt með ýmsum hætti í gegnum (Forseti hringir.) jöfnunarverkið og allt það, frú forseti, en að ósekju hefði kannski mátt líta eitthvað á þetta líka í lögunum.