135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[22:21]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram mikil og góð umræða um grunnskólann og skólana í dag, lýðræðisleg og fróðleg umræða — og sýnir náttúrlega að hin nýju þingsköp eru lifandi og gefa mörgum tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri, og því ber að fagna.

Ég vil í upphafi ræðu minnar um frumvarpið, sem nú er komið með breytingartillögum frá hv. menntamálanefnd, ræða stöðu grunnskólans í samfélaginu og mikilvægi hans og fara inn á einstök atriði sem margir hv. þingmenn hafa komið að og skiptar skoðanir eru um.

Saga Framsóknarflokksins er afar rík í kringum menntamál þessarar þjóðar. (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn, Jónas frá Hriflu, kennararnir allir sem í rauninni stofnuðu Framsóknarflokkinn með bændum — því er kannski aldrei haldið nóg til haga að Framsóknarflokkurinn var stofnaður í kringum alþýðumenntunina og Jónas frá Hriflu var hinn mikli leiðtogi byltingarinnar á Íslandi á síðustu öld sem hafði gríðarleg áhrif og hefur enn. Þegar við horfum — stofnaði … (Gripið fram í.) já, já, Jónas kom víða við.

Einnig er vert að rifja það upp að þegar við horfum lengra aftur höfðu stjórnarskráin 1874, fræðslulögin og barnaskólarnir mikil áhrif og síðan félagshyggja Íslendinga sem hófst í upphafi 20. aldarinnar. Saga félagshyggjunnar hófst með því að þrjár miklar hreyfingar voru stofnaðar í landinu, ungmennafélagshreyfingin, sem hafði gríðarleg áhrif á menntun Íslendinga og hugsun, verkalýðshreyfingin og samvinnuhreyfingin. Allar þessar stóru hreyfingar alþýðunnar höfðu mikil áhrif á menningu þjóðarinnar, breyttu viðhorfi, börðust fyrir heilbrigðu lífi, og bindindi höfðu þær allar að leiðarljósi. Ég er sannfærður um að þessar miklu hreyfingar höfðu gríðarleg áhrif fyrir alþýðu manna gegn stöðnuðu embættismannavaldi í upphafi síðustu aldar. Við lifum í rauninni á grunni baráttu þessara hreyfinga í því, á margan hátt, réttláta samfélagi sem við höfum búið í. Kannski má segja að síðustu árin hafi gróðahyggjan farið offari, sem passar ekki alveg inn í samfélag okkar, hefur gengið of langt að mínu mati út fyrir þetta samfélag. Vonandi koma þeir aðilar til baka, athafnamenn og dugnaðarfólk, og átta sig á því að þeir eru blóð af okkar blóði og brot af landsins sál og eiga að lifa við okkar lífskjör og þá hugsun sem var mótuð í upphafi þeirra miklu hreyfinga sem ég hef hér minnst á.

Framsóknarflokkurinn hefur víða komið að menntamálum, bæði farið með menntamálin — ég gat þess hér í dag að sjálfur hefði ég verið menntamálaráðherra landbúnaðarins í átta ár og það var gríðarlega skemmtilegt starf. Hvað grunnskólann varðar er stefna Framsóknarflokksins mjög skýr. Við ályktuðum á síðasta flokksþingi okkar um grunnskólann, ef ég hleyp hér yfir það, með leyfi forseta:

„Á grunnskólaárum á sér stað mótun sem einstaklingurinn býr að alla ævi. Helsta markmið grunnskólans á að vera að þroska einstaklinga þannig að þeir öðlist góða sjálfsvitund og sterka samfélagsvitund. Auka þarf sveigjanleika grunnskólastigsins með einstaklingsmiðað nám að leiðarljósi þar sem hæfileikar hvers og eins fái notið sín. Kennslan skal mæta þörfum bæði innfæddra og aðfluttra Íslendinga.“

Leiðirnar eru þessar, með leyfi forseta:

„Efla skal vitund nemenda um daglegt líf í landinu með góðu samstarfi við fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga.

Nauðsynlegt er að auka markvisst samfélagsvitund ungmenna og efla þekkingu þeirra á réttindum sínum og skyldum.

Leitað verði fjölbreyttari leiða til námsmats en núverandi samræmdra prófa.

Nemendur eiga að fá fleiri tækifæri til að sækja tíma í þeim námsgreinum sem henta þeim og hæfileikum þeirra best.

Auka fjármagn til skóla svo þeir geti starfað án aðgreiningar.

Efla íslenskukennslu markvisst þar sem tekið er tillit til aðstæðna einstaklinga.

Efla samstarf milli grunnskóla, íþróttafélaga, tónlistarskóla og annarra aðila sem bjóða upp á tómstundastarf í nærumhverfi grunnskólanna.

Samstarf grunnskóla við leik- og framhaldsskóla verði aukið.

Viðurkenna mismunandi útskriftarleiðir úr grunnskóla.“

Að lokum segir í þessari ályktun Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Ljúka þarf vinnu við háhraðanettengingar til að allir grunn- og framhaldsskólanemar eigi kost á því að nýta sér nútímaupplýsingatækni við nám. Ríki og sveitarfélög hefji viðræður um aukið fjármagn vegna einstaklingsmiðaðs náms og skóla án aðgreiningar. Endurskoðun hefjist á markmiðum, tilgangi og framkvæmd samræmdra prófa.“

Þetta vil ég flytja yfir þingheimi til þess að minna á að Framsóknarflokkurinn, eins og reyndar allir stjórnmálaflokkar landsins, hefur sterk viðhorf til skólanna og sterk markmið um að mennta þessa þjóð. Við lítum svo á, framsóknarmenn, að skólarnir séu grunnurinn að því samfélagi sem framtíðin byggist á. Við þurfum því að eiga mjög öfluga kennara og mjög öfluga skóla. Ég er sannfærður um að yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaganna var mikilvæg ákvörðun, að nærvaldið, hitt stóra stigið í landinu, fari með þann málaflokk. En því má aldrei gleyma að á hverjum tíma verða ríkisvaldið og sveitarfélögin að semja um þessi mál. Ríkisvaldið getur aldrei fríað sig frá því að taka mikinn þátt í skólastarfi í landinu og leggja þar fram leiðir til að skólarnir búi bæði við jafnræði og gnægð fjár til þess að fylgja starfinu eftir. Við búum að vísu við mismunun að einu leyti, það er stærð sveitarfélaganna. Þau eru misöflug til þess að takast á við þetta stóra verkefni og því er samningaleið sveitarfélaganna og ríkisvaldsins ávallt mikilvæg á hverjum tíma til þess að mæta nýjum verkefnum og koma til móts við sveitarfélögin þannig að þau geti öll, stór og smá, fylgst að í þessu mikla starfi.

Menn hafa farið yfir ýmislegt sem skiptar skoðanir eru um og hafa verið í vetur í kringum þetta stóra mál. Margir hafa komið inn á að deilt var um kristilegt siðgæði og hefur það verið mjög rætt hér í dag. Ég verð að segja fyrir mig að eins og lögin standa í dag eru þau afar sterk hvað þetta varðar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið.“

Þetta er afskaplega vel orðað eins og það stendur í lögunum. Vissulega kom það mér á óvart að Evrópusambandið væri á móti hinu kristilega siðgæði og teldi að það stangaðist á við grundvallarreglur. Siðgæði er í mínum huga eitt fallegasta orð íslenskrar tungu og í því er falinn mikill boðskapur og mikil stefna. Ég trúði því að þetta atriði yrði inni en ég verð þó að viðurkenna að náðst hefur sátt sem ég mun styðja þó að orðið „siðgæði“ sé þar úti.

Í breytingartillögunni segir, með leyfi forseta:

„… að starfshættir grunnskólans skuli mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“

Þetta er auðvitað prýðileg lesning og góður hugur sem þessu fylgir. Ég hefði sannarlega kosið að þetta hefði fengið að standa eins og þetta var. En ég mun hins vegar styðja tillögu hv. þingmanna Höskuldar Þórhallssonar og Jóns Magnússonar um að kristinfræði verði í aðalnámskrá. Það er mikilvægt, sem hér hefur komið fram hjá trúuðum og heiðnum mönnum í dag, að allir virði það sem gerðist á Þingvöllum árið 1000 og sem hefur fylgt þessari þjóð svo ríkt og skilað menningu okkar miklu og þjóðfélagi, sem sker sig kannski á margan hátt úr samfélagi þjóðanna hvað varðar virðingu fyrir einstaklingnum og þá siðfræði sem hér hefur þróast. Menn mega aldrei gleyma því að þessi aldna kynslóð sem hefur byggt upp þetta land var rík af tilfinningu fyrir uppeldi barna, fyrir sögunni. Hún tileinkaði sér mikinn bóklestur og var í rauninni fjölmenntuð.

Ég sagði það frammi áðan að ég saknaði þess, af því að maður hefur fylgst með grunnskólanum, bæði í gegnum sín börn og barnabörn, að í gamla daga hafi mikið verið lagt upp úr því að læra ljóð utan að. Í leikskólanum læra börn að syngja, læra ljóð og kunna texta, en ég held að það hafi gefið okkur mikið, sem eldri erum, að við vorum látin læra heilu ljóðabálkana utan að. Ég held að það hafi skilað okkur miklu. Ég sakna þess úr skólastarfi að þessu skuli ekki vera viðhaldið og að það skuli ekki vera skylda að læra ljóð. Ég held í fyrsta lagi að hver og einn hafi gott af því að kunna ljóð utan að og kunna að nota þau í lífi sínu. Ég er líka sannfærður um að það að þurfa að læra eitthvað utan að skilar manni miklu og maður getur nýtt það á svo mörgum sviðum síðar meir í lífinu.

Ég er sammála því sem hér kemur fram að það er mjög mikilvægt í breyttu skólaumhverfi að huga mjög vel að því að hver nemandi fái að njóta hæfileika sinna. Við þurfum að leggja sérstaka rækt, sem skólarnir gera, við að kenna börnunum, fara með þau út í náttúruna, fræða þau um atvinnulíf landsmanna og sögu. Tímarnir eru breyttir, því miður að sumu leyti. Hér áður fyrr var skólatíminn styttri. Vel kann að vera að skólatíminn á Íslandi með hinu stutta sumri séu fulllangur, bæði fyrir kennara og nemendur. Það getur skapað skólaleiða sem er mjög varasamur. Það er mjög mikilvægt að vera úti í náttúrunni og njóta sumarsins, eins og hæstv. iðnaðarráðherra, sem hér gekk fram hjá, þekkir manna best. Ég hygg að þetta sé komið til að vera, skólinn hefur lengst. Hitt er horfið sem var að börnin fóru til vinnumennsku eða veru í sveit þar sem margir þroskuðust og eiga um það dýrmætar minningar. Það er næstum því liðin tíð. Ég er sannfærður um að það var stór liður í að ala þessa þjóð upp að gefa mönnum það mikla tækifæri að kynnast þar með landinu sínu, sögunni, taka þátt í starfi landbúnaðarins.

Svo fóru menn fljótlega til sjós, sumir upp úr fermingu, eins og hæstv. iðnaðarráðherra og fleiri, og ekki skaðaðist hann af því. En Evrópusambandið hefur sagt okkur að við megum helst ekki láta nokkurn mann vinna fyrr en hann er kominn undir tvítugt, tóm vitleysa í mínum huga og heyri ég að hæstv. iðnaðarráðherra tekur undir þá skoðun. Þess vegna er það nú svo að við þurfum á mörgum sviðum að hugsa um frelsi okkar sjálfra og viðurkenna að þrátt fyrir að margt komi gott að utan, ég dreg ekkert úr því, þá hefur þetta mikla starf sem ég hef verið að fara hér yfir síðustu 130 árin skilað okkur gríðarlega miklu, menntaðri þjóð sem hefur náð mjög langt í að bæta lífskjör sín og er í fremstu röð í veröldinni hvað lífsgæði og lífskjör varðar. Við eigum að halda fast í það sem hefur reynst okkur vel á þeim langa vegi sem þjóðin hefur gengið.

Ég vil taka undir að það er mjög mikilvægt að við gerum miklar kröfur til kennaranna, sem eru lykilmenn samfélagsins, og að þeir hafi mikla möguleika til endurmenntunar eins og hér kemur fram. Það er grundvallaratriði því að tímarnir breytast hratt og það er kannski það fólk sem síst má við því að staðna í starfi og þarf sannarlega á því að halda að fara í endurmenntun. Við höfum séð það í gegnum tíðina hve miklu það hefur skilað.

Ég hef líka rakið það hér að snemma þarf að huga að vilja barnanna, hæfileikum þeirra, að rækta það sem best er í hverjum og einum og leyfa honum að njóta hæfileika sinna og velja sér síðan í framhaldsskóla það sem honum hentar. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að mjög mikilvægt er að hugsa um allar sérþarfir og stuðning við námsfólkið, við börnin okkar, ekkert er jafnmikilvægt í mínum huga.

Ég hlustaði eitt sinn á ræðu hjá ágætum manni sem hafði búið lengi í Bandaríkjunum, fyrir u.þ.b. 30 árum. Ég man að hann sagði að sér hefði brugðið við að koma heim því að í Bandaríkjunum hefði hann nánast orðið að koma á viku til tíu daga fresti í skólann til að hitta kennara barna sinna og fylgjast með og taka þátt í starfinu þar. Hér hefði þetta verið með öðrum hætti. Ég hygg að þessi hlið málsins hafi batnað á síðustu árum eftir flutning grunnskólans og að kennarar og skólastjórar leggi í dag mjög mikið upp úr samstarfi við foreldra. Það er gríðarlega mikilvægt því að heimilin þurfa á því að halda, heimilin eru breytt, þau eru ekki sá skóli sem var, þau eru meiri hvíldarstaður. Foreldrarnir vinna úti og hafa minni tíma og skólinn er því framhandleggur heimilisins. Kennaranum er falið mikið verk sem áður var oft og tíðum í höndum foreldra og heimilis. Því ber að viðurkenna að skólinn er hluti af heimilinu og rækta með nýjum hætti aukið samstarf á milli skólans og foreldranna.

Ég verð að segja fyrir mig í lok ræðu minnar að þetta eru stórir málaflokkar. Ekkert skiptir í mínum huga jafnmiklu máli fyrir framtíðina og það hvernig skólarnir eru byggðir upp sem stofnanir og hvaða markmið eru þar sett fram. Hér eru góð og göfug markmið sett fram þannig að ég er bjartsýnn á stöðu þjóðarinnar og trúi því að við getum haldið áfram á sömu braut og verið hefur. Það hefur verið svo á síðustu tíu árum (Forseti hringir.) að aldrei hafa fleiri Íslendingar sótt sér nýja alhliða menntun, aldrei fleira fólk (Forseti hringir.) setið á skólabekk en í dag. Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.