135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:13]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum hv. þingmanns. En í annarri umsögn sem mér barst vegna þessa máls segir, með leyfi forseta:

„Það er því vandséð hvers vegna ekki má nefna hvaðan þau eru ættuð.“ — Þ.e. gildin. — „Að mínu mati er grundvallarmunur á því að skólinn veiti nemendum kristilegt uppeldi, sem ber væntanlega að skilja sem kristilegt trúaruppeldi, og því að starfshættir skólans skuli mótast af kristilegu siðgæði. Líklega væri þó enn skýrara að vísa til gildagrunns þess sem menningararfurinn hefur miðlað sem „hins húmanísk-kristna menningararfs“.“

Þetta segir Sigurður Pálsson í umsögn sinni um málið. Sá ágæti maður er fyrrum framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags, sóknarprestur við Hallgrímskirkju í Reykjavík, stundakennari í trúaruppeldis- og kennslufræði við KHÍ og stundakennari í trúarlífssálarfræði og trúaruppeldis- og kennslufræði við guðfræðideild Háskóla Íslands 1998. Þetta er sá grunnur sem sú breytingartillaga sem hv. þingmaður vék (Forseti hringir.) að byggir á og það er okkar skoðun (Forseti hringir.) að hann gangi síst skemur en (Forseti hringir.) núgildandi lög.