135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:16]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ræðuna. Hann var hann sjálfur í þessari ræðu og ég efast ekkert um heilindi hans gagnvart þessu máli. Ég er í engum vafa um að allir prestar og kristnir menn munu sakna orðsins „siðgæði“ sem er vikið á brott þó að menn sætti sig við annað orðalag.

Kirkjunnar menn munu styðja breytingartillögur þær sem hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson og Jón Magnússon munu flytja við 25. gr., að kristin- og trúarbragðafræði verði hluti af aðalnámskrá skólanna. Ég spyr hv. þingmann hvort hann muni styðja þessa breytingu sem ég veit að hefur mikið að segja fyrir söguna og trúna.