135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér hefur staðið mikil og góð umræða í allan dag um skólamálin en nú hallar mjög kvöldi og ekki seinna vænna að fara að ljúka störfum ef ekki á að enda hér með fundarhaldið inn í nóttina og halda þar með næturfund sem samkvæmt áformum sem tengdust hinum nýju þingsköpum áttu að heyra sögunni til. Mætti vitna þar í hjartnæmar ræður forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, þegar hann tíundaði kosti þessara breytinga m.a. í því ljósi og samhengi.

Ég tel rétt að forseti veiti þingmönnum upplýsingar um áform sín og svari þeim óskum sem hér hafa komið fram um að þessum fundi fari nú senn að ljúka. Það er að vísu rétt að væntanlega er alllangt liðið á umræðu um grunnskólamálið, menn gætu þess vegna hugsað sér að sýna liðlegheit ef unnt væri að ljúka umræðu um það. En það ræðir væntanlega ekki um að fara að byrja á nýju máli. Sú tillaga sem hér var uppi í morgun er óefnisleg og gengur ekki að ákveða það að morgni dags að löng dagskrá skuli tæmd (Forseti hringir.) hvað sem tautar og raular. Eða hversu langt er forseti tilbúinn að ganga í því skyni? Halda fund fram að (Forseti hringir.) hádegi á morgun, eða hvað?