135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég var í þann mund að falla frá orðinu því að ég bíð eftir því að svör komi frá hæstv. forseta. Ég ímynda mér að hún sé að bíða eftir því að mælendaskráin klárist.

Ég viðurkenni að það fauk í mig þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson benti á að síðasta málið á dagskrá væri tæknifrjóvgunarmál heilbrigðisráðherra. Það eru tveir mánuðir síðan heilbrigðisráðherra sagði hér úr þessum ræðustóli að það mál væri á næsta leiti. Það hefur verið á hendi ríkisstjórnarinnar að koma með þetta mál hingað í þingsali með fullum stuðningi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og örugglega meira og minna allra þingmanna hér í salnum í allan heila vetur.

Að það skuli eiga að bjóða manni upp á það að settar séu á mann þumalskrúfur í menntamálunum með þessu frumvarpi hér, það er óforskammað. Fyrir nú utan það að hv. heilbrigðisnefnd hefði getað afgreitt þetta mál og hugmyndina sem í því er út með því máli sem hún (Forseti hringir.) afgreiddi fyrir þremur vikum um stofnfrumur.