135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:57]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Maður vill gjarnan fá viðbrögð frá forseta um hve lengi eigi að halda áfram. Ég tel að ekki sé hægt að halda áfram endalaust inn í nóttina. Ég tel að það sé ekki bjóðandi, hvorki þingmönnum né þeim sem hafa áhyggjur af þeim málum sem við ræðum hér. Er ég þá sérstaklega að hugsa um framhaldsskólafrumvarpið. Líklega væri hægt að klára grunnskólafrumvarpið núna. Ég veit ekki hve langan tíma það tekur, það tekur auðvitað einhvern tíma.

Framsóknarflokkurinn hefur beðið um tvöfaldan umræðutíma um framhaldsskólafrumvarpið. Við höfum tvö tækifæri til að gera það, nýtum hér annað þeirra. Málið er umdeilt. Félag framhaldsskólakennara segir í yfirlýsingu í dag að það leggi fast að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla og nota ætti tímann nú á næstu mánuðum til að sníða af frumvarpinu helstu gallana. Málið er mjög umdeilt og þarf að fá umræðu hér í þinginu. (Forseti hringir.) Sú umræða þarf að fara fram þegar almenningur er vakandi og þeir sem málið snertir. Ég vil því gjarnan fá að vita hvað virðulegur forseti ætlar að gera, hvort við eigum (Forseti hringir.) virkilega að ræða þetta í skjóli nætur. (Gripið fram í: Á ekki að svara?)