135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:03]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fer nú að iðrast að hafa gengið í það samkomulag sem gert var í haust. Það hefur kostað okkur mikið. Framsóknarflokkurinn og stjórnarandstaðan hafa ekki getað rætt í vetur út af breyttu þinghaldi mörg stór mál sem enn liggja órædd í þinginu. Við höfum trúað á þetta nýja samkomulag. Ef gamla þingskapaumræðan væri hefðu tveir, þrír vinstri grænir verið búnir að tala þennan tíma og kannski hefði það verið mátulegt á ríkisstjórnina og þjóðina að sitja undir því.

Þess vegna segi ég, hæstv. forseti, að ég geri kröfu til þess að samkomulag sem við gengum að um þingsköpin verði virt, það er mikið atriði. Hér er verið að tala um framhaldsskólamál sem er umdeilt, við höfum beðið um lengri umræðu og við framsóknarmenn ræðum það ekki í nótt, það er alveg klárt mál. Okkur er alvara í því að gera það í birtu dagsins. (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta að svara spurningum (Forseti hringir.) í svona umræðum. Hæstv. forseti er forseti allra þingmanna og ber að svara hvað fram undan er.