135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:10]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Fyrst vil ég gera athugasemdir við orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hér fyrr um fundarstjórn forseta þar sem hann vék að því að það hefði verið sérstaklega fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að 13. mál, þ.e. tæknifrjóvgun, væri sett á dagskrá. (Gripið fram í.) Það er vissulega gott, þeir ættu að fagna því sérstaklega, sagði hv. þingmaður. Það gerum við að sjálfsögðu.

Einnig kom fram að komnir eru einir tveir mánuðir síðan því var lýst yfir að málið kæmi á dagskrá. Samt þurfti að leita afbrigða og að sjálfsögðu voru þau veitt. Mér finnst því mjög lúalegt að hv. þingmanni að vera að tala um að þetta verði aðeins samþykkt gegn því að hin fengju sína umræðu. (SKK: Það sagði ég ekki heldur.)

Síðan vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann ætli sér að brjóta þingsköp og halda þessum fundi áfram. (Forseti hringir.) Það er dapurlegt ef það er 1. varaforseti Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem stóð með okkur fyrir nokkrum missirum. (Forseti hringir.) En nú er það forseti Samfylkingarinnar sem (Gripið fram í.) ætlar að brjóta þingsköp.