135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:16]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Enn vil ég lesa úr ræðu hæstv. forseta Sturlu Böðvarssonar þar sem hann segir 3. desember orðrétt, með leyfi forseta:

„Kröfur til alþingismanna verða sífellt fleiri, ekki bara við þá vinnu sem fram fer á vettvangi þingsins, heldur ekki síður í kjördæmum, í alls konar félagslífi öðru, alþjóðlegu samstarfi o.s.frv. Þessu er ekki hægt að sinna svo að vit sé í nema eitthvert skipulag sé á hlutunum og að við getum séð fram í tímann í verkum okkar svo að ekki sé minnst á þann rétt alþingismanna, alveg eins og annars fólks, að fá tækifæri til að njóta eðlilegs fjölskyldulífs og tómstunda.“

Hann segir jafnframt síðar í ræðu, með leyfi forseta:

„Sú ábyrgð er lögð á herðar forseta, að ná góðu samkomulagi, ná niðurstöðu um ræðutíma sem víkur frá meginreglum á grundvelli þeirrar heimildar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.“

Frumvarpið og þingskapalögin og það sem við ræddum í desember gerir alls ekki ráð fyrir þessum fundi. Ég lít svo á að hæstv. 1. varaforseti (Forseti hringir.) gangi gegn vilja forseta.