135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:17]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því í umræðu um grunnskólafrumvarpið í framhaldi af þeirri umræðu sem fram fór áðan að segja að hæstv. forseti hefur algjörlega brugðist þeim trúnaði sem hann á að sýna þingheimi í störfum sínum. Það er dapurlegt að hæstv. forseti Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarmaður, skuli bregðast trúnaði og trausti þingmanna með þeim hætti sem við erum vitni að. (ArnbS: Þetta eru nú óþarfa stóryrði.) Þetta eru engin stóryrði, ekki er staðið við þau orð sem sögð voru í upphafi þingfundar um að fundur gæti staðið lengur í dag. Það er kominn nýr dagur og að sjálfsögðu á að krefjast þess að fram fari ný atkvæðagreiðsla um hvernig menn ætla að haga þingstörfum í dag, 23. maí. Það þýðir ekkert að hlæja að því eða brosa, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. Þetta er hneyksli, ekkert annað en hneyksli, valdbeiting og yfirgangur sem ríkisstjórnarflokkarnir sýna og forsetar Alþingis úr stjórnarflokkunum láta meiri hlutann, þingflokksformennina, ráða því hvernig þeir starfa. Það er aumingjalegt, ekkert annað en aumingjalegt og dapurlegt.

Ljóst er að rætt hefur verið um að ljúka umræðu um grunnskólafrumvarpið en fresta síðan umræðu um önnur dagskrármál, m.a. og ekki síst með vísan til þess að þingflokkur Framsóknarflokksins hefur óskað eftir því að nýta rétt sinn til að fara fram á tvöfaldan ræðutíma í þeirri umræðu vegna mikilvægis máls. Það er auðvitað ekki boðlegt að ætla að láta þá umræðu fara fram í skjóli nætur rétt eins og stjórnarflokkarnir telji að málið þoli ekki dagsljósið og að bjóða upp á það gagnvart þeim fjölmörgu sem láta sig málið varða og hafa sent inn bréf og sjónarmið hvað þetta mikilvæga mál snertir. Ekki er mikill bragur að þessu og ekki mikill sómi fyrir þá sem þannig standa að, þeir ættu í raun og veru að skammast sín. (Gripið fram í: … grunnskólunum núna.)

Svo ég víki að frumvarpinu til grunnskólalaga (Gripið fram í: Nei, haltu hinu áfram.) — já, hægt er að taka frekari umræður um það á eftir sem ósagt er um málið. Ég tók eftir þeim orðum hæstv. iðnaðarráðherra og tek þau ekki til mín.

Það er fjölmargt í frumvarpi til grunnskólalaga sem er tilefni þess að gera að umræðuefni. Reyndar er rétt að árétta það strax í upphafi að um meginstefið í frumvarpinu hefur verið ágætissamstaða á milli þingflokka. Af lýsingum nefndarmanna í menntamálanefnd að dæma hefur sömuleiðis farið fram ágætisvinna á vettvangi nefndarinnar og nefndarmenn hafa tekið fram að þeir séu afar ánægðir með þau vinnubrögð sem þar hafa verið viðhöfð. Að sjálfsögðu er eðlilegt að því sé haldið til haga og menn eigi það sem þeir sannarlega eiga, og formaður menntamálanefndar í þessu tilfelli fyrir þau vinnubrögð sem hann hefur ástundað. Engu að síður eru í frumvarpinu allmörg atriði sem athugasemda er þörf við og menn mundu gjarnan vilja sjá öðruvísi, jafnvel þótt á nefndaráliti menntamálanefndar séu allir fulltrúar í menntamálanefnd, reyndar eru tveir hv. þingmenn, Höskuldur Þórhallsson og Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara. Það lýtur að sjálfsögðu m.a. að því að þau hafa flutt sérstakar breytingartillögur við frumvarpið. Ég ætla í þessari fyrstu ræðu minni um þetta mál að fjalla um nokkrar af þeim breytingartillögum sem eru lagðar fram af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, þingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og gera þær að umtalsefni.

Í 1. tölulið í breytingartillögum á þskj. 1070 er gerð tillaga um breytingu á 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um markmiðið með grunnskólastarfi. Þar er lagt til að í 2. málsl. 1. mgr. verði bætt orðunum „og mannréttindum“ þannig að hún hljóði svo:

Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi og mannréttindum.

Hér er m.a. vísað til sjónarmiða sem hafa komið fram í umræðunni frá samtökum sem berjast sérstaklega fyrir mannréttindum. Ég ímynda mér að um ákvæði af þessum toga gæti verið nokkuð góð samstaða. Eða hver hefur áhuga á að greiða atkvæði gegn því að orðin „og mannréttindi“ komi inn í markmiðskafla grunnskólalaganna? Ég verð að segja að það er svolítið undarlegt að þessi breytingartillaga, sem hefur verið til umræðu, hafi ekki komið inn strax frá allri nefndinni en látum það liggja á milli hluta. Hér er hreyft mikilvægu atriði, það er gríðarlega mikilvægt að mínu mati að í starfi grunnskólanna sé einmitt unnið með mannréttindahugtakið, reynt að skilgreina hvað felst í mannréttindum og gera það má segja að sjálfsögðum hlut í grunnskólastarfi.

Í 2. tölulið í breytingartillögum frá okkur Vinstri grænum, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, er fjallað um breytingu á 11. gr. frumvarpsins sem er um starfsfólk í grunnskólum. Tillagan gengur út á að bæta inn í 2. mgr. 11. gr. orðunum „náms- og starfsráðgjafa“ þannig að hún hljóði svo:

Um skilyrði þess að hljóta ráðningu sem skólastjóri, kennari eða náms- og starfsráðgjafi í grunnskóla fer samkvæmt gildandi lögum þar um.

Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir er ekki talað um náms- og starfsráðgjafa í þessu samhengi. Ástæðan fyrir því að mikilvægt er að okkar mati að bæta þessu inn er að náms- og starfsráðgjafar gegna gríðarlega þýðingarmiklu starfi í grunnskólunum. Ég held að hægt sé að fullyrða það að á undanförnum árum og allmörgum árum hefur umfangið af náms- og starfsráðgjöf í grunnskólunum vaxið mikið og skólarnir hafa sjálfir litið svo á að þetta sé þýðingarmikið viðfangsefni og æ þýðingarmeira. Ég man eftir því, hafandi verið í borgarstjórn í Reykjavík og komið m.a. að skólamálum, átti sæti í fræðsluráði Reykjavíkur um tíma, að þegar verið var að koma á einhverri kerfisbundinni náms- og starfsráðgjöf í grunnskólunum þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna frá ríkinu var talsverð umræða um það — þetta var á árinu 1996 — hversu umfangsmikil náms- og starfsráðgjöfin ætti að vera í grunnskólum. Þá þótti eðlilegt eða viðunandi, skulum við segja, að það væri einn námsráðgjafi starfandi fyrir nokkra grunnskóla sameiginlega, gjarnan einn námsráðgjafi í heilu hverfi þar sem voru fjórir, fimm og allt upp í sex grunnskólar.

Þessi veruleiki er allt annar í dag. Við sjáum það alveg, m.a. í Reykjavík og ég veit að það á við í öðrum sveitarfélögum einnig, að umfang þessa þáttar hefur vaxið mjög mikið. Nú held ég að það sé orðið nánast sjálfgefið að náms- og starfsráðgjafi starfi í öllum grunnskólum meira og minna. Auðvitað kunna að vera einhverjar undantekningar frá því en í meginatriðum held ég að það sé orðið þannig að náms- og starfsráðgjafar séu í fullu starfi í grunnskólunum. Þetta eru gríðarlega mikilvægar starfsstéttir, sérnám sem þar liggur að baki og mikilvægt að það fái sinn sess í grunnskólalögunum.

Í 3. tölulið breytingartillagnanna er fjallað um breytingu á 13. gr. sem fjallar um réttindi nemenda og er gert ráð fyrir að lokamálsgrein þeirrar greinar verði örlítið breytt.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Nemendur eiga rétt á að njóta námsráðgjafar í grunnskóla og ráðgjafar um náms- og starfsval.“

Tillaga á þskj. 1070 gerir ráð fyrir að þessi grein hljóði svo, með leyfi forseta:

„Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af þeim sem hafa leyfisbréf í náms- og starfsráðgjöf.“

Þetta tengist í raun því sem ég sagði áðan og varðar 2. tölulið breytingartillagnanna um náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum og mikilvægi þeirra.

Í 4. tölulið á breytingum á þskj. 1070 er hreyft gríðarlega þýðingarmiklu máli. Þar er breyting við 16. gr. frumvarpsins en sú grein hefur yfirskriftina: Móttökuáætlun og nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Í 1. mgr. 2. málsl. er gert ráð fyrir breytingum á orðalagi, en orðalagið í greininni eins og hún liggur fyrir er svo, með leyfi forseta:

„Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá möguleikum á túlkaþjónustu.“

Augljóst er að þetta er nokkuð veikt orðalag í frumvarpinu, ekki er beinlínis tryggður þessi mikilvægi réttur. Því er breytingartillaga um að greinin orðist svo, með leyfi forseta:

„Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum skal tryggð viðeigandi túlkaþjónusta.“

Hér er grundvallarmunur á orðalagi, annars vegar í breytingartillögunni þar sem lagt er til að foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum skuli tryggð viðeigandi túlkaþjónusta andspænis því sem segir í frumvarpinu að þeim foreldrum skuli greint frá möguleikum á túlkaþjónustu. Það orðalag er afskaplega veikt. Allmikið hefur verið rætt um þessa mikilvægu túlkaþjónustu og flutt hafa verið þingmál um það, m.a. hafa þingmenn úr Samfylkingunni látið sig þetta mál miklu varða og hafa viljað fá framgang þess. Þess vegna má segja að það sé svolítið sérkennilegt að ekki skuli séð fyrir þessum áhersluatriðum Samfylkingarinnar í frumvarpinu og vekur upp vissan ótta um að það sé ekki ásetningur ríkisstjórnarflokkanna að tryggja foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum, það standi ekki til að tryggja þeim viðeigandi túlkaþjónustu heldur einungis að greina þeim frá þeim möguleikum sem eru á því. Við vitum og sjáum auðvitað í hendi okkar hversu mikill efnismunur er á þessu orðalagi.

Ég held að í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í íslensku samfélagi undanfarin ár þar sem mjög mörg tungumál eru móðurmál nemenda í grunnskólum á Íslandi — ég held að ég geti fullyrt að það séu jafnvel 70–80 eða jafnvel fleiri tungumál sem eru móðurmál grunnskólanemenda á höfuðborgarsvæðinu — þá segir það sig sjálft að mikilvægt er að bregðast við þeim breyttu aðstæðum því að slíkar aðstæður voru ekki til staðar fyrir tiltölulega fáum árum. Ég held því að afskaplega þýðingarmikið sé að bregðast við þeim breyttu aðstæðum, koma til móts við nýjar þarfir í samfélaginu, þarfir foreldra sem hafa annað móðurmál en íslensku og sömuleiðis heyrnarlausum foreldrum. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir okkur líka að gera okkur grein fyrir að táknmál er móðurmál fólks og við eigum að meðhöndla það sem slíkt. Það tel ég vera afskaplega þýðingarmikið.

Þessu tengt er einnig 5. töluliður í breytingartillögum á þskj. 1070, þ.e. breytingartillaga við síðustu málsgrein 18. gr., 4. mgr. Þar stendur, með leyfi forseta, í frumvarpinu:

„Eigi í hlut foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.“

Við leggjum til að orðin „leitast við“ falli brott. Þá standi einfaldlega: Eigi í hlut foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál skal skóli tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.

Þessar greinar í breytingartillögunum hanga saman, þær eru í raun um sama efni og sömu röksemdir eiga við um þær og undirstrikar þá skoðun okkar að mikilvægt sé að foreldrar eigi þennan skýlausa rétt. Ég held að allir sjái að í nútímasamfélagi á 21. öldinni, þegar svo mörg tungumál eru móðurmál grunnskólanemenda í landinu, er ekki er annað boðlegt en að tryggja foreldrum þessa þjónustu. Auðvitað mun það þýða og hafa í för með sér kostnaðarauka sem er eðlilegt að taka þá tillit til og tryggja að rekstraraðilar grunnskóla njóti eða fái tekjur til að standa undir þeim kostnaði. Þó segir mér svo hugur að í umræðunni um þessi mál og um kostnaðinn sem fylgir túlkun almennt sé sá kostnaður stórlega ofmetinn. Kunnáttufólk á þessu sviði, fólk sem fæst við túlkun, hvort sem það er túlkun yfir á önnur tungumál eða táknmálstúlkun, hefur sagt mér að slíkur kostnaður sé í raun innan skekkjumarka þegar allt er tekið til og ekki sé sérstök ástæða til að horfa í hann eða að láta hann standa í vegi fyrir því að menn tryggi þau sjálfsögðu mannréttindi sem hér er verið að tala um.

Ég vil þess vegna, herra forseti, leggja áherslu á þetta er atriði sem við teljum afskaplega þýðingarmikið. Eins og ég sagði áðan held ég að í röðum allra stjórnmálaflokka hljóti að vera skilningur á því hversu mikilvægt þetta atriði er og ég minni á að þingmenn úr röðum Samfylkingarinnar hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sem á sæti í menntamálanefnd, hefur m.a. verið að fjalla um þessi mál og flutt þingmál varðandi réttarstöðu íslenska táknmálsins. Ég held því að um þetta ætti að geta orðið sæmilega góð samstaða ef menn a.m.k. (Forseti hringir.) fylgja sannfæringu sinni.

Virðulegur forseti. Ég er búinn með tímann sem ég hef í fyrstu ræðu minni og er aðeins kominn að í 5. tölulið á breytingartillögum frá Kolbrúnu Halldórsdóttur (Forseti hringir.) af 11 og augljóslega á ég mikið ósagt í þessari umræðu og (Forseti hringir.) verð því að áskilja mér rétt til að koma hingað síðar og bið forseta um að setja mig á mælendaskrá á nýjan leik.