135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:51]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta komið út í svolitla vitleysu, ég verð að segja það. Við erum að ræða 10. mál á dagskrá og talað var um að ljúka dagskránni, það eru 13 mál. Við erum að tala um grunnskóla og miðað við hve margir eru á mælendaskrá má búast við að sú umræða geti staðið fram til kl. sex eða sjö í fyrramálið. Framsóknarmönnum verður þá að ósk sinni, þeir hefja umræðu um framhaldsskóla þegar þjóðin er að vakna og geta þá talað fram í daginn.

Nefndarfundir eru boðaðir í fyrramálið. Ég á að mæta á fund í hv. viðskiptanefnd klukkan hálfníu í fyrramálið. Það er ljóst að þetta riðlar öllum þingstörfum sem þegar hafa verið ákveðin ef haldið verður svona áfram. Ég vil því spyrja virðulegan forseta hvort ekki sé ástæða til að skoða með hvaða hætti þinghaldinu verður fram haldið með tilliti til starfa þingsins á föstudeginum, þ.e. sem þegar hefur verið ákveðið fyrir daginn í dag.