135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[02:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að staðnæmast við þrjár greinar í þessu frumvarpi og einskorða málflutning minn við þær. Ég tók til máls við 1. umr. og lýsti yfir ánægju minni þá yfir því hvernig með þessum lögum væri verið að styrkja stöðu fatlaðra nemenda í skólum og vísaði þar í þrjár greinar í frumvarpinu, 17., 40. og 42. gr. Í 17. gr. segir á þá lund að nemendur skuli eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Og síðan er í greininni bætt í fyrri skilgreiningar í lögum um hvaða sérþörfum skuli sinnt.

Í greinargerð með 17. gr. er síðan hnykkt á þessu því þar segir, með leyfi forseta:

„Meginatriðið í stefnunni um skóla án aðgreiningar er að skóli sé með þjónustu fyrir alla nemendur sína, bæði fatlaða og ófatlaða. Gert er ráð fyrir að hver skóli sé fær um að sinna öllum nemendum sínum svo sem kostur er og taka á sérkennsluþörfum og erfiðleikum sem upp kunna að koma í skólanum með viðeigandi stuðningi.“

Síðan hafa orðið deilur. Það hefur risið ágreiningur milli foreldra og skólastjórnenda hvað þetta snertir og í 17. gr. eins og hún var í upphaflegu frumvarpi þá skyldi skólastjórinn ráða. Það var nokkuð sem mér yfirsást hér við 1. umr. málsins.

Nú þekkjum við að viðhorf skólastjórnenda eru mjög mismunandi. Ég hef heimsótt skóla í Kópavogi, svo dæmi sé tekið. Ég held að hann heiti Vatnsendaskóli þar sem er skólastjóri sem er menntaður í þessum fræðum. Þar hefur verið búið svo um hnútana að mjög vel er tekið á móti fötluðum börnum. Öll aðstaða í skólanum er til mikillar fyrirmyndar. Í sumum öðrum skólum hefur ekki eins verið hugsað fyrir þessu og þá lenda skólastjórnendur iðulega í vandræðum vegna aðstöðuleysis. Þá er spurningin hvernig hægt er að knýja kerfið til að breyta sjálfu sér. Það er einfaldlega ekki nógu mikil skrúfa sem sett er á kerfið í greininni eins og hún kom upphaflega fram. Menntamálanefnd leggur hér fram breytingartillögu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Verði ágreiningur um fyrirkomulag skólavistar barns skal við úrlausn hans gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Skal ákvörðun tekin með hliðsjón af áliti sérfræðinga og með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ákvörðun er kæranleg samkvæmt fyrirmælum 47. gr.“

Síðan er fjallað um mál þessu tengd eins og ég gat um áðan í 40. gr. og 42. gr. En í 42. gr. segir, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög geta beitt sér fyrir sérúrræðum innan grunnskóla eða stofnað til reksturs sérskóla þegar almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum eða hag nemenda.“

Hér vil ég vekja sérstaklega athygli á breytingartillögum frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í menntamálanefnd þingsins. Þar gerir hún tillögu um að í stað orðanna „Sveitarfélög geti beitt sér“, þá skuli koma inn orðin: „Sveitarfélög skulu sjá nemendum fyrir sérúrræðum“.

Ég hvet Alþingi til að samþykkja þessa tillögu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem er til þess fallin að styrkja stöðu þeirra nemenda sem þurfa á sérúrræðum að halda.

Að lokum, hæstv. forseti, þá lýsi ég ánægju með þær áherslur sem koma fram í nefndaráliti menntamálanefndar hvað þetta varðar. Hér er hnykkt á því að sú skylda hvíli á sveitarfélögunum að taka ábyrgð á framkvæmd þessara laga gagnvart fötluðum börnum eða nemendum sem þurfa á sérúrræðum að halda því hér segir, með leyfi forseta:

„Skulu sveitarfélög, á grundvelli 1. mgr. 40. gr., tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla.“

Þetta eru lykilorð, „innan grunnskóla“.

Þessar lagaskýringar allar eru mjög mikilvægar vegna þess að þegar fólk sem er að berjast við kerfið og þarf á að halda þá er horft í þessar lagaskýringar. Ég skil að margir skólar geti átt í erfiðleikum með að fullnægja þessum þörfum. En nú er löggjafinn að skapa umgjörð sem þröngvar öllu kerfinu inn á réttar brautir hvað þetta snertir.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða aðra þætti þessa frumvarps. Það hafa aðrir gert hér ágætlega í umræðum í dag og vísa ég sérstaklega í sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur.