135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

288. mál
[02:46]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þetta frumvarp er jafnt upphaf sem endir í fjögurra frumvarpa keðju sem hér áttu að vera til umræðu. Ég verð að byrja á því að lýsa óánægju minni með að ekki skyldi hafa tekist að ræða frumvarp til laga um framhaldsskóla.

Ég fagna því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Það er í beinum tengslum við þau metnaðarfullu frumvörp sem eru hér á leikskólastigi, grunnskólastigi og framhaldsskólastigi. Það leggur hér samfellu frá fyrsta skólastigi fram að inngöngu í háskóla. Þetta frumvarp gerir það líka að verkum að sú hugsun sem ríkir í hinum frumvörpunum þremur með áherslu á nemandann — frumvarpið gerir ráð fyrir sveigjanleika kennara á milli skólastiga og er það vel.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerir að tillögu sinni að þetta frumvarp nái einnig til náms- og starfsráðgjafa. Ég vil benda hv. þingmanni á að það eru fleiri starfsheiti innan skólanna, hvort heldur er innan leikskólans eða grunnskólans, sem eru m.a. þroskaþjálfar, sálfræðingar og fleiri. Það var samkomulag í nefndinni um að það næði til þessara stétta. Það kemur mér því á óvart að koma skuli fram breytingartillaga við þetta frumvarp um að náms- og starfsráðgjafar komi hér inn án þess að frekari skilyrði séu gerð um að auka námskröfur þeirra.

Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að þótt ég styðji kröfu náms- og starfsráðgjafa um lögverndun þess starfsheitis og starfs þeirra innan leik-, grunn- og framhaldsskóla þá get ég ekki fallist á að það komi hér inn í frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við þessi þrjú skólastig.

Hæstv. forseti. Fleira ætlaði ég ekki að segja um þetta annars ágæta frumvarp en ég ítreka óánægju mína með að ekki skyldi vera hægt að ræða frumvarp til laga um framhaldsskóla því að þessi fjögur frumvörp hanga saman og eru samfella í skólastarfi. Þau þarf að ræða saman.