135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

tæknifrjóvgun.

620. mál
[02:50]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, með síðari breytingum.

Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var þann 22. október 2007 af heilbrigðisráðherra en nefndinni var ætlað að endurskoða ákvæði laga og reglugerða um tæknifrjóvganir. Með frumvarpinu er lagt til að breytingar verði gerðar á núgildandi lögum nr. 55/1996, auk breytinga á barnalögum, nr. 76/2003, sem leiði af breytingum á fyrrnefndum lögum.

Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að einhleypum konum verði heimilt með sömu skilyrðum og pörum að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð hér á landi. Samkvæmt núgildandi lögum um tæknifrjóvgun er einungis þeim konum sem eru í hjúskap, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð heimilt að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð. Miklar breytingar hafa orðið á fjölskyldumunstri á undanförnum áratugum og hefur einstæðum foreldrum fjölgað mikið og segja má að sátt hafi skapast um þetta fjölskylduform. Þá er lagaleg staða einstæðra foreldra sterk og ekki hefur verið sýnt fram á að það eitt að alast upp hjá einstæðu foreldri skaði hagsmuni barnsins. Þvert á móti sýna rannsóknir fram á að það virðist ekki hafa neikvæð áhrif á barn að alast upp hjá öðru foreldri í samanburði við uppeldi beggja. Með tilliti til framangreinds og þeirrar staðreyndar að aðstæður kvenna hér á landi sem og annars staðar hafa breyst er eðlilegt að einhleypar konur hafi sama rétt til tæknifrjóvgunar og aðrar konur.

Í öðru lagi er lagt til að skilyrði núgildandi laga um hámarksaldur konu við framkvæmd tæknifrjóvgunar verði breytt. Samkvæmt núgildandi reglugerð um tæknifrjóvgun er meginreglan að kona skuli ekki vera eldri en fullra 42 ára þegar tæknifrjóvgunarmeðferð hefst. Þó er gert ráð fyrir að heimilt sé að víkja frá þessu aldursskilyrði þegar um er að ræða geymds fósturvísis, geymdrar eggfrumu eða gjafaeggfrumu. Konan má þó aldrei vera eldri en 45 ára þegar fósturvísir er settur upp.

Þessar reglur hafa í framkvæmd ekki þótt nægilega sveigjanlegar enda er ljóst að konur eru misjafnlega vel á sig komnar til að takast á við það líkamlega og sálræna álag sem fylgir meðferð, meðgöngu og fæðingu barns. Er af þeim ástæðum lagt til í frumvarpinu að í stað núgildandi aldursmarka verði miðað við að konan sé á eðlilegum barneignaraldri og hafi líkamlega og heilsufarslega burði til að takast á við það álag sem fylgir meðferð, meðgöngu og fæðingu barns.

Í þriðja lagi er lagt til að heilbrigðisráðherra fái heimild til að setja leiðbeinandi reglur um hámarksfjölda fósturvísa sem settur eru upp í leg konu við framkvæmd tæknifrjóvgunarmeðferðar en markmið slíkra reglna er að fækka fjölburafæðingum eins og hægt er. Eftir að farið var að framkvæma tæknifrjóvgunarmeðferðir hefur hlutfall fleirburaþungana aukist mjög en ástæða þeirrar aukningar er að oft eru fleiri en einn fósturvísir settir upp í leg konu. Ljóst er að fjölburaþungunum fylgir aukin áhætta bæði fyrir móður og barn og er af þeim ástæðum eðlilegt að settar verði leiðbeinandi reglur um hámarksfjölda fósturvísa sem settir eru upp í leg konu við framkvæmd tæknifrjóvgunar. Þó skal tekið fram að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjöldi uppsettra fósturvísa í hverju tilviki ráðist endanlega af læknisfræðilegu mati og því verði eingöngu um að ræða leiðbeinandi reglur sem heimilt er að víkja frá þegar það er talið réttlætanlegt.

Í fjórða lagi er lagt til að fellt verði brott skilyrði núgildandi laga um að tæknifrjóvgunarmeðferð sé einungis heimiluð þegar aðrar aðgerðir til að sigrast á ófrjósemi hafi brugðist eða séu ekki tiltækar. Þykir eðlilegt að fella skilyrði um ófrjósemi úr lögunum þar sem þetta skilyrði getur ekki átt við þegar um er að ræða einhleypar konur og ekki ættu að gilda strangari skilyrði að þessu leyti.

Í fimmta lagi er lagt til að kærunefnd sem starfað hefur á grundvelli laga um tæknifrjóvgun og ætlað er að fjalla um synjun læknis um tæknifrjóvgun verði lögð niður. Í frumvarpinu er lagt til að slík mál gangi í staðinn til landlæknis og séu kæranleg þaðan til ráðuneytisins eftir atvikum. Fá mál hafa borist kærunefndinni síðan hún var sett á fót og hefur nefndin því ekki virkað sem skyldi. Með hliðsjón af því má telja að landlæknir sé betur í stakk búinn til að fjalla um mál um synjun læknis um tæknifrjóvgun en kærunefnd sem starfi á grundvelli núgildandi laga.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og tel mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.