135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

tilkynning um dagskrá og tilhögun þingfundar.

[10:38]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég lagði mig sérstaklega fram um að hlusta nákvæmlega á orðalagið sem hæstv. forseti notaði núna af því að í gær var stjórnarandstaðan plötuð í þinginu. Þá sagði hæstv. forseti Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 10. gr. þingskapa um lengd þingfunda væri það tillaga forseta að þingfundur gæti staðið lengur þann dag, þ.e. þar til umræðum um dagskrármálin væri lokið. Þetta var auðvitað alls ekki hægt að túlka sem svo að það ætti að fara inn í nóttina í nótt en það var gert. Við mótmæltum því mjög kröftuglega af því að Framsóknarflokkurinn hafði beðið um tvöfalda umræðu um framhaldsskólafrumvarpið sem er afar umdeilt en síðast í gær kom yfirlýsing frá Félagi framhaldsskólakennara þar sem þeir leggja fast að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla og nota sumarið til að sníða agnúana af frumvarpinu og því var ágætt að stjórn þingsins féllst á að ræða ekki það mál inn í nóttina. En ég tel að við getum ekki verið með fund eins og í nótt til klukkan rúmlega þrjú (Forseti hringir.) og farið svo yfir miðnætti aftur í kvöld. Ég ætla að mótmæla því sérstaklega.