135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[10:50]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er eitt sem fer mjög í taugarnar á fólki í mannlegum samskiptum. Það er hroki og yfirlæti. Við urðum vör við þann hroka í nótt og yfirlæti og við finnum fyrir því strax hér í dag. Það á að keyra á sömu línu, það á að niðurlægja þá sem þarf að semja við og eru hér hluti af þessu þingi.

Þess vegna skora ég á hæstv. forseta að hverfa frá þeirri dæmalausu vitleysu að halda að það sé hægt að bera það hér upp að dagskrá skuli tæmd. Auðvitað verða menn að setjast niður í þinginu og ákveða hvað dagurinn á að vera langur. Það er föstudagur. Þingmenn hafa ekki reiknað með því að vera hér fram á kvöld eða nótt á þessum föstudegi. Og hér eru stór mál á dagskrá.

Ég tel það sjálfsagðan hlut að taka hér langan dag en við verðum að vita hver dagurinn er. (Gripið fram í.) Ég geri þá kröfu til vina minna í stjórnarliðinu að þeir sjái sóma sinn í því að haga sér hér eins og menn. (Forseti hringir.)