135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er náttúrlega dapurlegt að verða vitni að því að við skulum vera að fara úr öskunni í eldinn hvað varðar vinnubrögð í þinginu þegar Samfylkingin fer inn í ríkisstjórn og tekur þar við af Framsókn. Ég held að hv. þm. Bjarni Benediktsson þurfi ekki að setja á þessa löngu og fræðilegu fyrirlestra sína, það hefur enginn haldið því fram að bannað sé samkvæmt þingsköpum að það séu næturfundir. Hitt liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. forseti þingsins, þegar hann mælti fyrir málinu, talaði út frá því að þingstörf yrðu eftirleiðis skipulögð þannig að næturfundir og helst kvöldfundir ættu að heyra sögunni til.

Það sem ég hef gagnrýnt er að forseti er að reyna, og því miður er hv. þm. Bjarni Benediktsson eitthvað að hjálpa honum við það, að láta líta svo út sem það hafi einhverja merkingu að bera hér upp tillögu um að dagskrá fundar skuli tæmd, að þingfundur skuli standa svo lengi. Forseti hefur ekki svarað spurningu minni um hvar því finnst stoð í þingsköpunum. Svarið er auðvitað hvergi. Það er ekki hægt, það er óefnisleg tillaga. Það eina sem forseti getur boðað er að fundur standi lengur.