135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:01]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil vegna orða 3. þm. Suðvest. um túlkun hans á þingsköpunum segja að ég er ósammála þeirri túlkun sem kemur fram í máli hans. Við höfum að sjálfsögðu ekki sagt að ekki megi vera fundur fram á kvöld eða fram á nótt en það verða að vera einhver tímamörk á því. Það er ekki hægt að segja að fundurinn eigi bara að standa eins lengi og verða vill, jafnvel fram á nefndarfundi í fyrramálið eða næsta þingfund eftir helgi.

Í gær var borin upp tillaga um að fundurinn gæti staðið „í dag“, eins og það var orðað, þar til dagskrá yrði tæmd. Við trúðum því að þá merkti það til miðnættis eða þegar deginum lyki og gerðum þess vegna ekki athugasemd við það. Það reyndist vera orðin tóm þegar á hólminn var komið. Ég leyfði mér að kalla það að forseti hefði blekkt þingheim. Forseta mislíkaði það orðalag og gerði athugasemd við það en ég stend samt engu að síður við það. Það verður að vera skýrt gagnvart þingheimi hvað verið er að bera upp og hvað verið er að samþykkja og það er ekki í þessu máli hér.