135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:07]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ræða hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan var um margt athyglisverð og athyglisverðust kannski fyrir það að með henni staðfesti hún það algerlega sem ég hafði fyrr sagt, að í nótt laut hinn stóri meiri hluti í gras fyrir hinum litla, en það var ekki fyrir neinn hroka hins litla. Það var fyrir málefnalega umræðu, það var fyrir málefnalega baráttu fyrir því að hér væru viðunandi vinnubrögð. Það sem okkur var boðið upp á — hver þingflokkur fyrir sig hefur eitt tækifæri á hverri þingönn, tvö á vetri, eitt á hverri þingönn til að fara fram á lengda umræðu um mál. Okkur í Framsóknarflokki var boðið upp á að hin lengda umræða okkar ætti að hefjast einhvern tíma í aftureldingu eða um óttuskeið. Það var það sem stjórnarmeirihlutinn ætlaði að bjóða okkur upp á.

Það eru ekki sæmandi vinnubrögð, það (Forseti hringir.) samrýmist ekki á nokkurn hátt (Forseti hringir.) lýðræðislegum vinnubrögðum, þannig að í nótt (Forseti hringir.) var hrokinn brotinn (Forseti hringir.) á bak aftur, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir.