135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:09]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að afar mikil illindi hafa orðið í þinginu núna og ekki oft sem við upplifum það. Ég tel að ástæðan sé sú uppákoma sem varð í nótt. Þá varð stjórnarandstæðingum algjörlega lokið þegar þeir áttuðu sig á því að stjórnarmeirihlutinn ætlaði virkilega að klára framhaldsskólafrumvarpið í nótt þrátt fyrir að framsóknarmenn hefðu beðið um tvöfaldan ræðutíma í ljósi þess að málið er mjög umdeilt.

Sem betur fer var fallið frá því. Þessi illindi verða til þess að hér er allt í uppnámi núna og ég spái því að það muni ekkert róast fyrr en við náum einhvers konar samkomulagi um hvernig við eigum að klára þingið. Það er mjög lítill tími eftir, við ætlum að hætta á fimmtudaginn og búið er að gera ráðstafanir til þess að þingmenn geti þá farið til annarra starfa og sumir þurfa að fara í vinnuferðir o.s.frv., það verður því mjög erfitt að draga þingið fram yfir það. Ég spái því, vegna þessara illinda sem hafa skapast vegna framgöngu (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutans, að það verði allt meira og minna í uppnámi á næstu dögum (Forseti hringir.) nema menn setjist niður og semji.