135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

Lækkun matvælaverðs.

[11:27]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Fram kom tilkynning fyrir skömmu frá viðskiptaráðuneytinu um að gerð hafi verið úttekt á árangri af því að lækka virðisaukaskatt af matvælum og fella niður tolla eða vörugjöld. Niðurstaðan sem átti að verða sú að þær aðgerðir fyrrverandi ríkisstjórnar mundu leiða til þess að lækka matvælaverð um 14–16% reyndust hafa algerlega mistekist. Lækkun matvæla var ekki nema brot af því sem til stóð af þeirri einföldu ástæðu að verðlagning er frjáls í landinu og smásöluaðilarnir ákveða það verð sem neytendur eru tilbúnir að kaupa miðað við aðstæður á markaði á hverjum tíma. Vandinn er sá að skortur er á samkeppni. Hér eru fáir stórir aðilar á smásölumarkaði sem hafa verðlagninguna í sinni hendi þannig að þessi lækkun mistókst. Hún lenti ofan í vösunum hjá Baugi, Högum og öðrum þeim aðilum en ekki ofan í vasa neytenda. Tíu milljarðarnir sem áttu að fara til neytenda hurfu á leiðinni.

Nú hyggst hæstv. ríkisstjórn beita sér fyrir breytingum sem eiga að leiða til sömu aðgerða, hefja innflutning á hráu kjöti, draga úr tollum og vörugjöldum á matvælin og bæta stöðu neytenda, eða hvað? Ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra: Hefur hann trú á því að þessi vegferð endi á einhvern annan hátt en sú vegferð sem fyrrverandi ríkisstjórn fór í haustið 2006? Er nokkur von til þess miðað við núverandi skort á samkeppni á íslenskum matvörumarkaði að neytendur njóti neins góðs af auknum innflutningi á matvöru og niðurstaðan verði nákvæmlega sú sama og í þessu tilviki að það verði fjársterku smásöluaðilarnir sem hirða milljarðana í sinn vasa en neytendur sitja uppi með sama verð?