135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

Vestmannaeyjaferja.

[11:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og það bendir til þess að ríkisstjórnin hafi í hyggju að vinna með það tilboð sem þrátt fyrir allt barst. Jafnvel þó að það sé væntanlega enn þá eftir leiðréttingu talsvert yfir kostnaðaráætlun, sennilega um 30–40%, ef ég veit rétt. Það eru auðvitað verulegar fjárhæðir þar á ferðinni, kannski 2–4 milljarðar. Þannig er kannski fróðlegt að heyra hvort ráðherrann telur að það sé viðunandi.

Síðan vitnaði ég í þetta opna bréf með það í huga að ráðherrann segði okkur kannski eitthvað um það hvernig hann hyggst mæta þeim vangaveltum sem þar koma fram um Newton-lögmálið og annað slíkt og hvort hann hyggst láta sérfræðinga sína fara yfir það vegna þess að það er full ástæða til að taka athugasemdir af þessum toga alvarlega. Að minnsta kosti er það einnar messu virði að kanna hvort eitthvað sé hæft í fullyrðingum sem þar koma fram.