135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

samkeppni á matvælamarkaði.

[11:42]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn. Því er til að svara að núna á einni viku hafa mér borist tvær skýrslur eða úttektir á hlutdeild fyrirtækja smásala á matvælamarkaði. Annars vegar er samningur sem ég gerði við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í nóvember um úttekt á stöðu neytenda á Íslandi sem ég fékk í hendurnar í síðustu viku og var dreift til þingmanna á mánudaginn var þar sem m.a. er kortlögð hlutdeild á matvælamarkaði auk að sjálfsögðu ýmissa annarra hluta. Í fyrradag kom svo út skýrsla Samkeppniseftirlitsins um viðskiptasamninga birgja og smásala á matvælamarkaði þar sem er yfirgripsmikil úttekt á stöðunni á matvælamarkaðnum sérstaklega og samskiptum birgja og smásala og þar kemur margt gríðarlega athyglisvert fram. Það eru nýjustu tölurnar um hlutdeild á smásölumarkaði fyrir dagvöru og samkvæmt þeim upplýsingum, sem eru byggðar á tekjum matvöruverslana á árinu 2006, voru Hagar með u.þ.b. 50% markaðshlutdeild í sölu á dagvöru í landinu öllu. Kaupás var þá með 22% hlutdeild og Samkaup með 15% hlut. Aðrir keppinautar á matvörumarkaði voru með minni hlutdeild.

Af framangreindu sést að talsverðrar samþjöppunar gætir á matvælamarkaði og það hefur og getur að sjálfsögðu haft samkeppnishamlandi áhrif, sérstaklega þegar litið er til samningsgerða birgja og matvöruverslana. Og það var það sem Samkeppniseftirlitið var sérstaklega að rannsaka. Þetta eru tölur frá árinu 2006 og við munum að sjálfsögðu taka saman nýjustu tölur fyrir árið 2007. Ég mun láta gera það ef það er ekki þá þegar búið. Þetta eru nýjustu tölurnar og þetta stendur nokkuð í stað á milli ára af því að hlutdeildin hefur verið 45–50% hvaða viðmið sem notuð eru.