135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

samkeppni á matvælamarkaði.

[11:46]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni og væri óþolandi ef svo væri. Að því laut úttekt Samkeppniseftirlitsins sérstaklega sem hefur nú staðið lengi yfir. Það er mjög ítarleg og vönduð úttekt til að koma í veg fyrir að stórir aðilar beiti markaðsráðandi stöðu sinni, misnoti markaðsráðandi hana með einhverjum hætti til að níðast annað hvort á neytendum eða framleiðendum. Þess vegna var þessi úttekt sérstaklega gerð. Besta vörn okkar gegn aukinni samþjöppun, gegn fjarlægð frá öðrum mörkuðum, gegn fákeppni — af því að við búum í þjóðfélagi þar sem fákeppni er á flestum sviðum — er virkara samkeppniseftirlit en nokkurn tíma áður og strangari löggjöf.

Þess vegna var það sérstakt fagnaðarefni að viðskiptanefnd afgreiddi út nú í morgun ný samkeppnislög þar sem samrunar eru gerðir tilkynningarskyldir fyrir fram. Það er alveg sérstök vörn gegn frekari samþjöppun í íslensku samfélagi. Fjárheimildir til Samkeppniseftirlitsins voru auknar um 30% á síðasta ári og vonandi getum við (Forseti hringir.) gert það áfram og stóreflt þannig samkeppnislöggjöfina eins og verið er að gera hér í þinginu þessa dagana.